01.08.1931
Neðri deild: 18. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í C-deild Alþingistíðinda. (2342)

114. mál, sóknaskipun í Reykjavík

Flm. (Magnús Jónsson):

Mál þetta hefir verið hér áður fyrir þinginu og var þá flutt að tilhlutun sóknarnefndar Reykjavíkur. Var þá farið fram á, að ríkið léti dómkirkjuna af hendi til safnaðar síns og léti hæfilegt álag fylgja. Dómkirkjan er nú orðin langsamlega of lítil söfnuði sínum, svo að það mun hvergi á landinu vera eins.

Þetta mál hefir fengið daufar undirtektir hjá þinginu, því það var ófúst að snara út mikilli upphæð, þar sem auðsýnilegt var, að ríkið varð bráðlega að leggja fram fé til þess að bæta úr kirkjuskortinum í Reykjavík. Var þá stungið upp á annari leið og farið af stað með fjársöfnun til nýrrar kirkju í Reykjavík. En menn voru almennt á móti því að leggja fram fé til kirkjunnar, því að ríkið væri kirkjueigandi og ætti því að bera kostnaðinn af nýrri kirkjubyggingu.

Hér er því farið fram á, að ef komið verði upp einni eða fleiri nýjum kirkjum, skuli skipta Reykjavíkursókn þannig, að ákveðinn hluti hennar fylgi hverri kirkju. Þessir söfnuðir myndu þá koma sér upp kirkju, ríkinu að kostnaðarlausu, og þyrfti það þá ekki að svara mikilli upphæð til dómkirkjusafnaðarins.

Þá er annað atriði, sem ég vildi minnast á. Eins og menn vita, er hið eina, sem ríkið hefir gert til þess að bæta úr kirkjuskortinum, það, að ráða annan prest til dómkirkjunnar, svo að fleiri menn gætu hlýtt messum en áður, með því að nú eru tvær guðsþjónustur á hverjum sunnudegi. En þessir tveir prestar hafa báðir sama svæði, en eðlilegast væri, að hver prestur hefði sín sóknarbörn, svo að hann geti húsvitjað og talað við fólkið. Ég held því, að það væri hentugt að skipta Reykjavík í tvær sóknir.

Svo óska ég, að máli þessu verði vísað til 2. umr. og allshn.