24.07.1931
Neðri deild: 11. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í C-deild Alþingistíðinda. (2278)

77. mál, varnir gegn berklaveiki

Flm. (Vilmundur Jónsson):

Þetta mál hefir legið fyrir hv. d. áður, þó að það hafi ekki náð afgreiðslu. En það er ekki af því að nein veruleg mótstaða hafi verið gegn því. Sá eini, sem gekk á móti því á þinginu 1930, var þáv. hæstv. dómsmrh. En mótstaða hans hafði ekki meiri áhrif en svo, að honum tókst ekki að fá eitt einasta atkv. á móti málinu hér í d. Það var lítið falla með þeim einkennilegu atburðum, að þátttakan í atkvgr. var úrskurðuð ónóg því til samþykktar.

Málið er ekki þannig vaxið að um efnisbreyt. sé að ræða á berklavarnarlögunum, heldur er hér farið fram á að breyta orðalagi málsgr., sem er svo óheppilega orðuð, að það hefir gefið stj. átyllu til þess að telja sig einráða um daggjöld berklasjúklinga í sjúkrahúsum einstakra manna og bæjarfélaga. Sjúkrahúsin taka við berklasjúklingunum, úrskurðuðum fyllilega styrkhæfum úr ríkissjóði, í góðri trú um vissa greiðslu samkv. töxtum sínum, en svo dragast greiðslurnar á langinn og ári síðar kemur ef til vill úrskurður um allt önnur daggjöld eða neitun um nokkra greiðslu.

Nú er það að vísu svo, að slíkt háttalag ríkisstj. er fullkomlega ólöglegt og sjúkrahúsunum því unnt að ná rétti sínum með málsókn. En til þess að fyrirbyggja rekistefnu og óþægindi, sem af slíkum endalausum málsóknum mundi leiða er hér farið fram á að taka af öll tvímæli um það, að fyrst skuli með nægilegum fyrirvara reynt að ná samningum við sjúkrahúsin, og síðan, ef það tekst ekki, að stj. skuli úrskurða hámark gjaldanna á sanngjörnum grundvelli. Með þessu er ekkert vald tekið af stj., sem hún hefir nú til þess að gæta réttar ríkissjóðs gagnvart sjúkrahúsunum.

Ég legg til, að málið verði afgr. án þess að vísa því til nefndar.