15.08.1931
Efri deild: 30. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (230)

1. mál, fjárlög 1932

Frsm. (Einar Árnason) [óyfirl.]:

Eins og þskj. 283 ber með sér, eru till. þær, sem fjvn. ber fram við frv., hvorki margar né stórvægilegar. Fyrir n. hönd get ég því verið mjög stuttorður. Ástæðurnar fyrir því, að n. flytur svo fáar brtt., eru teknar fram í nál. á þskj. 286, og vil ég ekki vera að endurtaka þær hér.

Ég skal þá undir eins snúa mér að því að gera stutta grein fyrir hverri einstakri brtt.

1. till. n. er sú, að hækka framlagið til nýrra símalína um 10 þús. kr. Til þessarar hækkunar liggja einkum tvær ástæður. Hin fyrri er sú, að Slysavarnafél. Ísl. hefir sent n. erindi, og sjálf félagsstj. hefir komið á fund n. og skýrt frá því, að mjög bagalegt væri, að ekki skuli vera símalína frá Sandgerði til Stafness. Eins og hv. þdm. er kunnugt, hefir nú verið lagt allmikið í kostnað til þess að koma upp björgunarbát á þessum slóðum. Vegur hefir verið byggður með ærnum tilkostnaði, til þess að flytja bátinn eftir á milli Stafness og Sandgerðis. Komið hefir verið upp fluglínustöð og skipverjar ráðnir á björgunarbátinn. Slysavarnafél. hefir, bæði þarna og annarsstaðar, þar sem slysahætta er mest, gengið ötullega fram í því að gera ýmsar ráðstafanir, lagt á sig mikla fyrirhöfn og mikil fjárútlát, til þess að reyna að afstýra slysunum. Nú stendur svo á, að enginn sími er á milli hinna tveggja umgetnu staða, en vegalengdin á milli þeirra mun vera um 7–8 km. og dreifð byggð á þessu svæði. Björgunarbáturinn er geymdur í Sandgerði, en hinsvegar er talið, að mesta áhættusvæðið sé um Stafnes. Því er það, að ef slys ber að höndum og skip stranda við Stafnes, þá þarf í skyndi að gera ráðstafanir til þess að koma bátnum og björgunartækjunum þangað frá Sandgerði, og jafnframt þarf að ná saman mönnum þeim, sem þarf til þess að björgun geti farið fram, og þá fyrst og fremst skipverjum, og einnig mönnunum, sem starfrækja fluglínustöðina. Alls munu menn þessir vera um 30 og búa dreifðir um stórt svæði. Það er því auðsætt, að nokkur tími getur farið til þess að ná í þá, þar sem enginn sími er til hjálpar, en slíkur dráttur gæti valdið stóru slysi.

N. hefir því fallizt á að ætla smávægilega upphæð, 4500 kr., til þess að taka upp þessa símalínu og væntir þess, að hv. d. geti fallizt á það, að nauðsyn sé til að fá nú þennan lið inn í björgunarstarfsemina, sem þarna hefir verið undirbúin. Þessi liður er nauðsynlegur til að allt geti gengið sem greiðast.

Þá hefir n. ætlazt til, að nokkur hluti af þessari hækkun til nýrra símalína fari til þess að leggja símalínu frá Bólstaðarhlíð í Húnavatnssýslu að Bergsstöðum í Svartárdal. Dalurinn er nokkuð þéttbyggður, en algerlega símalaus, sveitin er afskekkt og liggur inni í fjallgarðinum milli Blöndudals og Skagafjarðar. Frá Bólstaðarhlíð að innsta bæ í dalnum eru um 25 km. Því virðist mjög sanngjörn sú málaleitun, sem komið hefir til n., að þessi afskekkta byggð fái símalínu að Bergsstöðum, sem er þó utar en í miðri sveit. Til þessarar símalínu hefir n. áætlað 5500 kr. eins og tekið er fram í nál. N. vildi taka þetta skýrt fram í nál., til þess að það yrði augljóst, til hvers þessar 10 þús. kr., sem n. leggur til, að þessi liður verði hækkaður um, verði veittar.

Þá hefir n. lagt til, að við 13. gr. bætist nýr útgjaldaliður, 10 þús. kr. Það er mörgum kunnugt, a. m. k. þeim, sem áður hafa verið hér á þingi, að samgöngur hafa verið mjög ógreiðar að skólasetrinu Eiðum á Austurlandi. Þessi upphæð er aðallega til þess, að nú verði unnt að ljúka við að leggja sæmilegan bílveg að Eiðum. Til skamms tíma hefir orðið að flytja þangað allan flutning á klökkum. Að sönnu hefir þar verið einhver vegarnefna, sem fært hefir verið um að sumri til, en verið ófær, þegar bleytur eru, bæði haust og vor, einmitt þegar mest er þörf á flutningi að staðnum. Það vakti líka fyrir n., þegar hún kom með þessa till., að Austfirðingafjórðungur hefir verið nokkuð afskiptur um framlög til vega eftir því, sem kemur fram í frv.

Þá leggur n. til, að til hafnargerðar í Ólafsvík verði veittar 7 þús. kr. Eins og margir munu vita, eru til gömul lög um hafnargerð í Ólafsvík. Í fjárlögum fyrir 1930 var veitt nokkurt fé til þessarar hafnargerðar, það munu hafa verið 15 þús. kr. gegn 2/3 annarsstaðar frá. En eftir því sem ég veit bezt, mun þessi fjárveiting ekki hafa verið notuð nema að einhverju leyti. Þess vegna má segja, að hér sé um einskonar loforð að ræða frá Alþingi, og þó að það sé nú fallið úr gildi, getur þetta talizt endurveiting. Þess vegna vill n. nú taka upp í frv. 7 þús. kr. framlag gegn tvöföldu framlagi annarsstaðar að. Ég skal líka taka það fram, að í lögunum um hafnargerð í Ólafsvík er heimilt fyrir stjórnina að ábyrgjast lán, sem kynni að verða tekið af Ólafsvíkurbúum í þessu skyni. N. lítur svo á, að stj. sé því heimilt að ábyrgjast slíkt lán samkv. hafnarlögunum fyrir Ólafsvík.

Þá er hér smávægileg brtt. um að hækka styrkinn til Iðnskóla Hafnarfjarðar úr 800 kr. upp í 1500 kr. Í fjárl. hefir verið veittur styrkur til slíkra skóla á Akureyri og Ísafirði og svo Hafnarfirði. Hafnarfjarðarskólinn hefir orðið að því leyti harðast úti, að hann hefir fengið minnstan styrk. N. telur sanngjarnt að hækka styrkinn til hans, svo að hann sé í samræmi við það, sem skólarnir á Ísafirði og Akureyri hafa.

Þá leggur n. til, að Veiði- og loðdýrafélagi Íslands verði veittar 1000 kr. Þetta félag er nýstofnað og hefir á stefnuskrá sinni að vinna að því, að hér geti komið upp atvinnugrein, sem sé framleiðsla loðdýra til skinnaútflutnings, síðustu árum hefir einmitt verið mikill áhugi á þessum hlutum hér á landi. Því verður ekki neitað, að það er aukin trygging í því fyrir afkomu landsmanna, ef þeir geta fjölgað þeim vörum, sem þeir framleiða í landinu, og yfirleitt snúið sér að fleiri atvinnugreinum en hingað til hefir verið gert. Almenningur allur mun ófróður um ræktun þessara dýra og því nauðsynlegt, að eitthvað sé gert til að leiðbeina mönnum í þeim efnum; ella er hætt við, að þeir, sem vildu taka slíkt upp, yrðu fyrir tjóni vegna þekkingarleysis á þessum hlutum, og er mjög líklegt, að stórfelld mistök yrðu hjá þeim vegna fáfræði í þessari grein. Félagið hefir nú sótt um 2 þús. kr. styrk og hyggst síðan að vinna að því að leiðbeina mönnum og hafa forgöngu í þessu máli. Það ætlar sér sérstaklega að gefa út leiðbeiningarit um ræktun loðdýra, og það er með sérstöku tilliti til þess, að það geti orðið almenningi til gagns og leiðbeiningar, að n. leggur til, að fél. verði veittar þessar 1000 kr.

Þá hefir n. flutt aðra brtt. við 16. gr., að til Skógræktarfél. Íslands gangi 5000 kr. af því fé, sem fara á til skógræktar. Eins og mönnum er kunnugt, var Skógrækarfél. Íslands stofnað fyrir einu ári á þúsund ára afmælishátíð Alþingis. Þetta fél. hefir sent ósk til þingsins um 20 þús. kr. til starfsemi sinnar. Þegar um skógrækt er að ræða, er það vitanlegt, að þar er mjög merkilegt og víðtækt verkefni, nægilegt handa mörgum kynslóðum og hlýtur að krefjast mikillar vinnu og mikils áhuga og þarf það því að hafa talsvert fé með höndum. Þess vegna hefir það nú sent Alþ. þessa fjárbeiðni. En ástæðurnar eru þannig nú, að n. hefir ekki séð fært að veita svo mikið fé sem skógræktarfél. hefir beðið um, en vill þó veita því nokkra úrlausn, sem á að sýna, að þessi félagsskapur er þó viðurkenndur af Alþ. Þess vegna vill n. ekki ganga framhjá þessum félagsskap eins og hann væri ekki til. Ég vænti þess, þó að þetta sé lítil upphæð, að hún veiti eitthvert lið til þess að hugsjón skógræktarfél. komist í framkvæmd, en hún er sú, að koma upp gróðrarstöðvum, þar sem aldar séu upp plöntur til gróðursetningar. Vitanlega þarf þá sérþekkingu á ýmsum hlutum, og verður að kosta talsverðu fé til að koma slíkum gróðrarstöðvum upp.

Þá er 7. brtt. n., og er hún um það, að niður falli liður, sem búinn er að standa í fjárl. í 20–30 ár, 6 þús. kr. framlag til Fiskveiðasjóðs Íslands. Í nál. er tekið fram, hvers vegna n. leggur þetta til. Það er vegna þess, að hin upphaflegu lög um Fiskveiðasjóð Íslands voru felld úr gildi með lögum um Fiskveiðasjóðinn, sem voru samþ. á þingi 1930. Í þeim lögum eru tekjur sjóðsins ákveðnar á allt annan hátt en gert var í gömlu lögunum. Þess vegna viljum við fella þessa sérstöku fjárveitingu niður.

Þá hefir Dýraverndunarfélag Íslands sótt um hækkaðan styrk til starfsemi sinnar. N. leggur til, að styrkurinn verði hækkaður um 500 kr., svo að alls verði styrkurinn 1500 kr. Því verður ekki neitað, að starfsemi þessa fél. er góð. Félagið hefir gert mikið gagn og mun eflaust vera eftirleiðis. En til þess að geta breitt út starfsemi sína, þarf það að kosta meiru til en það hefir áður gert, þar sem það hefir aðallega búið um sig hér við bæinn. Fél. er í fjárþröng, og vill n. því sýna lit á því að styrkja það og væntir, að hv. d. vilji líka viðurkenna starfsemi þessa fél. með þessum hækkaða styrk.

Þá er hér nýr liður um styrk til mælinga á vatnasvæði Þverár og Markarfljóts. Till. um þetta kom fram í Nd., en mun hafa fallið þar með jöfnum atkv. N. hefir tekið þetta mál upp vegna þess, að hún telur, að mikil nauðsyn sé til að halda þessum mælingum áfram. Að þessu verki hefir verið unnið nú undanfarin ár, og nú er því nærri því lokið. Þeir menn, sem hafa haft forustuna í framkvæmd þessa verks, hafa látið í ljós, að ef þessar 5 þús. kr. væru veittar til mælinganna, væri hægt að ljúka við þær. Þó kann að vera, að þá verði eftir að vinna eitthvað úr þeim rannsóknum heima fyrir, en ef til vill gæti Búnaðarfél. Íslands, ef nauðsyn bæri til, hjálpað til þess að það gæti komizt í verk.

Þá hefir n. lagt til, að aths. við 17. gr., fyrsta lið, falli niður. Ástæðan til þess hyggist á því, að ef farið er að taka sérstaka sjúklinga inn á þá liði, er óhugsandi annað en að bæta alltaf þar við fleiri og fleiri nöfnum, því að það hlýtur að standa líkt á með marga sjúklinga og þennan eina, sem hér er um að ræða. Því verður annaðhvort að fella hann úr fjárlögunum eða að bæta öðrum við. Fyrir n. lá fyrir umsókn frá sjúkling, sem líkt er ástatt fyrir og þessum, og n. getur ekki komizt hjá því að taka hann inn, ef þessi verður ekkj felldur burt. Það er ekki svo að skilja, að n. sé sérstaklega að vinna á móti þessum sjúkling, en hún vill vara við því fordæmi, sem með þessu yrði myndað. Þess vegna leggur hún til við hv. d., að þessi aths. verði felld niður.

11. brtt. n. er um það að taka inn á 18. gr. 2 prestsekkjur. Um þetta þarf ekki að ræða. Það hefir alltaf verið regla að veita ekkjum sæmdarpresta, eins og þessir prestar voru, nokkurn fjárstyrk. Mér finnst ekki þurfa hér að ræða um verðleikana. Þessar ekkjur eiga engan minni rétt en aðrar ekkjur til að komast inn á 18. gr.

Þá er síðasta brtt. n., og er hún um það, að niður falli tveir persónustyrkir. Það mun ef til vill vera alveg nýtt að koma með till. um að fella niður af 18. gr. menn, sem eru á lífi, en n. fannst standa sérstaklega á um þessa menn, sem hér er um að ræða. Ég skal taka það fram, að þeir voru háðir samþ. í Nd. nú og hafa ekki staðið í fjárlögum áður. Þetta eru tveir póstar, og ástæðan til þess, að n. leggur til, að þeir séu teknir út af 18. gr., er sú, að um þessar mundir, bæði að undanförnu og verður áfram, er verið að gera talsverðar breytingar á póstgöngum landsins. Það á að leggja niður ýmsar landpóstgöngur og ýmist flytja póstinn með bílum eða breyta póstgöngunum á annan hátt. Nú upp á síðkastið hafa þinginu borizt margar beiðnir um það að taka þessa pósta á eftirlaun. Þegar byrjað var á þessu, var það þannig, að þetta voru gamlir menn, sem búnir voru að vinna í mörg ár og höfðu verið í vetrarferðum um þvert og endilangt landið og voru búnir að eiga í mjög miklum erfiðleikum á ferðum yfir fjöll og firnindi og illfærar ár. Það er því ekkert undarlegt, þó að þessum uppgefnu mönnum séu veitt eftirlaun, en það er allt öðru máli að gegna um menn, sem hafa ekki verið nema stuttan tíma í þessum ferðum og aðallega innan héraðs, kannske ekki lengra en hálfa dagleið eða eina dagleið og e. t. v. aldrei farið þær leiðir, sem teljast mega erfiðar eða hættulegar. Það verður þess vegna að gæta að því, að ef á að taka hvern einasta póst á eftirlaun, jafnvel þó að störf hans hafi ekki verið nema smávægileg aukastörf, þá verða nokkuð margir teknir á eftirlaun, þar sem verið er að breyta til um póstferðir. N. vill því sýna afstöðu sína með því að telja ekki rétt að taka inn á 18. gr. aðra pósta en þá, sem eru fyrst og fremst búnir að vinna lengi og hafa einnig átt við sérstaka örðugleika að stríða á ferðunt sínum, bæði fjallvegi og illfær vatnsföll. Þetta verður vitanlega að koma undir álít hv. d., en ég vil taka það fram, að ef þessi till. verður felld, þá kemst n. ekki hjá því að flytja till. um að taka fleiri pósta inn í fjárl. en nú eru þar, því að nú liggur fyrir n. beiðni frá að minnsta kosti einum pósti, sem hefir ekki komizt inn ennþá.

Ég hefi svo ekkj fleira að segja um þetta að sinni. Brtt. þær, sem fram hafa komið frá einstökum þdm., tala ég ekki um að svo komnu, ekki fyrr en þeir hafa skýrt þær, en þá mun ég skýra frá afstöðu n. til þeirra hverrar fyrir sig.