31.07.1931
Neðri deild: 17. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í C-deild Alþingistíðinda. (2322)

97. mál, húsnæði í Reykjavík

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Ég geri ekki ráð fyrir, að ég tali mjög langt mál út af þeim aths., sem fram hafa komið við þetta mál. Frv. er nú til 1. umr. og ég vænti þess, að það gangi til 2. umr. og n., og þegar það kemur úr n., mun gefast tækifæri til þess að rannsaka nánar og ræða hvert einstakt atriði. Ég kemst þó ekki hjá því að gera nokkrar aths. viðvíkjandi aðfinnslum, sem komið hafa fram við frv. Hv. 3. þm. Reykv. virtist furða sig mjög á því, að ég skyldi flytja þetta mál, og færði það sem ástæðu, að eftir þeim ummælum, sem fram hefðu komið af hálfu frambjóðendanna í Árnessýslu á nýafstöðnum kosningarfundum, hefði hann ekki getað vænzt þess, að þeir létu sig velferð Reykvíkinga miklu skipta. Ég hygg nú, að hv. þm. muni hafa verið fluttar rangar fregnir um þessi ummæli okkar, mín a. m. k. Ég minnist þess ekki, að ég hafi viðhaft nokkur ósæmileg orð í garð Reykvíkinga, og skírskota ég í því máli til vitnisburðar flokksbræðra hv. þm., sem með mér voru á fundum þessum. En e. t. v. telur hv. þm. mig hafa verið nokkuð harðorðan, þegar við áttum tal saman, en það er nú mál, sem snertir okkur tvo, en nær ekki til annara manna. Ég vil því mótmæla því algerlega, að hjá mér hafi fallið nokkur óvirðingarorð um Reykvíkinga yfirleitt. Annars get ég getið þess, að ég mun hafa sagt á kosningafundum, bæði austur í Árnessýslu og víðar, að ef kjördæmaskiptingin yrði þannig, að mjög fá og stór kjördæmi yrðu höfð, þá yrði það vald, sem hin einstöku héruð hafa nú í því að ráða vali á fulltrúum sínum á Alþingi, af þeim tekið og myndi að sjálfsögðu lenda í höndum hinna pólitísku flokksstjórna. Ég mun líka hafa játað það á þessum fundum, að ég bæri ekki trú til neinna slíkra manna til þess að velja frambjóðendur fyrir héruðin, og að þessu myndi vera miklu betur fyrir komið, ef menn, sem sjálfir eiga heima í héruðunum og kunnugir eru málefnum þeirra og öllum ástæðum, veldu fulltrúa sína sjálfir. Þótt ég hafi sagt þetta, kalla ég það ekki að fara óvirðingarorðum um menn, ekki einu sinni þá menn, sem sæti eiga í hinum pólitísku flokksstjórnum, hvað þá um Reykvíkinga almennt.

Ég skal svo ekki gera þetta að frekara umtalsefni, en hinsvegar vildi ég aðeins leiðrétta þetta hjá hv. 3. þm. Reykv. og ég veit, að þessi misskilningur hans stafar af því, að honum hafa borizt rangar fregnir af fundunum.

Ég hefi margt gott um Reykvíkinga að segja, og það sæti sízt á mér að kasta að þeim nokkrum óvirðingarorðum. En að því er mér virtist, þá tók hv. þm. sjálfur málefni því, sem til umr. er, fremur vel, og á ræðu hans gat ég ekki annað skilið en að hann hefði vilja til þess, að eitthvað yrði gert í þessu máli, og það er auðvitað höfuðatriðið og fyrir þessar fremur góðu undirtektir er ég hv. þm. mjög þakklátur.

Mér finnst það nú satt að segja eðlilegt, að þeir menn, sem sérstaka aðstöðu hafa til þess að kynna sér mál eins og húsnæðismálið, og hafa þegar aflað sér talsverðrar þekkingar á því, að þeir ættu að hafa vilja á því að bæta úr því máli, og taka með gleði við umbótatill. í því efni, eins og mér virtist hv. þm. raunar gera. Hv. 3. þm. Reykv. vakti máls á því, að honum fyndist, að á annan hátt mætti betur tryggja það, að þessi húsnæðisn. væri vel skipuð, og kvað það vera eðlilegra, að t. d. Alþýðusamband Íslands tilnefndi einn mann í hana. Ég hefi ekkert á móti þessu. Höfuðatriðið er, að nefndin verði þannig skipuð, að hún sé fullkomlega fær um það að fella sem réttlátasta úrskurði í hverju máli.

Þá minntist hv. þm. á það, að stj. hefði stöðvað byggingar hér í Reykjavík. Þetta er ekki alveg rétt hjá hv. þm. Hann getur e. t. v. sakað stj. um það að hafa ekki brotizt nógu mikið í því að útvega lán til þess að halda mætti byggingunum áfram, en hann getur á engan hátt sakað stj. um, að hún hafi beinlínis stöðvað þær. Og sá litli vísir til verkamannabústaða, sem nú er verið eða á að fara að smíða, er þó til þess að auka byggingarnar.

Hv. 4. þm. Reykv. talaði hér nokkur orð, en af því að ræða hans var nokkuð með sérstöku sniði og eiginlega fremur lítið um málefnið, en í þeim anda, sem ég hefi svo oft heyrt hann tala hér áður, þá ætla ég alveg að ganga framhjá hans ræðu.

Hv. 2. þm. Reykv. vék að þessu máli og gerði nokkrar aths. um það. Ég veit ekki, hvort hv. 2. þm. Reykv. vill taka eftir því, sem ég segi. (EA: Mér er mikil ánægja að gera það). Ég verð að játa það, að hv. þm. hélt sér prýðilega við efnið í sinni ræðu, og mér þótti vænt um þær ath., sem hann kom fram með við frv. mitt, þar sem maðurinn er afarkunnugur þessu máli, hefir verið í húsnæðisn. bæjarins og hefir sérstaka þekkingu í þessum efnum. (EA: Ég var formaður húsnæðisn. í 2 ár). Ég gat ekki dregið af ræðu hv. þm., hvort hann var á móti málinu eða með því. Hann gerði sér far um að benda á agnúana, eins og rétt var, og eins á þau atriði, sem örðug kynnu að reynast í framkvæmdinni, en ég býst við, að hann hafi bent á þetta af heilum huga og til þess að því yrði kippt í lag; en hinsvegar stóð í blaði einu, sem stendur nærri hv. þm., að hann eins og hinir þm. Reykv. hefði talað á móti málinu. Vera má nú, að blaðið hafi sagt þetta af ókunnugleikum, eða að því er e. t. v. svo vel kunnugt um innstu hugsanir hv. 2. þm. Reykv., að það hafi talið sér óhætt að segja þetta. Annars er það nú ekki rétt hjá blaðinu, að hv. 2. og 3. þm. Reykv. hafi beinlínis talað á móti þessu frv. En það er afargott að fá þessar aths. frá hv. 2. þm. Reykv., sérstaklega fyrir n. þá, sem fær málið til meðferðar.

Hv. þm. þótti leigugjald það, eða prósentutalan, sem frv. gerir ráð fyrir, að tekið sé fyrir húsnæði, 15% af fasteignamatsverði húsanna, heldur lág. Einnig fannst hv. þm. verð það, sem frv. heimilar að taka fyrir lóð hússins, heldur lágt, en það eru 5% af matsverði lóðarinnar. Ég get fallizt á, að hið síðara kunni e. t. v. að vera rétt hjá hv. þm. Menn munu alloft þurfa að skulda fyrir lóðirnar, en hin ódýrustu lán líklega ekki fáanleg fyrir svo litla afborgana- og vaxtagreiðslu sem 5%. Um hitt atriðið er það að segja, að um það hefi ég átt tal við fróða menn í þeim efnum, og fullyrða þeir, að 15% af fasteignamatsverði húsanna sé áreiðanlega í flestum tilfellum nógu hátt. Það getur auðvitað verið, að þeir, sem hafa verið svo óheppnir að reisa hús sín á dýrasta tíma, þykist ekki nema tæplega fullsæmdir af slíkri leigu. Ég myndi nú sætta mig við, að þessum prósentutölum yrði þokað eitthvað lítilsháttar upp á við. Okkur, sem að samningu þessa frv. stóðum, þótti réttara að hafa rammann svo víðan, að n. sú, sem kæmi til með að annast þessi mál, hefði dálítið frjálsari hendur og gæti tekið nokkurt tillit til hinna sérstöku ástæðna, sem kynnu að koma í ljós við framkvæmd málsins.

Hv. 2. þm. Reykv. drap á það, hve illt væri og leitt hversu erfitt væri að losna við leigjendur. Ég var þess fullviss, að þetta ákvæði kynni að valda nokkrum erfiðleikum. (EA: Það er vont að geta ekki losnað við leigusala líka).

Viðvíkjandi því, að lagðar eru hömlur á að taka húsnæði til annarar notkunar en íbúðar, og að rífa hús, þá held ég, að það komi ekki að sök, þar sem það er heimilað í frv., að með samþykki húsnæðisn. megi rífa hús.

Hv. þm. minntist á það, að heimtað er, að leigusamningar séu gerðir skriflega, og spurðist fyrir um það, hvernig færi, ef menn vildu ekki gera slíka samninga. (EA: Eða ef menn gætu það ekki. Leigutakar, sem koma í nýtt hús, neita stundum að gera skriflega samninga). Ef menn vilja, þá geta menn gert skriflega samninga, en kæmi það fyrir, að annarhvor aðila neitaði að skrifa undir, þá er hægt að hafa vottfast, hverjir samningarnir eru. En vafalaust er hægt að setja varúðarákvæði fyrir slíkum tilfellum. Þess vil ég geta, að það var óaðgætni hjá mér þegar frv. var prentað að nýju, að dagsetningunni, sem segir til um hvenær lögin skuli öðlast gildi, var ekki breytt. Vona ég, að n., sem fær frv. til meðferðar, geri brtt. við þetta. Viðvíkjandi skriflegu samningunum þá er það ekki meira en víðar er í okkar lögum. Í ábúðarlögum eru fyrirmæli um, að skriflegir samningar skuli vera gerðir um ábúð á jörðum. (EA: Nei, það er ekki fyrirskipað). Það er beinlínis sagt, að um það skuli gerðir skriflegir samningar. (EA: Það er skilyrði fyrir gildi samningsins). Það er ekki rétt, því að ef maður getur leitt votta að samningnum, þá er hann gildur. (BJ: Það snertir sönnunarbyrðina. — MJ: Ruglið þið hann nú ekki alveg!).

Þá minntist hv. 2. þm. Reykv. á það, að þetta yrðu hömlur á innflutning manna til bæjarins. Hv. 3. þm. Reykv. minntist líka á þetta og sagði, að hefta mætti fólksflutning til bæjarins með öðru móti. Ég játa það, að það eru að því leyti hömlur, sem frv. leggur á þetta, ef menn leggja sér ekki til húsnæði, en ef mönnum þykir þetta ekki gott fyrirkomulag, þá skiptir það auðvitað engu máli, bara ef hægt er að fá annað betra. Hv. 2. þm. Reykv. var að minnast á það, að þessar hömlur, sem væru í frv. á fólksflutning, minntu helzt á kúgun gamla Bessastaðavaldsins. Þessi röksemd hv. þm. fannst mér satt að segja heldur hæpin. Nær væri, að fjárkúgun sú og viðskiptaósvífni, sem á sér stað í sambandi við húsaleiguna hér í bænum, minnti eitthvað á þetta gamla kúgunarvald. Það eru dæmi til þess, að húsverð er tekið nálægt á einu ári í leigu; og húsaeigendur hafa sagt mér, að á 5 árum séu þeir búnir að taka verð hússins þrisvar. Um hömlurnar á innflutningi í bæinn er það að segja, að ég veit ekki betur en að til séu lög um það, að hver, sem til bæjarins flytur, þurfi að tilkynna það lögreglustjóra, og ég held,að menn þurfi að eiga einhverja vissa fjárupphæð til þess að fá leyfi til þess að setjast hér að. Það mun nú ekki vera farið mikið eftir þessum lögum nú, en ég hygg þó, að þau séu í gildi. Hv. þm. vék í þessu sambandi að því, hve mönnum væri gert ófrjálst að setjast að og fá byggðarleyfi þar, sem menn vildu. Ég vil nú geta þess, að ég hefi aldrei verið talsmaður neins slíks ófrelsis. (PO: Hefir samið frv. um það). Þvert á móti.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að ef frv. yrði samþ., þá yrði minna byggt og viðhald húsa verra. Að viðhald húsanna yrði verra, nær engri átt, en vera má, að þeir, sem nú byggja hús til þess að okra á þeim, myndu hætta við að byggja, en nauðsynlegar byggingar myndu halda áfram engu að síður.

Seinast í ræðu sinni sagði hv. þm., að þetta hámark á húsaleigunni yrði til þess að setja menn á höfuðið. Hinsvegar var hann að gera ráð fyrir, að ef framboð á húsnæði ykist, þá myndi leigan að sjálfsögðu lækka. En þessi hv. þm. sagði, að það gengi svo seint, að það myndi taka mörg ár, og eftir hans meiningu áttu menn að vera búnir að borga niður hús og lóðir. En á hv. þm. víst, að almenningur þoli að greiða þessa húsaleigu, sem nú er, í mörg ár? Ég veit það með vissu, að atvinnugreinir landsmanna bæði til sjávar og sveita eru nú reknar með stórkostlegum rekstrarhalla. Og frá þessum atvinnugreinum verður þó það að koma. Ég hygg, að hvorki þessi hv. þm. eða neinn annara hv. dm. geti borið um það, hve lengi atvinnuvegirnir bera þann mikla tilkostnað, sem nú er til þeirra. Og þegar þeir eru komnir í þrot, af hvaða ástæðu sem það nú er, þá verður ekki spurt um það, hve dýra húsaleigu menn þurfi að fá, heldur verður að fara eftir því, hvort nokkrir peningar eru til þess að greiða hana með. Það er hreinasta óhæfa að bíða eftir því, að húsaleigan lækki blátt áfram fyrir stórkostlegt hrun: og ég vona, að hv. 2. þm. Reykv. vilji stuðla að því að koma í veg fyrir slíkt ástand, sem það myndi skapa.

Þá vék hv. þm. að því, að með þessu væri umráðarétturinn skertur, og ég skal viðurkenna það, en það er ekkert nýtt með þessari löggjöf. Það er svo um mörg, atriði í löggjöfinni, að með henni er eignarréttur manna skertur, og þesskonar hafa menn ekki sett fyrir sig, þegar það hefir þótt nauðsyn vegna almennra hagsmuna. En sé aftur hægt að samræma það þannig, að lögin nái tilgangi sínum og verði þó eitthvað rýmri, þá er ekkert á móti því. Annars ber ég traust til hv. 2. þm. Reykv., að hann hafi vilja á að gera þetta allt sem bezt úr garði, þó að hann hafi enga trú á lögum í þessu efni.

Ég get vel fallizt á þá till. hv. 2. þm. Reykv., að leita álits bæjarstj. Ég tel það rétt að leita álits hennar og vænti, að það geti komið fljótlega og vona, að n. sú, sem væntanlega fær þetta mál til athugunar, fái álit bæjarstj. um málið, síður en það verður afgr.

Ég við mega vænta góðs af hv. 2. þm. Reykv., sem hefir sérstaka kunnugleika til þess að geta komið með ýms atriði til bóta, jafnvel þó að hann kunni að vera andvígur því, að lög séu sett í þessu efni. En ég held það ekkert vafamál, að það sé mesta þörf á að setja hér lög, og held, að það sé í alla staði varlegra af Alþingi að gera það.

Þá vil ég snúa máli mínu til hv. 4. þm. Reykv., þó að ég gæti náttúrlega að mörgu leyti sparað mér mörg orð um hans ræðu, því að það, sem hann sagði, snerti harla lítið málið sjálft, og ég hefi enga löngun til að skattyrðast við hann. Mér þykir ekkert skemmtilegt að heyra hann hafa slík ummæli og því síður að taka þátt í þeim. Hann vann það til að víkja mínum orðum þægilega til hliðar til þess að geta komið sér betur fyrir með það, sem hann vildi segja. Staðhæfingar hans voru svo fjarri því að vera réttar, að ég verð að segja það, að þegar um alvarlegt málefni er að ræða, sem snertir hagsmuni mjög margra manna, þá finnst mér, að ekki sé unnt að vænta annars af hverjum þjóðarfulltrúa en að hann leggi til málefnanna það bezta, sem hann kemur auga á í hvert sinn, eftir því sem vitsmunir hans leyfa. Jafnvel þó að það kunni að koma eitthvað í bága við hneigð mannsins og skaplyndi, þá verður hann að hafa það taumhald á því, að þær tilfinningar taki ekki af honum ráðin. En það hafa flestir ástæðu til að ætla, að sitt af hverju, sem hv. 4. þm. Reykv. hefir sagt nú, væri alls ekki eftir viti hans, og því síður, að það hafi snert það mál, sem hér er til umr. nú.

Hv. þm. frábað sér alla íhlutun mína og minna flokksmanna viðvíkjandi málefnum Reykjavíkur. Ég veit ekki, hvernig hann hugsar sér þetta í framkvæmdinni. Hvernig hugsar hann sér að koma fram sínum málum án þess að ég eða einhverjir mínir flokksmenn styðji þau? Hann veit það vel, að án okkar stuðnings gæti ekki eitt einasta atriði náð fram að ganga, hvorki í þessari deild né Ed. Kannske honum standi alveg á sama, þó að þau mál séu felld, sem nauðsynleg eru fyrir þennan bæ. Þetta er nokkuð mikil afbrýðisemi hjá þessum hv. þm., og ég held, að engin ástæða sé til hennar.

Hv. þm. varpaði því fram til okkar fulltrúa þessa flokks, af hvaða ást við hefðum unnið fyrir Reykjavík, og nefndi okkur þeim nöfnum, sem ég hefi heyrt hann segja og séð áður á prenti eftir honum. Skora ég nú á hv. þm. að tilfæra eftir mér einhver þau ummæli frá síðustu kosningum, sem geta fallið undir það orðbragð, sem hann vildi telja, að ég hefði viðhaft. Hann tók engan undan, svo að ég hefi fyllstu ástæðu til að taka það til mín.

Annars get ég sagt þessum hv. þm. það, að þessi ummæli hans verka á engan hátt á mig. Ég skoða mig ekki fyrst og fremst þm. Árnesinga. Ég tel það skyldu mína að leggja það, sem ég álít gagnlegt, til málefna þjóðarinnar, hvort sem það snertir mitt byggðarlag eða eitthvert annað, hvort sem það snertir allan almenning eða einstaklinga hér á landi, og því meiri skyldu, sem málefnið er mikilvægara.

Ég hygg það efa mikinn, að hv. 4. þm. Reykv. tali fyrir munn allra sinna kjósenda, þegar hann frábiður sér íhlutun allra okkar framsóknarmanna af málum Reykjavíkur, og ég veit það með vissu, að því síður talar hann þar fyrir munn annara kjósenda í þessum bæ.

Hann vék að því, af hverju höfuðdýrtíðin í þessum bæ stafaði og las upp úr Hagtíðindunum 2–3 tölur, en svo ekki lengra, því að það hentaði ekki. En það vill svo til, að í Hagtíðindunum er ekki nema lítið eitt af því, sem beinlínis snertir lífsframfæri manna. Það voru nefnilega framleiðsluvörurnar, sem áttu að valda allri dýrtíð. Hann tilnefndi prósentutölu þeirra, hvað hún væri mikið fyrir ofan það, sem var fyrir stríð, og tilnefndi svo útlendar vörur jafnframt. Það er alveg rétt, innlendar vörur hafa fallið minna. En ef hann vill líta á þetta nánar, líta á orsakirnar til þess, að innlendar vörur eru dýrar, þá sér hann, að tilkostnaður framleiðslunnar er mörgum sinnum dýrari, mörg hundruð % fyrir ofan það, sem var fyrir stríð. En innlendu framleiðsluvörurnar eru nú sumar fyrir neðan það, sem þær voru fyrir stríð. Húsaleigan var svo sem ekki það, er olli dýrtíðinni í Reykjavík, fannst hv. þm. Hún var ekki þess verð, að minnzt væri á hana! Ég ætla ekki að fara að bera saman hinar einstöku vörutegundir, sem hv. þm. minntist á; ég vil ekki lengja tímann með því. Hv. þm. gat með engu móti komið því í sitt höfuð, að það væri hægt að ráða nokkra bót á því t. d., hvað mjólkurverð í Reykjavík er hátt, nema framleiðendurnir fengju minna fyrir hana en nú. Mér er talið, að framleiðendurnir fái ekki meira nú fyrir hvern litra mjólkur en 20–28 aura. Hér er hún seld á 44–54 aura, eftir því, hvort hún er gerilsneydd eða ekki. Mismunurinn á því, sem framleiðendurnir fá og Reykvíkingar verða að kaupa hana, fer í kostnað við að koma henni á markaðinn og í hendur neytenda. Eins og heyra má af þessum tölum, er þessi kostnaður svo óbærilegur, að það er undarlegt, að ekki skuli hafa verið gerð gangskör að því frá beggja hálfu að draga úr honum. Sama er að segja um fiskinn. Þeir, sem afla hans, fá ekki nema lítið brot af því, sem þeir borga, sem fiskinn kaupa. Ég get ómögulega séð, að þetta dæmalausa sleifarlag þurfi alltaf að ganga svona, en hv. 4. þm. Reykv. finnst það endilega þurfa að vera svona áfram.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að brauðverð hér í bænum er okur. Það lækkaði að vísu ofurlítið síðasta haust, en það er samt allt of hátt enn. Ætli það sé nauðsynlegt, að það sé svona? Ég neita því alveg. En hv. 4. þm. Reykv. virðist vilja láta þetta allt saman ganga sinn gang, þangað til það lagast allt af sjálfu sér, en þó að þetta fyrirkomulag hafi í för með sér hörmungar, sem væri hægt að draga úr á einhvern hátt, þá virðist hann ekkert vilja um það fást.

Hv. þm. segir, að það sé ekkert annað en að byggja nógu mikið, þá lækki húsaleigan. Við höfum að vísu ekki mikla reynslu í þessu efni, þó dálitla. Ég vil minna hv. þm. á það, sem honum ætti að vera skylt að muna vegna sins starfs fyrir þennan bæ, minna hann á, hvernig hér var ástatt 1907 og 1908 hvað húsaleigu snertir fyrir Reykjavíkurbæ.

Það var ofmælt hjá hv. þm., þegar hann var að tala um, að fasteignaveð væri ekki nema helmingur af kostnaðinum. Ég hefi góðar heimildir fyrir því frá þeim mönnum, sem þekkja bezt, að það er 2/3, en þann varnagla sló ég í framsöguræðunni. En ef menn teldu þetta of lágt, þá hefi ég ekki á móti því, að það væri talið eitthvað fyllra.

Ég er hissa á hv. 4. þm. Reykv., vegna þess hvað tilfinnanlega það tekur til margra þúsunda í þessum bæ, að það væri óviðfelldið og hart að setja hömlur við því, hve mikla leigu menn taka af fjármunum sínum. Af hverju heldur hv. þm., að bann sé til við okri? Ætli það sé ekki af því, að það eru því miður til þeir menn, sem vilja nota aðstöðu sína til að auðgast á annara neyð. Þess vegna hefir fyrir löngu verið sett bann við slíku framferði og refsing lögð við, ef út af væri brugðið.

Hv. þm. sagði svo, að þetta yrði til þess að koma húsaleigunni upp úr öllu valdi, og dró það af því, að menn hættu að byggja og fara í baksamninga þeim mun meira. M. ö. o., að þeir mundu halda húsaleigunni ennþá dýrari en hún er jafnvel nú. Ekki er nú vitnisburðurinn fagur, sem hann gefur bæjarbúum. Þetta er víst ekki að tala illa um Reykjavík. En ég er alveg óhræddur um, að þetta komi húsaleigunni upp, en hvort samningar fara fram á bak við, get ég auðvitað ekkert sagt um. En ef við værum hræddir við að setja hver þau lög, sem undir vissum kringumstæðum væri hægt að fara á bak við, þá væri vænst fyrir okkur að leggja árar í bát og hætta allri lagasetningu. Það má sjá af okkar lagasetningu, að löggjafinn er sér þessa meðvitandi, því að refsingar eru lagðar við, ef brugðið er út af ákvæðum laganna. Auðvitað verður það að verða uppvíst, og er þá refsað eftir ákvæðum laganna.

Hv. þm. sagði svo, að bezta ráðið yrði að gera mönnum kleift að fá ódýr lán til að byggja húsin. Það mundi auðvitað hjálpa mikið, en það verkar ekki aftur fyrir sig fyrr en smátt og smátt eftir langan tíma. Og þó að við hefðum fjárhagslega getu til þess, þá veit ég ekki, hvort það væri nokkuð heppilegt, að væri meira framboð en eftirspurn á húsnæði. Þó að þeir hv. þm. vilji það, sem eru forsvarsmenn þeirra, sem húsin eiga, þá álít ég efamál, hvort greiða eigi fyrir því, að hrunið af húsaleigunni yrði tilfinnanlegra en það yrði, ef lög yrðu sett um þetta. Af því hruni gæti leitt mikil vandræði.

Þá vék hv. þm. að því, að ekki ætti að gera þeim hærra undir höfði, sem störfuðu hjá bænum og ríkinu, en þeim, sem væru við einstaklingsfyrirtæki. Þetta er ósköp smávægilegt atriði, og má vel setja það ákvæði í frv., að þeir, sem starfa við einstaklingsfyrirtæki, þurfi að sýna, að heimilt sé að veita þeim húsnæði.

Hv. þm. sagði, að þeir, sem byggðu hús, væru búnir að setja fé sitt í það að byggja annara hús. Það er vitaskuld ekki, en þeim eru sett takmörk með þessu. Ég minnist þess frá síðasta þingi, að þá gerði þessi hv. þm. að umtalsefni mál, sem snerti ekki lítið hagsmuni bæjarbúa og þjóðarinnar úti um land. Mér virtist eftir röksemdum hans í því máli, að honum væri ekki einkar sárt um það, þó að hagsmuna þeirra manna á þessu sviði væri ekki fullkomlega gætt. Það þýtur í þessum skjá svona sitt á hvað.

Ég ætla þá ekki að þessu sinni að fjölyrða frekar um málið. Ég tók það fram í byrjun, að mér væri fullkomlega ljóst, að framkvæmd slíkra laga sem þessara myndi ýmsum erfiðleikum háð. En nauðsyn þessara laga fyrir þennan bæ er aftur það mikil, að ég held, að að öllu ahuguðu væri fyrir báða málsparta, leigusala og leigutaka, gott og nauðsynlegt, að löggjöf væri sett um þetta. Það er vitaskuld hálfgerð neyðarráðstöfun, en hún er samt nauðsynleg vegna þess ástands, sem nú er í bænum og enginn veit, hvað varir lengi. En það er meira gáleysi en rétt er að komi fram hjá þjóðarfulltrúa, að tala um svo alvarlegt mál sem þetta í hálfgerðu skensi og alvöruleysi, eins og það væri eitthvert hégómamál. Menn verða að taka máli eins og þessu eins og þeir álíta bezt og leggja það til, sem þeir álíta réttast og heppilegast.