30.07.1931
Neðri deild: 16. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í C-deild Alþingistíðinda. (2317)

97. mál, húsnæði í Reykjavík

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Ég leyfi mér að bera fram frv. þetta, sökum þess sérstaka ástands, sem nú ríkir í þessum bæ og landinu yfirleitt. Sérstök þörf er á því að bera slíkt frv. fram nú. vegna hinnar miklu dýrtíðar. Öllum er kunnug þessi hræðilega dýrtíð, og nú sem stendur lítur út fyrir, að fjöldi manna eigi erfitt með að framfleyta sér og sínum, ef slíku fer fram til lengdar. Það er ekki auðfundin leið til þess að ráða bót á þessu ástandi, en þó verður að leita einhverra ráða til þess að létta undir með þeim, sem harðast verða úti. Og þótt þetta mál komist í framkvæmd, er langt frá því, að þar með sé ráðin bót á því meini, er dýrtíðin veldur allri þjóðinni, en samt ætti það að gefa öllum þorra þeirra manna, sem erfiðast eiga, hægara með að koma fótum undir fjárhagslega afkomu. Eins og kunnugt er, er húsnæði hér í bæ afardýrt. En eins og ástandið hefir verið hér síðustu árin, verður svo að vera. Bæði er það vegna hins háa kaups, sem er þó ekki of hátt, ef miðað er við þarfir verkamanna, dýr lán, dýrt efni, óhentugt verzlunarástand o. s. frv. Allt leggst þetta á þá sveif að gera byggingarnar dýrar. Samt hygg ég, að þrátt fyrir dýrleika húsanna sé víða gengið skör lengra en þarf og réttmætt er með húsaleigu. Þetta er aðalástæðan til þess, að þetta frv. kemur fram nú. Ef það nær fram að ganga, þá er að nokkru leyti ráðin bót á því meini sem ósanngjörn og há húsaleiga veldur. En ég viðurkenni fúslega, að þetta er aðeins einn þáttur af þeim ráðstöfunum, sem gera þarf til þess að vinna bug á dýrtíðinni; ef ætti að gera það til falls, þyrfti afarvíðtækar ráðstafanir. T. d. er það svo, að hér í Reykjavík eru ótal neyzluvörur óhæfilega dýrar, t. d. er verð á nýjum fiski hér alls ekki sambærilegt við það verð, sem fæst fyrir hann fullverkaðan erlendis. Nýr fiskur mun vera seldur hér á um 300 kr. skpd., en samsvarandi 1. fl. fullverkaður fiskur hefir þessi síðari ár aðeins selzt á 130 kr. hæst, oftast þó í kringum 100 kr. Í þessu dæmi verður að taka tillit til þess, að nýr fiskur verður alltaf hlutfallslega dýrari en fullverkaður fiskur, en samt nær þessi mismunur engri átt. Einstaklingum er ofvaxið að ráða bót á þessu. Það eru bæjarfélögin, eða bæjarfélög í samráði við ríkisvald, sem þarna verða að taka í taumana.

Auk þessa, sem áður er getið, er verð á ýmsum sveitaafurðum allt of hátt; t. d. er mjólkurverð á Rvík allt of hátt. Þó er ekki svo að skilja, að bændur fái of mikið fyrir hana. Þeir fá minnstan hluta af því verði, sem mjólkin er seld fyrir í Reykjavík. Kostnaður við flutning, og þó einkum afhendingu til neytendanna í Rvík er geysimikill. Úr þessum kostnaði mætti draga mikið, án þess að framleiðendur fengju minna fyrir vörur sínar en nú. En svo framarlega, sem afstaða framleiðslunnar á eftir að breytast til hins betra, verðu framleiðendur að sætta sig við að missa dálítið af þessum tekjulið, sem gæti þá að öllum líkindum unnizt upp á öðrum sviðum.

Þá má benda á, hve verzlun í þessum bæ er óhagstæð. Verð á nauðsynjavörum er allt of hátt. Borið saman við verðlag úti um land. Bæði stafar það af afardýru húsnæði verzlunarstéttarinnar, og svo kaupmannafjöldanum. Þeir eru allt of margir orðnir, sem hafa lífsviðurværi sitt af þessum atvinnuvegi. En á þessu sviði á hið opinbera erfitt með að skakka leikinn. Þarna gæti almenningur sjálfur skapað sér góða kosti, með því að mynda félagsskap, t. d. kaupfélög, til þess að draga úr þessum ógurlega verzlunarkostnaði. (HV: Það er þegar komið fram frv. um það). Vafalaust mætti benda á margt fleira, sem gæti orðið til þess að draga úr dýrtíðinni. Að ég þó skuli flytja frv., er aðeins snertir húsnæði í Rvík. kemur til af því, að það á ekki minnstan þátt í því að halda henni uppi. Allir vita, að atvinnuvegir okkar til lands og sjávar eru að sligast, ástandið er orðið svo vont, að hið opinbera verður að taka í taumana. Ég býst við, að þessu verði svarað á þá leið, að eina ráðið sé að byggja nógu mikið, þá minnki eftirspurnin og húsnæðið verði ódýrara. Það má vera, að svo yrði að einhverju leyti. En ég er hræddur um, að dýrtíðin minnkar ekki, þá haldi húsnæðið áfram að vera dýrt eftir sem áður. Ég held, að það sé hæpin leið að byggja mjög mikið; þá mundi húsaleigan lækka, því að framboðið yrði meira en eftirspurnin. Og ég hefi heyrt, að menn mættu ekki fá minna fyrir húsnæði sitt en þeir fengju nú, svo að vel sé. Ég er að vísu ósamþykkur þessu, því að um leið segja menn: Aukist húsnæði, fellur húsaleigan. En ég svara því, að geti þeir ekki tekið lægri húsaleigu nú, þá geta þeir heldur ekki látið aukið framboð lækka hana. Í báðum tilfellum hljóta tekjur húseigenda að rýrna.

Ég get fúslega viðurkennt, að beiting ákvæða eins og þeirra, sem koma fram í þessu frv., er vandasamt mál, og er hinn mesti vandi að setja slíka löggjöf svo, að ákvæði hennar komi ekki óþægilega og óréttmætt við einstaka menn. En það er sama að segja um þessi lög sem öll önnur, að ekki er hægt að gera þau þannig úr garði, að þau eigi alstaðar við. Slík lög sem þessi þyrftu því að vera svo rúmgóð, að sá, sem framkvæmdi þau, gæti hagað sér nokkuð eftir kringumstæðum. Það má vel vera, að frv. þetta sé ekki sem fullkomnast hvað þessi atriði snertir, og er ég fús til þess að taka hverri bendingu, sem vera mætti frv. til bóta. Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja efni frv. nú. Ég vona, að hv. þdm. hafi kynnt sér efni þess og grg. þá, er því fylgir. Í grg. er m. a. mjög nákvæm skýrsla um húsnæði hér í bæ á síðasta hausti, og geri ég ekki ráð fyrir, að það hafi tekið verulegum breytingum síðan. Hvað viðvíkur skipun nefndarinnar, held ég að þessi leið, sem bent er á í frv., sé heppileg. Þó mun ég að sjálfsögðu taka brtt. vel, ef þær miða til bóta. Viðvíkjandi þeirri procenttölu, sem nefnd er í frv., um það hve hátt % gjald megi taka af húsi, miðað við fasteignaverð þess, þá held ég, að henni sé mjög vel stillt í hóf. Auðvitað getur hún í einstökum tilfellum ýmist verið of há eða lág. — T. d. er hún líklegast of lág af húsum, sem byggð hafa verið á mestu dýrtíðarárunum, og sem eigendurnir hafa orðið að taka óhentug lán út á og eiga mikið af þeim óborgað. Það má vel vera, að það væri í alla staði gott að hafa hana nokkuð rýmri. En þetta atriði álít ég, að verði að miklu leyti að vera á valdi þeirra manna, er framkvæma þessi lagaákvæði. (EA: Þeir voru nú ekki sem bezt vinsælir hér áður fyrr). Ég býst við, að þessi aths. hv. 2. þm. Reykv. sé rétt, að þetta muni ekki vera vinsælt verk. En nauðsynin til þess að ráða bót á þessu er svo brýn, að ég held, að góðir menn muni ekki telja eftir sér nokkur óþægindi til þess að draga úr erfiðleikunum. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta mál og geri að till. minni, að frv. sé vísað til allshn.umr. lokinni.