24.07.1931
Neðri deild: 11. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í C-deild Alþingistíðinda. (2283)

82. mál, prestakallasjóður

Flm. (Magnús Jónsson):

Ég get ekki, eins og margir aðrir hv. þdm., fylgt þessu frv. úr hlaði með þeim orðum, að það hafi legið fyrir d. áður. Hér bregður nefnilega svo merkilega við, að hér er frv., sem ekki hefir legið fyrir d. áður. En hér var samt fyrir nokkrum dögum frv., sem mjög er skylt þessu. Það var frv. um læknishraðasjóði. Það gaf mér hugmyndina um að flytja þetta frv.

Það er laukrétt hugsun, sem liggur til grundvallar þessum frv. báðum, nefnilega sú, að ef embætti einhverrar stéttar eða starfsemi eru ekki öll skipuð á einhverjum tíma, þá á sú starfsemi rétt á að njóta þess fjár, sem þannig sparast. Þetta er alveg hliðstætt um lækna- og prestsembættin. Og hér er ekki verið að leggja neinn bagga á herðar þess opinbera, því það er einmitt gert ráð fyrir því, að það sé fært um að launa öll embættin. En fyrirkomulag þessa sjóðs er dálíið annað en læknishéraðasjóðsins. Það hefir nú í seinni tíð verið gert mikið að því að byggja læknisbústaði og ætlanin að styrkja þá viðleitni með sjóðnum. Það er ekki víst, að menn kærðu sig um hliðstæða meðferð á fé prestakallasjóðsins. En annara er fyrirkomulagið í smærri atriðum algerlega undir meðferð Alþingis komið. Þó að ég hafi samið frv. í þessu formi, er ég fús til þess að taka öllum skynsamlegum brtt., en grundvallaratriðin eru svo mikilvæg, að ég þykist vita, að hið háa Alþingi vilji sinna málinu.

Nú sem stendur eru nokkur prestaköll óveitt af því einu, að laun presta eru svo lítil, að menn fást varla til þess að takast starfið á hendur. Þess vegna er sízt ástæða til þess að vera að draga frá kirkjulegri starfsemi það fé, sem til hennar er ætlað. Vil ég svo óska þess, að frv. verði vísað til sömu nefndar og hinu frv., sem ég gat um áður.