23.07.1931
Neðri deild: 10. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í C-deild Alþingistíðinda. (2223)

69. mál, útvarp

Jónas Þorbergsson:

Ég get ekki verið svo lítillátur að taka þegjandi við þessum föðurlegu áminningum hv. þm. um það, að mér beri ekki að tala um mál, sem ég ber skyn á. En þar sem ég er nú kunnugur þessu máli, þá verð ég að leyfa mér að taka til máls, þegar bornar eru fram till. byggðar á jafnlitlu viti og þetta frv. og án þess að álíta það nokkra goðgá. Það virðist svo sem hv. flm. standi stuggur af grg., sem fylgdi frv. í vetur, og er það afsakanlegt, þar eð hann mun hafa leitað í henni án þess að finna ástæður, sem réttlættu frv.

Ég álít ekki rétt að fara út í einstök atriði eins og hv. flm. Þó get ég ekki látið hjá líða að minnast á eitt atriði. Hv. flm. segir, að ríkisrekstur með svona lagaða vörutegund sé varasamari, vegna þess að hún sé ný og menn beri lítið skyn á gerð tækjanna, og því sé varhugaverðara að hafa þetta undir skipulagi og eftirliti ríkisins. En ástandið var nú þannig áður en einkasalan tók við sölu tækjanna, að hún var í höndum fúskara, sem lítið þekktu til tækjanna, fluttu inn fjölda mismunandi tegunda af lélegum tækjum og tróðu þeim upp á hvern mann. Í hinni frjálsu, skipulagslausu verzlun er engin trygging fyrir því, að varahlutar séu fyrir hendi, eða að tækin, sem tekin eru, séu góð. Sérfræðingurinn Gunnl. Briem gerðist ráðunautur útvarpsins um að velja hin beztu tæki. Og mig furðar satt að segja á aðstöðu hv. flm. til sérfræðinnar í landinu, og þykir kynlegt, að hann skuli hafa slíka ótrú á þessari sérfræðigrein. En ég álít þessu betur komið í höndum Gunnlaugs Briems og forstöðumanns verzlunarinnar en í höndum fjölmargra þekkingarsnauðra lausaprangara, sem hirða um það eitt að hafa nokkurn stundarhagnað af verzlun með þessi tæki.