12.08.1931
Neðri deild: 27. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í C-deild Alþingistíðinda. (2240)

70. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Á þskj. 151, sem er nál. sjútvn. um þetta mál, er lagt til, að frv. verði fellt, en í stað þess gerðar lítilsháttar breyt. á gildandi lögum, þannig að bætt sé við 8. gr. tveim brtt. Í sömu hv. n. var frv. okkar alþýðuflokksmannanna, en sjútvn. lætur ekkert vita um það, hvort hún getur fallizt á nokkuð í því, né veitt því aðra afgreiðslu en þá, að leggja það til hliðar um leið og hún gerir þessar brtt. Till. n. eru sáralítil bót frá því, sem nú er, og stórmiklu verri en lagt var til í frv. mínu og brtt. hv. þm. Vestm.

Í frv. mínu var lagt til, að veiðitíminn yrði lengdur. Og í því var ennfremur lagt til, að ríkisstjórnin setti reglugerð um möskvastærð netja og hve smáan fisk mætti veiða. Hvað sem líður veiðitímanum, þá var sjálfsagt að taka þetta upp. Með því mátti koma í veg fyrir, að ungviði væri drepið. Með því einu, að banna að hagnýta fisk undir vissri stærð, hverfur hvötin að afla þess fiskjar. Mig furðar á því, að hv. n. tók ekki þetta upp, einkum þar sem hún lætur sem sér sé annt um fiskistofninn. En það lítur út fyrir, að hv. n. hafi ekki viljað líta þetta frv. augum.

Þá fólst það einnig í mínu frv., að 8. gr. félli í burt. En efni hennar er það, að ríkisstj. sé heimilt að takmarka, samkv. till. sveitarstjórna, dragnótaveiðar í landhelgi, fram yfir það, sem lög nú ákveða. En ég segi: Það er broslegt, þegar búið er að setja bann gegn dragnótaveiðum í 9 mánuði, að fara þá enn að bæta við ákvæðum, að ríkisstj. geti alveg bannað þessa veiði. Hv. n. telur þetta þjóðráð: Að auka vald ríkisstj. til þess að banna á þeim tíma, sem leyft er, og leyfa á þeim tíma, sem bannað er. En ef þessu á að fara fram, þá er engin ástæða til þess að hafa lög. Það er þá miklu nær sanni, að stj. hafi þetta eins og hún vill, en veiti það af náð þeim, sem henni sýnist. En ég verð að vita afgreiðslu sjútvn. á öllu þessu máli.

Ég hlustaði á ræðu hv. þm. Borgf. og fleiri í gær, sem eru mjög andvígir því, að nokkuð sé slakað til á banni gegn dragnótaveiðum. Ýmislegt hjá hv. þm. Borgf. kom mér undarlega fyrir sjónir, og virðist mér sumt af því lítið styðja þann málstað að banna dragnótaveiðar í landhelgi, t. d. það, að almennt álit landsmanna væri, að friða bæri kolann, eins og hann orðaði það, og að 11 hreppar í Þingeyjarsýslu hefðu skorað á stj. að banna dragnótaveiðar. Ég hefi það fyrir satt, að einn af þessum hreppum liggi alls ekki að sjó, a. m. k. þá mjög lítið land. Yfirleitt er það svo, að þeir tala mest um Ólaf konung, sem hvorki hafa heyrt hann eða séð. Það er undarlegt, að þessar áskoranir koma mest frá þeim héruðum, þar sem kolaveiðar koma að litlu gagni, að öðru en því, að hægt er að fá kolann til matar. Ég held, að það hafi verið hv. 1. þm. S.-M., sem upplýsti á þingi í vetur, að hann væri ekki mjög andvígur því að slaka á ákvæðum laganna í þessu efni. Hann benti á, að í hans héraði hefði verið alsiða að borða kola á sumardaginn fyrsta, og sá siður hefði haldizt fram á hans elliár, en nú væri þetta ekki hægt. Skildist mér, að honum væri mjög mikið áhugamál, að hægt væri að hafa kolann sem hátíðamat. Menn gera sér ekki ljóst, að hér er um að ræða tekjustofn fyrir smábátana, sem skiptir hundruðum þúsunda eða jafnvel millj. kr.

Allur kolaútflutningur okkar núna nemur um 500–800 smál. á ári, en allur koli, sem veiddur er við strendur landsins, er 10 þús. smál., en þar af veiða Bretar 90%, en við Ísl. höfum hæst komizt upp í 8%. Kolinn er dýrasti fiskurinn, sem hér er veiddur, er keyptur á 40–60 au. kg., þegar hann kemur frá bátunum; hann er yfirleitt keyptur 6–10-földu verði á við það, sem þorskur er keyptur. Með því að hafa veiðitímann svo stuttan eins og nú er, er ekki að vænta, að bátaútvegsmenn fari að leggja út í þann kostnað að afla sér veiðarfæra, sem kosta upp undir 3 þús. kr.

Ég ætla, að hv. þm. Borgf. tæki svo til orða, að það hefði haft mjög mikla þýðingu fyrir fiskveiðar okkar, hvað við hefðum friðað vel landhelgina okkar. Ég veit ekki, hvað hv. þm. meinar með þessu. Mér er ekki kunnugt um, að landhelgin hafi verið friðuð fyrir öðru en dragnótum og botnvörpum. Mér er ekki kunnugt um, að koli hafi verið friðaður fyrir öðrum veiðibrellum. Hv. þm. vill með þessu orðalagi láta líta út fyrir, að hið sama gildi um botnvörpu og dragnót, sömu ástæðurnar séu fyrir hendi til að banna dragnót og botnvörpu. En þetta er blekking, því þetta eru algerlega óskyld veiðarfæri. Dragnótin vegur um 70–80 pd., og hún er notuð til kola- og ýsuveiða, þar sem enginn gróður er. Hún getur því ekki spillt ungviði þorsksins, sem ekki heldur sig á þessum svæðum. Náttúrlega fækkar kolanum því meir, sem þessum veiðarfærum fjölgar, en ef notað er ákvæði, sem sett er í frv. mitt um möskvastærð dragnóta, ætti það ekki að vera svo mikið. Mér er ekki kunnugt um, að landhelgin hafi verið friðuð fyrir öðrum veiðarfærum en þessum tveimur. Og ég álít sjálfsagt að banna botnvörpuveiðar í landhelgi.

Eftir skýrslu Árna Friðrikssonar eru afleiðingarnar af friðun kolans þær, að honum bæði fækkar og minnkar. Mér er óskiljanlegt, að hv. þm. skuli blanda því saman eða halda því fram, að ef slakað sé til á banni gegn dragnótaveiðum, þá verði strax að setja bann gegn botnvörpuveiðum. Hér er ekkert samband á milli. Ég sé ekki, þó að bann gegn dragnótum sé víkkað, að það hafi nein áhrif á það. hvort bann gegn botnvörpum sé gert strangara en það er, vegna þess, að það er af öðrum ástæðum, sem dragnótaveiðar eru bannaðar en botnvörpuveiðar. Hv. þm. gat þess líka, að ef annaðhvort frv. yrði samþ., sem fyrir liggur um víkkun dragnótaveiða, þá myndi af því leiða, að Íslendingar yrðu að taka upp friðun á einstökum svæðum og jafnvel klak. Eftir skýrslu Árna Friðrikssonar, sem hv. þm. leggur svo mikið upp úr, fer svo, að við verðum að taka upp friðun á einstökum svæðum og klak. Ég sé heldur ekkert athugavert við það. Mér finnst eðlilegt, að gert sé ráð fyrir, að það þurfi að auka kolastofninn frá því, sem nú er, líkt eins og verið er að auka lax- og silungastofn í ám og vötnum. Ég veit, að það er gert bæði í Danmörku og Þýzkalandi. Kolinn er tekinn á vissu vaxtarstigi og fluttur í annað haglendi, ef svo mætti að orði komast. Mér þykir líklegt, að Íslendingar vilji leggja mikla rækt við að halda þessum fiskstofni við, en ekki banna veiðina og láta útlendinga græða tugi þús. á því að veiða þennan fisk, en fá ekki eyri sjálfir. Það er lítil skynsemi í því. Sumir sjá ofsjónum yfir því, að ef slakað er á dragnótaveiðunum, þá séu það ekki Íslendingaa einir, sem njóta góðs af, heldur líka Danir, og það er líka rétt. En ég hefi litla trú á því, að Danir fari að stunda veiðiskap hér í desember, janúar og febrúar. Mér þykir ótrúlegt, að veiði Dana aukist mjög, því eins og við stöndum þeim framar í veiðiskap, mun sýna sig, að við stöndum þeim framar í þessu. Ég veit, að sumir álíta, að Danir séu einhverjir snillingar að veiða með dragnótum. Þeir eru vanir þessari veiði í sínum farvötnum, þar sem þeir eru kunnugir og þekkja strauma og botn, en þegar þeir koma hingað ókunnugir, þá er öðru máli að gegna. Við Íslendingar erum þessum veiðum kunnugir, og eins og með aðrar fiskveiðar veltur mest á þvi. Það er lítil skynsemi í því að hafa af sjálfum sér stórtekjur, til þess að koma í veg fyrir, að Danir geti aukið sínar tekjur. Hlutfallið milli veiði Dana og Íslendinga hefir undanfarið verið nokkurn veginn 1:3–4. Ég geri ekki ráð fyrir, þó að veiðitíminn sé lengdur, að hluti Dana aukist hlutfallslega á við hluta okkar Íslendinga, því smábátar gætu hér notað þessa aðferð, en sennilega myndu Danir ekki senda hingað nema nokkuð stóra báta. Hv. þm. gat þess líka, að Berlingske Tidende segðu, að mikill viðbúnaður væri í Danmörku með að senda stóran flota til kolaveiða hingað upp. Mér kemur þetta á óvart. Ég sá einhverja grein, þar sem talað var um, að um 60 skip væru ferðbúin í Danmörku til þess að leggja af stað strax og frv. væri orðið að lögum. Þetta var ótrúlegt, því þó að frv. yrði að lögum, þá byrjaði veiðitíminn ekki fyrr en 1. ág., og þeir hefðu því lítið að gera hingað strax. Þessar sögusagnir eru mjög ýktar, en mér dettur ekki í hug að neita því, að veiði Dana muni aukast frá því, sem nú er, ef tíminn verður lengdur. Að þetta mál er sótt af meira kappi nú en áður, hefir sínar einföldu ástæður. Það má telja víst, að upp verði teknar ferðir til Englands og annara landa með kældan og ísvarinn fisk.

Ég held, að það sé ekki fleira, sem ég hefi ástæðu til að taka fram viðvíkjandi ræðu hv. þm. Borgf. En ég vildi spyrja hann og fleiri, sem mest tala um ágæti kolafriðunarinnar, hverjir hafa gott af henni. Það eru ekki bátaútvegsmenn, og ekki nema að litlu leyti togaraflotinn hér við land. Þeir, sem mest veiða af kola hér við land, eru Englendingar, þeir, sem mest sækja inn í landhelgi og minnst virða landhelgislögin.

Sannleikurinn í þessu efni er í raun og veru sá, að kolafriðunin er í því fólgin, að við friðum innan landhelginnar fyrir okkur sjálfa, til þess að bæði útlendir og innlendir hafi tækifæri til að veiða kolann bæði utan og innan landhelginnar. Þetta er friðunin, sem hv. þm. Borgf. og fleiri eru svo hrifnir af.