15.08.1931
Efri deild: 30. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í B-deild Alþingistíðinda. (234)

1. mál, fjárlög 1932

Magnús Torfason:

Ég á hérna eina brtt. á þskj. 297, þess efnis, að Guðmundi Jónssyni frá Stokkseyri verði veittar 1000 kr. til að ljúka vélfræðinámi í Þýzkalandi. Þessi maður sigldi fyrir 2 árum til þess að kynna sér vélar, sérstaklega dieselvélar. Það þótti mikil þörf á því, því kunnáttu í þeim efnum hefir verið talsvert ábótavant. Hann gekk í skóla og var á verkstæðum og stundaði nám sitt vel, svo vel, að yfirmenn hans og kennarar hvöttu hann til að ná fullkomnari fræðslu í þessu efni. Sú fræðsla er talsvert dýr. Og þar sem pilturinn er bláfátækur, getur hann ekki klofið fram úr þessu, nema hann fái nokkurn styrk. Þetta er mjög efnilegur maður og mjög áhugasamur um starf sitt. Hann er sonur Jóns Sturlaugssonar á Stokkseyri, þess manns, sem sennilega hefir hjargað flestum mannslífum hér á landi, enda hefir hann fengið ýmsar viðurkenningar fyrir það, t. d. var hann gerður riddari af fálkaorðunni. Þessi maður á mörg börn, sem hann hefir reynt að kosta til náms af litlum efnum, því eins og menn vita. hefir vélbátaútvegurinn ekki borgað sig vel þar seinni árin. En það, sem gerir, að hann getur ekki styrkt son sinn til þessa, er, að það hafa verið mikil veikindi á heimili hans. Það er fyrir þessar sakir, sem ég lofaði að bera fram þessa till. Ég er ekki í neinum vafa um það, að sjávarútvegurinn muni uppskera margfalt fyrir þennan litla styrk, og vonast ég því til, að d. vilji ljá þessari till. lið sitt.

Þá skal ég aðeins minnast á brtt. á þskj. 313 við brtt. um nýjan lið viðvíkjandi barnaheimilinu Sólheimum. Um það eru 2 till., 10 þús. kr. og 8 þús. kr. Ég kom með till. um 5 þús. kr. og ber að skoða hana sem bjargráð í sjávarháska. Að öðru leyti finn ég ekki ástæðu til að tala um þetta mál, því ég veit, að hv. flm. muni gera það svo vel, að míns stuðnings muni ekki við þurfa.