24.07.1931
Neðri deild: 11. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í C-deild Alþingistíðinda. (2275)

76. mál, jarðræktarlög

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Það er misskilningur hjá hv. 4. þm. Reykv., að ég hafi haldið því fram, að Alþ. hefði enga íhlutun um meðferð fjár Búnaðarfél. Ég tók það skýrt fram, að Búnaðarfél. legði fjárhagsáætlun sína fyrir Alþ., og hefir það þá íhlutun, að það samþ. fjárhagsáætlunina.

Ég hélt því fram, að þessi íhlutun yrði sú sama, þótt Búnaðarfél. skipaði sjálft alla stj. Og ekki þarf að deila um það, að Búnaðarfél. ræður meiru um framkvæmdir sínar, ef það skipar alla mennina í stjórn, heldur en ef það skipar aðeins einn þeirra. Það er þetta vald, sem ég er að sækjast eftir. En þeir, sem eru á móti þessu frv., trúa Búnaðarfél. ekki fyrir því valdi.

Það er rétt, að Búnaðarfél. hefir haft ýms löggjafarstörf með höndum fyrir Alþ. Búnaðarfél. hefir framkvæmdir með höndum í ýmsum málum, sem búnað varða, og er í ráðum með atvmrh.

Hv. þm. spurði mig, hvort það væri mikil mygla í stjórnarráðinu nú. Ég skal segja honum, að í búnaðarmálunum er þar engin mygla. En þó að þetta fyrirkomulag geti gengið, þegar svo stendur á, að sami maður er atvmrh. og í stjórn Búnaðarfél., er það ekki þar með sagt, að svo verði um hvaða atvmrh. sem er. Þá getur svo farið, að þar verði áður en nokkur veit af komið íhald, fúi og mygla.