15.08.1931
Efri deild: 30. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í B-deild Alþingistíðinda. (231)

1. mál, fjárlög 1932

Páll Hermannsson:

Ég á hér aðeins eina brtt. og vil nú skýra hana með örfáum orðum.

Á þingi 1929 var ákveðið hér í þessari hv. d., að greiða skyldi Einari Jónssyni prófasti á Hofi í Vopnafirði full laun úr ríkissjóði, þegar hann léti af prestsskap. Séra Einar Jónsson hafði verið þjónandi prestur í 50 ár og prófastur í 35 ár. Þegar þessi till. var borin fram í þessari hv. d., var gengið út frá því af flm. till., að ríkið viðurkenndi óvanalega dygga þjónustu þessa ágæta manns með þessum sérstaka heiðri. Við meðferð málsins í d. breyttist þetta þannig, að d. gekk að vísu inn á það, að séra Einar skyldi fá fulllaun, en þó með því skilyrði, að merkilegt bókmenntalegt verk, sem eftir hann liggur, skyldi verða eign Landsbókasafnsins að honum látnum. Þetta er ættfræðilegt handrit, „Ættir Austfirðinga“, og er af þeim, sem einkum bera skyn á slíka hluti, talið afbragðsverk og stórvirki.

Við meðferð þessa máls á þingi 1929 var bent á það, að þar sem séra Einar væri aldurhniginn, þá væru líkur til þess, að Landsbókasafnið eignaðist þetta handrit við lágu verði. Þannig hefir það líka reynzt, því að séra Einar er nú andaður, svo sem hv. þdm. er kunnugt.

Hann lézt 24. f. m. eftir að hafa notið þessara kjara frá ríkissjóði í 1 ár og 10 mán. Þegar á það er litið, að þetta er prestur, sem hafði þjónað í 50 ár og átti því rétt til hárra eftirlauna. er auðséð, að ríkið hefir sama og ekkert af hendi látið fyrir þetta ritverk.

Fjvn. hefir því lagt til á þskj. 283, að ekkju séra Einars séu ætluð sérstök eftirlaun, að upphæð 402 kr. En ég var þessu ekki sammála og hefi leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 297,XXXVI, þess efnis, að þessi liður færist undir þann lið 18. gr., sem fjallar um ekkjur og börn skálda og rithöfunda og hækki upp í 800 kr. Ég óska ekki eftir sérstökum eftirlaunum handa þessari ekkju. Hún á að njóta um 300 kr. í eftirlaun. Hún hefir líka nokkurn ekkjustyrk, sem maður hennar hafði keypt henni. Auk þess á hún að fólk, sem lætur henni líða vel. En ég fer fram á, að landið endurgreiði henni eitthvað af því, sem maður hennar á hjá ríkinu.

Ég ætla ekki að gefa lýsingu á ritinu, aðeins geta þess, að það er stórt og vel frá því gengið, það eru 6 þykk bindi og af kunnáttumönnum í þeirri fræðigrein talið dýrgripur. Auk þess er mikið handritasafn í eigu dánarbúsins í sambandi við þetta rit, og er meiningin, að safnið eignist það líka. Þessi upphæð er svo lág og sanngjörn, að ég trúi því ekki að óreyndu, að hér verði nokkur mótatkvæði. Ég fel hv. d. þessa till. í trausti þess, að hún sjái, að hér er ekki um betl að ræða, heldur er farið fram á, að þingið ræki skyldu, sent því ber af höndum að inna.