24.07.1931
Neðri deild: 11. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í C-deild Alþingistíðinda. (2274)

76. mál, jarðræktarlög

Pétur Ottesen:

Af því að ég fæ ekki að gera nema örstutta aths., get ég ekki nú rakið þau gögn, sem til eru fyrir því, að Alþ. hefir falið Búnaðarfél. margvíslegar framkvæmdir í þeirri löggjöf, sem snertir landbúnaðinn, og þegar hv. þm. Mýr. talar um það í sambandi við íhlutun um stjórn fél., að það sé sama, hvort Alþ. skipi 2 menn í stjórnina eða ekki, nær það ekki nokkurri átt, þegar litið er á framkvæmdir Búnaðarfél. að öðru leyti. Það er því sjálfsagt, að Alþ. tryggi með íhlutun sinni heppilega framkvæmd þessara mála. Þetta er svo augljóst mál, að ekki þarf um það að deila.

Hv. þm. Mýr. sagði, að hann vildi heldur, að málefni Búnaðarfél. væru í höndum lifandi, starfandi stofnunar en að þau væru lokuð inni í myglaðri skrifstofu í stjórnarráðinu. Ég get verið hv. þm. sammála um þetta, og vil einmitt með aðstöðu minni stuðla að því, að þessi starfsemi sé og verði í höndum lifandi félagsskapar, nefnilega Búnaðarfél. En hitt er mér ekki eins kunnugt um og honum, að allt sé fullt af myglu og fúa í stjórnarráðinu. Annars skal ég ekki deila um þetta við hv. þm. Hann veit þetta miklu betur en ég. Hann kemur oftar í stjórnarráðið en ég, enda er hann tryggur og fylgispakur þeirri stjórn, sem ríkir þar í myglunni og dauðanum að hans dómi.

Þegar þetta mál var borið fram hér á þinginu 1929, var hæstv. forsrh. eins og ég á móti því, og er enn að því er mér virtist á móti því. Hæstv. forsrh. var að tala um skipun nefndar til undirbúnings löggjafar um yfirstjórn búnaðarmála, og því meiri ástæða er til að gera nú ekkert í þessu máli, þar sem það mundi þá heyra undir starfsemi þessarar nefndar. Það eitt nægir til þess að fara ekki að gera neina breyt. á þessu máli nú á þessu þingi, því vel gæti svo farið, að það kæmi í bága við endanlega rannsókn og tillögur í þessu máli.