11.08.1931
Efri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (223)

1. mál, fjárlög 1932

Einar Árnason [óyfirl.]:

Hv. þm. Snæf. sagði, að hv. l. landsk. hefði ekki viðhaft ummælin, sem ég hafði eftir honum um þingræðisstjórn, heldur hefði hann nefnt lýðræðisstjórn. Annaðhvort er hér um misskilning eða misheyrn að ræða. Orð hans féllu þannig: Framsóknarflokkurinn einn getur ekki nú sett á fót annarskonar stj. en bráðabirgðastj. Og hv. 1. þm. Reykv. sagði: Framsóknarflokkurinn hefir engan rétt til að mynda aðra stj. en bráðabirgðastjórn.

Bráðabirgðastj. er ekki þingræðisstj., svo hefir alltaf verið skilið, enda hefir hv. l. þm. Reykv. játað, að svo sé. Að tala um lýðræðisstjórn er einber hégómi. Ef talað er um lýðræðisstjórn, má segja, að hv. þm. Snæf. sé ekki réttur þm., þar sem hann hefir minni hl. kjósenda að baki sér. Þetta er hégómi, sem aldrei hefir áður verið talað um.

Það er ekki einsdæmi, þótt meiri hl. þings hafi minni hl. þjóðar að baki sér. Ég man ekki, hvernig það var hér 1924. Hv. 1. þm. Reykv. vildi e. t. v. skýra, hvernig afstaðan var þá. Þessi ummæli eru einskis virði, hve oft, sem þau eru sögð.

Hv. þm. Snæf. og hv. 1. þm. Reykv. voru að karpa út af vegamálum. Hv. þm. Snæf. sagði, að vegur hefði ekki verið fullgerður frá Borgarnesi að Bólstaðarhlíð, af því að féð hefði farið til tveggja annara vega. En í áætluninni var alls ekki meiningin að hætta alstaðar, nema á þessari einu leið. Og þótt vegaféð hefði eingöngu verið til þess vegar, þá hefði ekki verið hægt að fullgera hann, enda var það aldrei tilætlunin.

Hv. l. þm. Reykv. hélt ræðu með mörgum stórum orðum og talaði um, að í bók þessari, sem mikið hefir verið talað um, væru falsaðar frásagnir. Ég ætla ekki að fara út í það, en ef hann ámælir fyrir fals, þá ætti hann ekki að gera sig sekan í því sama. Ég verð að segja hv. þm. brjóstheilan, þegar hann leyfir sér að rangfæra ummæli upp úr bók, sem liggur opin fyrir framan mann. Hann segir, að í bókinni standi, að nú sé kominn akvegur til Húsavíkur, og í því á hann við upphleyptan veg. En í bókinni stendur: Nú er svo komið, að telja má vel bílfæran veg til Húsavíkur, þótt á köflum sé um ruddan veg að ræða. — Þegar hv. þm. leyfir sér að fara rangt með það, sem öllum stendur opið að ganga úr skugga um, þá er erfitt að treysta því, að hann fari rétt með, þegar enginn getur þekkt til og sagt um, hvort satt er eða logið. Hv. þm. hefir alla tíð gengið með höfuðið fullt af Gróusögum. Hann fullyrðir og fullyrðir, en kemur ekki með neinar sannanir.

Hv. þm. þykist geta sagt, hver ástæðan hafi verið til þess, að Framsóknarflokkurinn vann við síðustu kosningar. Hann fullyrðir, að ástæðan hafi verið sú, að Framsókn hafi notað skuldakeyri á bændurna, — að kjósendur hafi verið svo skuldugir, að þeir hafi orðið að kjósa eins og vissir menn sögðu þeim. Það getur verið, að sú sé skoðun hv. þm. Reykv., að menn hafi sér æfinlega eftir því, hvort þeir geti haft áhrif með því að kúga með skuldum. Það getur verið, að hann þekki þetta frá eigin ferli. Ég veit ekki, hvort peningastofnanir landsins hafa sýnt hv. þm. fram á slíkt. (JakM: Hv. þm. getur farið í bankana og séð, hvað ég skulda). Hitt veit ég, að báðar aðallánsstofnanir landsins hafa óskað eftir því að vera lausar við þennan mann.

Sé ég ekki, að fleiru þurfi að svara, því að það, sem hv. þm. sagði, voru órökstudd stóryrði og sleggjudómar um bókina.