31.07.1931
Neðri deild: 17. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í C-deild Alþingistíðinda. (2332)

109. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Flm. (Jón Auðunn Jónsson):

Þetta frv. er flutt vegna þess að hrepps- og sýslufélög, sem ráðast í að gera lendingarbætur, eiga þess nú hvergi kost að fá lán. En ég sé ekki, að það standi öðrum nær en Fiskveiðasjóði að hjálpa, er svo stendur á. Ég get nefnt sem dæmi Hnífsdal. Þar hefir hreppurinn sjálfur lagt fram 15 þús. kr., en þeir þurfa að fá 10 þús. kr. í viðbót. Þeir fá það ekki, af því að enginn vill veita lán til langs tíma. Bankarnir eru orðnir svo „specialiseraðir“, ef svo mætti að orði kveða. Þeir veita lán, einn til viðskipta, annar til útvegs og þriðji til landbúnaðar, en ekki lán til hreppsfélaga, eins og hér þarf á að halda.

Áður en breytt var lögum Fiskveiðasjóðs, gátu menn fengið slík lán í honum, en nú, eftir að lögunum hefir verið breytt, vilja forstöðumenn sjóðsins ekki veita þau. Það er að vísu rétt, að Fiskveiðasjóður hefir allt of lítið fé til umráða, en ég sé þó ekki betur en að því fé væri vel varið, sem veitt væri í þessu skyni, en vel mætti ákveða hámark þessara lána 10 þús. kr.

Ég sé ekki ástæðu til þess að vísa þessu máli til nefndar. Hefði ég að vísu ekkert á móti því, en vildi óska þess, að það mætti ganga nefndarlaust í gegnum deildina.