24.07.1931
Neðri deild: 11. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í C-deild Alþingistíðinda. (2268)

76. mál, jarðræktarlög

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Hv. þm. Borgf. hlýtur að skilja, að það er meginmunur á þeirri yfirstjórn bændanna, sem fengist á þann hátt, sem ætlazt er til með breyt. þessari, að allir bændur landsins ættu beinan þátt í því að kjósa stjórn Búnaðarfél., og hinsvegar því fyrikomulagi, sem nú er, þar sem aðeins nokkur hl. þeirra hefir íhlutunarrétt gegnum landbn. Alþ. Ef búnaðarþingið kýs stjórnina, þá eru yfirráðin beint í höndum allra bænda landsins. Og við það átti ég, þegar ég talaði um að færa valdið yfir í hendur þeirra sjálfra.

Hv. þm. kom með gömlu mótbáruna gegn þessu, að þar sem Alþ. legði Búnaðarfél. allt starfsfé, þá væri ekki nema rétt, að það hefði íhlutun um meðferð fjárins. En ég vil benda hv. þm. á, að Búnaðarfél. var um margra ára skeið búið að hafa þetta fé til ráðstöfunar áður en nokkrum datt í hug að setja þetta skilyrði fyrir fénu. Og það eru fjölmargar aðrar stofnanir, sem veitt er fé af Alþ., sem ráða algerlega yfir því sjálfar. Ég veit ekki um neinar aðrar stofnanir en Búnaðarfél. Ísl., sem sett eru slík skilyrði sem þetta. Aðvísu er því fengið meira fé en öðrum stofnunum, en ég sé ekki, að það út af fyrir sig geri nauðsynlegar slíkar ráðstafanir, nema það sé sýnt og sannað, að bændunum sé ekki trúandi til að fara með féð.

Þegar það ákvæði var samþ., að stj. Búnaðarfél. skyldi skipuð af Alþ., stóð svo á, að verið var að samþ. jarðræktarlögin, og þá voru þau rök færð fyrir þessu, að Búnaðarfél. fengi gegnum jarðræktarlögin svo mikið fé í hendur, að ekki væri nema sjálfsagt, að Alþ. réði einhverju um meðferð þess. En lögin voru útbúin þannig, að Búnaðarfél. Ísl. fékk engan íhlutunarrétt um meðferð þessa fjár. Í lögunum sjálfum var ákveðið, hvernig því skyldi ráðstafað. Búnaðarfél. átti aðeins að annast skrifstofustörf fyrir hið opinbera. Vegna jarðræktarstyrksins var því engin ástæða til að taka af fél. það vald, að skipa sína eigin stjórn.

Hv. þm. virtist hálfgramur við síðasta búnaðarþing, Vegna þess að það hefði ekki ráðgazt við Alþ. um þessa breyt. En búnaðarþingið hefir með þessari ákvörðun aðeins látið uppi skoðun sína og beiðni til Alþ. En þar sem allt vald í þessum málum er í höndum Alþ., var ekki ástæða til þess að ræða málið á annan hátt en þann, að bera fram frv. um það hér á þingi, eins og nú hefir verið gert.

Það er ekki rétt, að nokkuð af löggjafarvaldi Alþ. hafi verið lagt í hendur Búnaðarfél. Því hefir aðeins verið fenginn mjög takmarkaður ráðstöfunarréttur. En aðalkjarni þessa máls, sem nú er um deilt, er þessi: Annaðhvort er bændunum trúandi til þess að fara með þetta vald eða ekki. Sé þeim ekki trúandi til þess, er bezt að stíga sporið alveg og leggja Búnaðarfél. undir eina deild í atvmrn., enda er það skoðun ýmissa, bæði bænda og annara. Sé þeim hinsvegar trúandi fyrir þessu, þá eiga þeir að ráða Búnaðarfél. og bera á því ábyrgð. Hér er ekkert millispor til. Ef þeir hafa sýnt sig ófæra til þess að fara með valdið, þá á að taka það allt af þeim. En þetta millispor, þar sem verið er að rugla saman valdi búnaðarþingsins og valdi Alþ., er mjög svo óeðlilegt. Það er enginn vafi á því, að málum landbúnaðarins er bezt komið, þegar bændurnir sjálfir taka lifandi þátt í að ræða og ráða til lykta þeim vandamálum, sem hverju sinni liggja fyrir.