30.07.1931
Neðri deild: 16. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í C-deild Alþingistíðinda. (2319)

97. mál, húsnæði í Reykjavík

Magnús Jónsson:

Þó að nokkuð sé frá liðið, mun flestum minnisstætt, að farið var út í ýmiskonar fum og fálm á stríðstímunum, vegna neyðarástands, sem ríkti á ýmsum sviðum. Ráðstafanir þessar voru flestar gerðar eftir erlendum fyrirmyndum og reyndust misjafnlega, og þó flestar illa, en allar áttu þær sammerkt í því, að örðuglega gekk að koma þeim fyrir kattarnef aftur. England varð t. d. að setja sína harðsvíruðustu menn í n. til þess að skera niður ráðstafanir stríðsáranna. Hér voru settar innflutningshömlur til að laga gengið, sem þó fór sílækkandi. Hér var sett verðlagsnefnd, sem reyndist alveg gagnslaus. Sá draugurinn, sem lengst lifði, en var þó að lokum kveðinn niður, var hin svokölluðu húsaleigulög. Hélt ég, að menn hefðu nú fengið nóg af þeim skóla, sem þau lög reyndust, og langaði ekki í hann aftur. En nú kemur þó á daginn, að þeir menn eru til, sem ekkert hafa lært af reynslunni af lögum þessum, þótt hún sé svo löng og óglæsileg sem raun ber vitni um.

Ég vil aðeins taka lítillega undir það, sem hv. samþm. minn (HV) sagði, og frábiðja afskipti Framsóknarflokksins af hagsmunamálum Rvíkur. Flokkur, sem árum saman hefir elt Rvík með rógi og níði, ætti að hafa þá sómatilfinningu að láta málefni bæjarins afskiptalaus. Blíðulæti flokksins við Reykvíkinga koma ekki fram nema á fundum í Rvík og í þeim blöðum Tímans, sem ekki eiga að berast út á land. Í sveitunum er fluttur boðskapurinn um „skrílinn“, „skottþjófana“ og „óknyttafólkið“ í Rvík.

Tilgangur þessa frv. mun eiga að vera sá, að lækka húsaleiguna. Flm. hóf ræðu sína á því að tala um dýrtíðina hér í Rvík. En þar hefði hann átt að láta staðar numið, því að allar niðurstöður hans voru á þá leið, að hér væri dýrtíð, en við henni væri ekkert að gera. Kaupið væri of hátt, en verkafólki veitti ekki af því. Sama væri að segja um verð á mjólk og fiski. Hann hefði aðeins átt að bæta því við, að húsaleigan væri of há, en húseigendum veitti þó ekki af henni, og jarðsyngja frv. sitt þar með.

Ef dýrtíðin í Rvík er athuguð, sést, að hún stafar að langmestu leyti af innlendum vörum. Útlendar vörur eru 54% hærri en fyrir stríð, en innlendar 106% hærri. Mjög mikill hluti dýrtíðarinnar stafar því af því, hve ríflega Rvík borgar fyrir innlendar vörur.

Þetta stafar m. a. af beinum ráðstöfunum hins opinbera, sem leggur verndartolla á ýmsar erlendar vörur, sem Reykvíkingar gætu ella fengið fyrir mun lægra verð en innlendu vörurnar kosta. Annars er það sannleikurinn um dýrtíðina hér, sem einna mest hefir verið notuð í rógsherferðunum gegn Rvík, að sama hefir orðið uppi á teningunum hér sem annarsstaðar, að vísitalan hækkar eftir því sem bæirnir verða stærri, hvernig sem á því stendur.

Hvað er það nú, sem getur lækkað verð á húsaleigunni hér í bænum? Það er í sjálfu sér ósköp einfalt mál. Hv. flm. heldur, að n. geti ráðið verðlaginu. En vitanlega gilda framboð og eftirspurn á þessu sviði sem öðrum, og því er eina ráðið til að lækka húsaleiguna, að stuðla að auknu framboði með því að gera mönnum kleift að byggja með góðu móti. Verður þá þetta frv. til þess að lækka húsnæðið? Vitanlega þvert á móti. Eins og gömlu húsaleigulögin hlýtur það að verða þrándur í götu nýrra bygginga, sem er það eina, sem lækkað getur leiguna. Eftir að þetta frv. er orðið að lögum, dettur engum í hug að leggja fé sitt í húsabyggingar. Menn leggja auðvitað fé í hús með það sama fyrir augum og er þeir leggja í önnur fyrirtæki, að græða á því. En þó því atriði sé sleppt, eru nægilega margar hömlur settar á umráðarétt húseigenda í frv. til að girða alveg fyrir nýbyggingar. Menn eru sviptir ráðstöfunarrétti sínum með öllu. Íbúðarherbergi má t. d. ekki taka til annars og ekki rífa hús. Það þarf ekki annað en þekkja ofurlítið mannlegt eðli til að sjá, hvaða afleiðingar slíkt lögboð hefði, ekki sízt þar sem gróðahvötin er að engu gerð. Hámarks leiguákvæði frv. eru svo lág, að þau geta með engu móti staðizt. Fasteignamatsverð húsa er oft ekki nema helmingur af kostnaðarverði. Svo er t. d. um það hús, sem ég hefi byggt, svo ég taki dæmi, sem mér er kunnugt. Ég skal ekki fara langt út í þá sálma, hvílíkur hégómi slíkar ráðstafanir eru, að því leyti hve auðvelt er að fara í kringum þær, og hvílíkur skóli í lögbrotum þær myndu reynast. Ef leigjandi og húseigandi koma sér saman um hærri leigu en lögin ákveða og treysta hvor öðrum, — hvað er þá hægt að gera? Auðvitað ekki neitt, nema tekið verði upp á því að svipta menn fjárforræði. En ég býst þó við, að þorri manna vilji ekki fara þannig að, og því hafa lögin þær afleiðingar, að tekur fyrir nýjar byggingar. Ef það er ósk flm. að halda húsaleigunni sem allra hæstri ætti hann að láta samþykkja þetta frv. Enginn mannlegur máttur getur staðið á móti hárri húsaleigu. meðan framboðið er minna en eftirspurnin.

Reynslan hefir þegar sýnt, hvernig lög sem þessi gefast. Þegar húsaleigulögin gömlu voru afnumin, sögðu fylgismenn þeirra, að það yrði til að fleygja þúsundum út á klakann. En þess varð ekki vart, að neinn lenti „á klakanum“ þó að sjálfsagt séu þess dæmi, að einhverjir hafi orðið húsnæðislausir um tíma, eins og alltaf verður, því að jafnan eru til menn, sem gengur illa að fá leigt.

En síðan þessi lög voru numin úr gildi hafa þotið upp ný hverfi í bænum, af því að menn höfðu fengið frjálsar hendur. Ef nóg er til af vörunni, er ekki hægt að okra á húsnæði fremur en öðru. Sé verulega mikið til af henni, getur hún orðið næstum verðlaus, eins og t. d. loft og kalt vatn, sem þó er hvorttveggja hin mestu lífsgæði.

Mér finnst það varhugavert, ef til þessarar nefndarstofnunar kemur, að eigi skuli vera ákveðið, að neinn lögfræðingur skuli eiga sæti í henni, þar sem hún á að hafa hæstaréttarvald í ýmsum tilfellum.

Ég fer ekki út í ákvæði 10. gr., sem bannar mönnum innflutning í bæinn. Vel getur verið, að bærinn verði að grípa til þessara ráða, en ég sé ekki, að það komi þessu máli við. En hér er óneitanlega allharkalega þrengt að frelsi manna og gengið á þau réttindi, er jafnan hafa verið talin einna dýrmætust, að geta ráðið sínum dvalarstað, hvort sem hann er í sveitum eða bæjum. Og ekki get ég séð, að þeir menn, sem geta fengið hér atvinnu hjá einkafyrirtækjum, eigi að vera neitt réttlægri en þeir, sem fá bein og bitlinga hjá stjórninni og flytja í höfuðstaðinn.

Flm. kvaðst fúslega taka við brtt. við þetta fóstur sitt, og mun ég því ekki greiða atkv. gegn því, að það fari til n., heldur láta það afskiptalaust.