30.07.1931
Neðri deild: 16. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í C-deild Alþingistíðinda. (2320)

97. mál, húsnæði í Reykjavík

Einar Arnórsson:

Kvartanir yfir húsnæðinu í bænum eru þrennskonar og hafa allar við nokkur rök að styðjast. Í fyrsta lagi, að skortur sé á húsnæði, í öðru lagi, að húsnæði sé lélegt, og í þriðja lagi, að húsnæðið sé of dýrt.

Það er auðsætt, að frv. það, sem hér liggur fyrir, lýtur einkum eða eingöngu að þriðja atriðinu, en hin tvö atriðin snertir frv. ekki beinlínis. Höfuðákvæði frv. eru ýmiskonar hömlur, sem lagðar eru á ráðstöfunarrétt húseigenda, og aðalákvæðið um það, að leigan fari ekki fram úr vissu marki, og er þá miðað við fasteignamat. Ég tel, að 15% af fasteignamati sé allt of lágt leiguhámark. Fasteignamatið er oftlega 40–50% lægra en brunabótavirðingin, sem miðast við byggingarkostnað. Fyrir húseigendur, sem byggt hafa eftir að efni og vinna hækkaði í verði, er þetta allt of lágt. Um þá, sem byggðu fyrir stríð, er öðru máli að gegna, enda mætti e. t. v. gera þar einhvern mun á.

Í Reykjavík ganga lóðir kaupum og sölum hærra verði en fasteignamatið er. Ákvæði frv. er hnitmiðað við fasteignamatsverð, en ekki við raunverð lóðanna, og eru 5% því of lágt reiknað, því að þeir, sem kaupa lóðir, verða að greiða af verði þeirra hærri vexti en 5%, t. d.

½%, ef kaupandi hefir fengið veðdeildarlán til kaupanna. Samkv. frv. fá eigendur lóða því ekki þá vexti, sem þeir raunverulega þurfa að borga af lóðarverðinu. Þar að auki bætast við skattar til bæjarfélags og ríkis, sem eigandi þarf að greiða af verði lóðarinnar. Girði eigandi lóð sína, þá eykur það enn kostnað hans af henni. Mér skilst því, að þetta sé mjög hart ákvæði, og ætti væntanleg n. að taka þetta atriði til íhugunar.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um húsaleiguna sjálfa. Þó að þessi ákvæði frv. séu allt annað en heppileg, þá eru þó ýms ákvæði í frv., sem munu verða öllu fráleitari í framkvæmdinni. og skal ég fara um þau nokkrum orðum.

Upp í þetta frv. eru tekin ýms fyrirmæli úr gömlu húsaleigul. frá 1917. Þaðan eru t. d. tekin þau ákvæði, að ekki megi segja leigutaka upp húsnæði hans, ekki aðeins eftir að l. eru gengin í gildi, heldur skulu jafnvel uppsagnir á húsnæði, sem farið hafa fram áður en l. gengu í gildi, vera ógildar, nema leigusali hafi þurft að nota húsnæðið fyrir sjálfan sig eða leigt húsnæðislausum manni, áður en lögin voru sett. Ég tel, að hér sé allt of langt gengið, er lögin eiga þannig að verka aftur fyrir sig.

Það er látið í veðri vaka, að þessi ákvæði eigi að vernda leigutaka. En það verður alls ekki til þess í veruleikanum. Þessi ákvæði í húsaleigulögunum gömlu ollu því oft og einatt, að leigutakar urðu að dúsa í húsnæði, sem ekki var við þeirra hæfi, af því að hvergi var hægt að losa húsnæði, sem þeir gætu fengið. Ég er þessu vel kunnugur, því að ég átti sæti í húsaleigunefnd um tíma. Ég vissi þess dæmi, að bæði leigutaki og leigusali voru harðóánægðir með sambúðina og vildu fegnir losna, en gátu það ekki vegna þessara hörðu laga. Sömuleiðis urðu menn að dúsa í vondum húsakynnum, þótt þeir hefðu efni og löngun til að fá sér betra húsnæði. Þessi ákvæði voru líka efni til haturs og úlfúðar milli leigusala og leigutaka.

Þá er bannað í frv. þessu að rífa eða breyta íbúðarhúsum nema því aðeins, að heilbrigðisnefnd banni að nota þau til íbúðar. Þetta ákvæði er líka úr gömlu lögunum. Það reyndist mjög erfitt í framkvæmd. Það varð til þess, að menn létu gömlu húsin hanga uppi viðhaldslaus að mestu. Eigendurnir bjuggust við að hömlunum yrði létt af þá og þegar, og vildu því engu kosta til viðhalds þeirra húsa, sem þeir ætluðu til niðurrifs, þegar lögin væru gengin úr gildi.

Þá er ein hamla enn, er ég vildi minnast á. Það er ákveðið í frv., að húseigendur skuli leggja alla leigusamninga, innan 8 daga eftir samningsgerð, fyrir húsnæðisnefnd. Þetta ákvæði var ekki í gömlu húsaleigulögunum. Þar var aðeins ákveðið, að bæði leigusali og leigutaki hefðu rétt til þess að leita úrskurðar húsaleigunefndar um hámark húsaleigu. Eftir þessu frv. eru allir leigusamningar háðir því að vera skriflegir, því að það er tekið fram, að nefndin skuli rita samþykki sitt á þá samninga, sem hún fellst á. Þó að oft séu gerðir skriflegir leigusamningar, þá er hitt þó tíðara, að engu slíku sé til að dreifa. Samningar t. d. við einhleypt fólk eru yfirleitt aðeins munnlegir. Ekki veit ég, hvort þetta ákvæði verkar aftur fyrir sig, en setjum svo, að ég leigi fólki án skriflegs leigusamnings og sambúðin gangi ágætlega. Eftir þessu verð ég að fara til þess og biðja það um að gera skriflegan samning, og fái ég afsvar, hvað á ég þá að gera? Það væri æskilegt, að hv. flm. vildi svara því í næstu ræðu.

Hér er stofnað til fullkominnar skriffinnsku. Ég geri ráð fyrir, að það þyrfti margar húsaleigunefndir aðeins til þess eins að athuga húsaleigusamningana, sem hljóta að skipta þúsundum hér í bænum, þó að ég hafi að vísu ekki tölu yfir þá. Ein nefnd gæti ekki komizt yfir að athuga þá alla, nema þá á mjög löngum tíma.

Þá eru nokkur fleiri fyrirmæli úr gömlu lögunum tekin upp í þetta frv. En við þessa umr. er ekki rétt samkv. þingsköpum að koma mikið inn á einstök atriði. Þó verð ég að gera það nokkuð, til skýringar málinu, og vona ég, að mér fyrirgefist það, þó við 1. umr. sé.

Er ég þá kominn að hömlum þeim gegn innflutningi í bæinn, sem settar eru í þessu frv. Þær voru ekki í gamla frv. Ég geri nú ráð fyrir, að það fari eins um þetta og önnur haftalög, að menn muni finna ýms ráð til þess að fara í kringum þau. Það er eins og lítt gáfaðir menn verði blátt áfram „genialir“, þegar um það er að ræða að fara í kringum slík þvingunarlög. Þannig var það á stríðstímunum. Hversu ströng höft sem voru sett, þá reyndust menn ótrúlega slyngir í því að komast í kringum þau. Það var mjög erfitt fyrir yfirvöldin að ná í lögbrjótana og refsa þeim. Hafa erlendir dómarar skýrt frá mörgum dæmum þar að lútandi. Afleiðingin var svo sú, að alltaf þurfti að vera að skóbæta lögin, en þegar því var lokið, þá voru bæturnar vanalega rifnar eða slitnar og nýjar holur fundnar.

Þá vil ég vekja athygli á einu atriði enn í þessu frv. Tökum t. d., að utanbæjarmaður, sem vill flytja í bæinn, komi til húseiganda og bjóðist til þess að kaupa hús hans, ef hann fái í því lausa íbúð. Hefir eigandi hússins þá leyfi til þess að selja utanbæjarmanninum húsið? Maðurinn flytur í bæinn, en þó að hann kaupi sér hús, þá leggur hann samt ekki fé í aukið húsnæði í bænum. Ég býst við, að samkv. frv. mætti eigandinn ekki selja þessum manni hús sitt, nema þá að það væri einn af hinum „privilegeruðu“, sem fá stöðu hjá ríkinu eða bæjarfélaginu. Þannig leggja þessi lög hömlur á sölu húsanna.

Eins og áður hefir verið tekið fram, er það mjög varhugavert að leggja hömlur á dvalarfrelsi manna. Við þekkjum dæmin úr sögunni. „Stavnsbaandet“ svonefnda í Danmörku var af þessum toga spunnið. Það bannaði mönnum að flytja af þeim bletti, sem feður þeirra höfðu búið á. Við Íslendingar þekktum svipað fyrirkomulag á dögum Bessastaðavaldsins.

Fyrst setja á slíkar hömlur á Reykjavíkurbæ, þá er bezt samræmis vegna að láta samskonar reglur gilda alstaðar á landinu, svo að hver sá maður, sem vill flytja úr einum hreppi í annan, verði að fá byggðaleyfi, eða koma því svo fyrir, að hver maður verði neyddur til þess að sitja á sinni hundaþúfu meðan hann lifir. Ef þyrfti í raun og veru að setja einhver slík þvingunarlög, þá ættu þau ekki að koma ofan að, heldur neðan að, frá bæjarstjórnum og í samráði við verkalýðsfélög.

Eins og ég tók fram áðan, þá er það aðeins þriðji liður húsaleigumálsins, sem hv. flm. hyggst að ráða bóta á með frv. En þess ber að gæta, að ákvæði þessa frv. munu auka á galla hinna hliða málsins. Þau munu draga mjög úr húsabyggingum. Menn myndu hætta að byggja yfir aðra en sjálfa sig, og væri það þó hættulegt líka, því að enginn veit, hve lengi hann þarf á húsnæðinu að halda sjálfur. Jafnskjótt og menn þyrftu að leigja út hús sitt, væru þeir ofurseldir ákvæðum þessara laga.

Hvað ákvæðum frv. um hámarksleigu viðvíkur, þá myndu þau líka hafa þau áhrif, að viðhald húsanna myndi versna til mikilla muna. Slík ákvæði hafa gilt hér áður, og höfðu þá einmitt þessar afleiðingar í för með sér. Leigusala fannst, og það oft með réttu, að kosti sínum væri þröngvað, og afleiðingin varð svo lélegra viðhald á húsunum. Hið algenga svar leigusalans var þetta: „Ég hefi ekkert fé til, ég fæ svo lága leigu, að hún hrekkur varla fyrir vöxtum af lánum mínum til byggingar hússins“. Þessi varð afleiðingin í þá daga, og ég býst ekki við, að niðurstaðan yrði öðruvísi nú heldur en þá. Það er því auðsætt, að þetta verður ekki til þess að bæta úr vandræðunum, heldur til þess að gera þau enn meiri en þau eru nú.

Þá vil ég minna á eitt áberandi atriði í sambandi við þetta frv. Ákvæði þess gera það að verkum, að ekki er hægt fyrir leigusala að losna við mann úr íbúð, sem hann vildi verða laus við vegna illrar umgengni eða ills samkomulags. Þessi ákvæði verða til þess, að menn mega ekki skilja, þó að fullur fjandskapur sé á milli. Auðvitað má segja, að þetta komi ekki löggjafanum við. En hann ætti þó ekki að setja þau fyrirmæli, sem beinlínis geta stuðlað að fjandskap milli borgaranna.

Verði frv. þetta að lögum og þeim lögum framfylgt, þá mun það verða til þess að setja marga þá menn á höfuðið, sem byggt hafa yfir sig og aðra síðan byggingarkostnaðurinn varð svo mikill sem hann er nú. Það eitt, hve lánskjör hafa verið erfið undanfarið, hefir valdið því, að ýmsir húseigendur hafa ekki getað staðið í skilum nema með því að leigja dýrt. Auðvitað má segja, að það sé að kenna óforsjálni þeirra sjálfra um byggingar húsanna. En á hitt ber þó að líta, að menn hafa oft byrjað í trausti þess, að þeir gætu fengið veðdeildarlán, sem svo hefir brugðizt, eða þá að kostnaðurinn hefir verið áætlaður lægri, er teikningin var gerð, heldur en hann reyndist, eða þá að gerðar hafa verið dýrar breytingar á húsunum o. s. frv. Allt hefir þetta valdið því, að menn hafa komizt í klípu, hafa orðið að sæta verri lánskjörum en þeir höfðu búizt við. Eins og ákvæði frv. eru löguð, þá myndi húsaleigunefnd ekki vera gefið neitt svigrúm til þess að taka þetta til greina.

Þó að það kynni að fara svo, að ákvæði þessa frv. yrðu í mörgum tilfellum til þess að húsaleigan lækkaði, þá vegur það ekki á móti öllum þeim göllum, sem slíkri lagasmíð fylgja. Það mundi girða fyrir byggingar húsa að mestu leyti, og yrði því beinlínis til að auka húsnæðisskort hér í bæ, auk annars ógagns, er af henni leiddi og minnzt hefir verið á. Leiðin til þess að auka húsnæðið er aðeins: Betri lánskjör en undanfarið, og meiri húsabyggingar mundu leiða af hagkvæmari og ódýrari lánum. En enginn þarf að halda, að menn séu svo skyni skroppnir, að þeir leggi fé til aukins húsnæðis yfir aðra, ef þeir eiga það víst, að hömlur verði settar á leiguna og umráðarétturinn af þeim tekinn. Þetta atriði vegur þyngst upp á móti þeim ráðstöfunum, sem gerðar eru í þessu frv.

Hv. flm. sagði, að því meira sem væri byggt, því meir mundi húsaleigan lækka, og yrði því hlutur húseigenda með því móti hinn sami og eftir frv. En þetta er ekki rétt hjá hv. flm. Það er allt annað, að leigan lækki hægt og hægt með aukningu húsnæðis, eða að snögg breyting verði í þessu efni. Ef byggð væru hús svo hundruðum skipti á einu ári, þá yrði á þessu snögg breyting, en við því er ekki að búast, heldur mun það taka þó nokkur úr þangað til húsaleigan lækkar til muna, og er þá hægt að sætta sig við breytinguna, er hún fer eftir rólegu viðskiptalögmáli, en kemur ekki svo snöggt sem verða mundi eftir þessu frv.

Á síðasta ári voru byggð hér á annað hundrað íbúðarhús, og hafði það engar stórbreytingar í för með sér á húsaleigunni. En ef áframhald yrði svo, þá mundi leiga smálækka af sjálfu sér, og væri það rétt eftir venjulegum viðskiptalögmálum.

Loks finnst mér vera ástæða til þess að leita umsagnar þeirra, sem eru í fyrirsvari þeirra manna, sem eiga að búa við fyrirkomulag þessara laga, áður en slík löggjöf sem þessi er sett í Reykjavík. Það er bæjarstjórn Rvíkur, sem þar er í fyrirsvari, en ég veit ekki til þess, að þetta mál hafi verið undir hana borið, þótt eðlilegt væri, að það væri gert. Ég vænti þess því, að sú nefnd, sem væntanlega fær málið til meðferðar, beiðist umsagnar bæjarstj. Rvíkur um það.