10.08.1931
Neðri deild: 25. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í C-deild Alþingistíðinda. (2352)

170. mál, ráðstafanir vegna atvinnukreppunnar

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Hér hefir verið á nokkrum fundum í deildinni drepið á, að framundan væru nú alveg sérstaklega alvarlegir tímar. Hæstv. forsrh. tók svo til orða við 2. umr. fjárl., að nú væri að byrja alvarlegasta fjárkreppan, sem komið hefði á þessari öld. Tveir flokksmenn hans hafa líka bent á svokallaðar ráðstafanir til þess að mæta kreppunni á komandi hausti. Íhaldsfl. hefir borið fram till. um 1 millj. kr. veitingu í sama skyni. Annað veit ég ekki til, að komið hafi fram á hinu háa Alþingi viðvíkjandi því sérstaka ástandi, sem ýmist er byrjað eða framundan, nema ef það skal telja, að ekki verður unnið að opinberum framkvæmdum nema svo sem 25% miðað við tvö til þrjú næstu ár undan. Ég veit ekki, hvort þetta á að skilja sem sérstakar ráðstafanir gegn kreppunni.

Við Alþýðufl.menn höfum haldið því fram, að til þess að mæta kreppunni þyrfti að gera margvíslegar ráðstafanir. Framlag til atvinnubóta eitt saman hrekkur skammt, jafnvel þótt gert sé ráð fyrir, að það væri margfalt á við það lítilræði, sem Íhalds- og Framsóknarfl. hafa gert ráð fyrir.

Ein ráðstöfun gegn kreppunni hlýtur að verða sú, að sjá um, að þeir, sem vinna fyrir sér með sínum eigin starfstækjum, geti haldið áfram að bjarga sér á þann hátt. Ef það er ekki gert, flosna þeir upp og verða til þess að auka atvinnuleysið og baslið í bæjunum; þá bætast þeir við hinn stóra hóp atvinnuleysingjanna þar.

Þeir menn, sem sjá í þessu tækifæri til þess að kúga niður kaupið, kunna þessu vel. Þeir líta á það með velþóknun, að smábændur og bátamenn flosni upp og bjóði niður kaup fyrir þeim, sem í bæjunum eru. Mér er ekki grunlaust um, að hin innilega samvinna milli Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins um afgreiðslu fjárl. stafi einmitt af þessu. Báðir flokkar vilja nota kreppuna til þess að knýja fram kauplækkun. Atvinnuleysið á að koma henni fram. Einn kaflinn í frv. okkar á þskj. 170 fjallar um það, að hjálpa þeim, sem sjálfir eiga starfstæki sín, til þess að standast kreppuna, með því að veita þessum mönnum aðgang að ódýrum rekstrarlánum og með því að styrkja samvinnufélagsskap þeirra um framleiðslu, innkaup, verkun og sölu. Í öðru lagi með því, að síldareinkasölunni verði séð fyrir auknu rekstrarfé. Mönnum er nú kunnugt um, að hún greiðir ekki nema 3 kr. út á tunnu, og er það vitanlega allt of lítið.

Þá er lagt til, að ríkisstj. sé heimilt að ábyrgjast greiðslu á víxlum vegna viðskipta við Rússland. Ennfremur að koma rekspöl á útflutning á ísvörðum fiski. Það mál liggur nú einnig fyrir hv. þingi í annari mynd sem sérstakt frv., og yrði þá tekið út úr þessu frv., ef það gengi í gegn.

Þá er það augljóst, að útflutningsgjöld verða að lækka af síld og síldarafurðum og færast til samræmis við það, sem tekið er af öðrum afurðum, sem út eru fluttar. Tollur, innflutningsgjöld, útflutningsgjöld af hverri tunnu síldar munu nú vera um 2 kr. Það mun láta nærri, að þessir tollar nemi samtals 25% af verðmæti vörunnar. Það þýðir, að ef sjómaður fengi 400 kr. í hlut á síldveiðum, þá eru 100 kr. teknar at hlutnum hans í ríkissjóðinn. Það ætti að vera bersýnilegt, að slík gjöld eru ekki réttlát. Það er sama sem að ríkissjóður geri sitt til þess að fæla menn frá að stunda þessa atvinnu, einmitt nú, þegar erfiðleikar steðja að þessum atvinnuvegi.

Þessar eru helztu ráðstafanirnar, sem bent er á til þess að létta undir með mönnum, sem sjálfir eiga starfstæki sín, ekki selja vinnu sína fyrir ákveðið kaup.

En þó að enginn þessara manna flosnaði upp, þá verður þó hópur hinna, sem ekki fá vinnu á næstunni, gífurlega stór. Og það jafnvel þótt hið opinbera léti vinna svipað og verið hefir. En því stopulli sem vinnan er, því meira ríður á, að sem mest not verði þess, er almenningur vinnur sér inn. Einn kafli frv. fjallar því um lækkun dýrtíðarinnar í landinu. Hún stafar af þrennum orsökum aðallega: Geysihárri húsaleigu, gífurlegri álagningu á útlendar vörur, og óskiljanlega háu verðlagi á innlendri vöru. Ef unnt væri að lækka þessa liði, þá væri um leið aukið kaupgildi hverrar krónu, sem fólkið fær milli handa.

Ég vík þá aftur að húsaleigunni. Hún er hjá lágtekjumönnum oft yfir 30% og jafnvel allt að 50% af árstekjum þeirra. Í skýrslu um húsaleigu frá í fyrra segir, að 983 hús séu leigð í Reykjavík. 3907 leigjendur galda þar rösklega sjö millj. króna í húsaleigu á ári. Húsaleigan er lægst 6% og hæst 43% af brunabótaverði. Húsnæði, sem notað er til atvinnurekstrar, er og leigt mjög úr hófi hátt oft og einatt. Í þessari sömu skýrslu segir og, að meiri hl. húseigenda hafi hagnazt mjög á þeirri verðhækkun, sem orðið hefir. 660 húseigendur hafa keypt undir brunabótaverði og leigja nú út fyrir mjög háa leigu, ef miðað er við kaupverð eða kostnaðarverð húsanna, sumir meira að segja fyrir h. u. b. jafnháa ársleigu og þeir guldu fyrir húsin í upphafi. Ef unnt væri að lækka húsaleiguna, þó ekki væri um nema 5%–10%, þá sparaði það mörg hundruð þús. kr. hjá þeim, sem kreppan mæðir harðast á; 10% af 7 millj. er 700 þús. kr. á einu ári.

Tökum þá t. d. verðlag á mjólk, fiski, kjöti, brauði. Mjólk er hér í tvöfalt til þrefalt hærra verði en bændur fá fyrir hana. Óhreinsuð mjólk er seld hér fyrir 44 aura. Sumpart er þetta af því, að verzlunin með þessa vöru er allt of kostnaðarfrek, sumpart af álagningu milliliða og allskonar ólagi á verzlunarrekstrinum. Er það skoðun okkar, að á þessu verði ekki veruleg bót ráðin fyrr en bæjarfélagið tekur í sínar hendur alla mjólkursölu og leyfir engum óviðkomandi. Það yrði einnig bezta aðhaldið frá heilbrigðisfræðilegu sjónarmiði. Sama máli gegnir um brauð og fisk og kjöt. Það er alveg sjálfsagt að koma hér upp rúgbrauðaverksmiðju. Lægi næst, að bærinn kæmi upp rúgbrauðagerð, nýtízku verksmiðju til þess að framleiða þessa vöru. Hér eru um 30 þús. manns. Það er nægilegt verkefni fyrir eina meðalstóra verksmiðju að sjá þessu fólki fyrir brauðum.

Ég athugaði í fyrrasumar, hvernig smásöluverð fylgdist með — eða öllu heldur fylgdist ekki með — heildsöluverðinu. Verzlunarstéttin hefir á síðastl. ári stungið í vasa sinn alveg óhæfilegum gróða, og þó óvíða eins gegndarlaust eins og í Reykjavík. Ég veit ekki, hvernig álagningin er á þessu ári. Það er kannske nokkuð breytilegt. En hún er áreiðanlega óhóflega mikil, sérstaklega þegar þess er gætt, hve kaupmannagrúinn er mikill. Við leggjum því til að ákveða álagninguna með hámarksverði, til þess að halda í skefjum kostnaði við verzlunina og draga úr dýrtíðinni. En jafnvel þó að enginn flosnaði upp af þeim, sem reka sjálfstæða atvinnu, og unnt yrði að drýgja hverja krónu, sem almenningur fær milli handa, þá er samt almenn neyð fyrir dyrum meðal þeirra, sem eiga afkomu sína undir því að geta selt vinnu sína. Einstakir atvinnurekendur vísa frá sér fólki og færa saman. Og ef ekki er séð fyrir vinnu handa þessum mönnum, þá er bjargarleysi fyrirsjáanlegt. Það er á valdi þessarar samkomu, hverja leið fara skuli til þess að greiða úr þessum vandkvæðum.

Í 66. gr. stjórnarskrárinnar er svo fyrir mælt, að sá eigi heimtingu á styrk úr almannasjóði, sem ekki er fær um að sjá fyrir sér og sínum. Við erum komin á það stig, að við viðurkennum, að hver maður eigi rétt á framfæri, ef ekki af eigin rammleik, þá af almannafé. En við erum ekki komin á það stig að segja í okkar stjórnarskrá, að hver, sem er atvinnulaus, eigi rétt á að fá atvinnu. En ef ekkert verður nú að gert til þess að forða þessu fólki frá atvinnuleysi, þá verða almannasjóðir að leggja út millj. til þess að halda fólkinu lifandi, forða því frá sulti. Er þá ekki betra að leggja féð fram til nauðsynlegra fyrirtækja, er fólkið fær vinnu við?

Við flm. höfum gert ákveðnar till. í frv. þessu um það, á hvern hátt bezt verði stýrt hjá vandræðum vegna kreppunnar og hvernig fé til þeirra ráðstafana skuli fengið.

Frá fjáröflun til atvinnubóta er skýrt í 1. kafla frv., og hirði ég ekki um að skýra það nánar að sinni. Viðvíkjandi tekjuáætluninni vil ég þó taka það fram, að álagið á tekjuskattinn og eignarskattinn á þessu ári á að vera alveg óyggjandi, ef sæmilega er gengið að innheimtunni. Gjalddagi hefir verið settur l. okt. með það fyrir augum, að hægt yrði að fara að veita styrk strax í haust. Um stóríbúðaskatt af íbúðum, sem metnar eru meira en á 20 þús. kr. miðað við 5 manna fjölskyldu, get ég ekki sagt, hvað hann myndi gefa af sér. Ég hefi dálítið rannsakað fasteignamatið gamla, og geta menn gert sér grein fyrir þessu eftir dæmum þeim, sem tilgreind eru á bls. 13. Sumir kynnu að vilja miða heldur við brunabótaverð en fasteignamat.

Þá er gert ráð fyrir háleiguskatti, ef húseigandi fær meira en 15% af kaupverði í leigu. Það mætti kannske gera sér hugmynd um, hvað þessi skattur gæfi, þar sem til er skýrsla, sem sýnir, að 3900 leigjendur borga 7 millj. kr. í húsaleigu.

Við skulum hugsa okkur, að þessi upphæð verði nærfellt 420 þús. kr. þá 22 mánuði, sem gert er ráð fyrir, að þessi l. séu í gildi. Eftir okkar athugun á þessu, þá finnst mér varlega áætlað, að það sé 1% af heildarleigunni. Ég hygg, að stóríbúðaskatturinn sé ekki hátt áætlaður 400 þús. kr. Ég skal taka fram, að þessar yfirlitsgreinargerðir gilda fyrir landið allt, enda þótt mestra tekna sé vitanlega að vænta úr Reykjavík.

Þá er gert ráð fyrir, að skemmtanaskatturinn renni í tvö ár til þessara framkvæmda, og er ekki ástæða til að fjölyrða um það.

Ennfremur er gert ráð fyrir, að tekju- og eignarskattur og fasteignaskattur, sem er fram yfir það, sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. stj., gangi til þessara framkvæmda. Með því að frv. okkar Alþýðuflokksmanna um tekju- og eignarskatt verði samþ., mun mega gera ráð fyrir, að tekju- og eignarskattur verði 1 millj. kr. hærri en nú er áætlað, og fasteignaskatturinn samkv. okkar frv. 600 þús. kr. hærri en fjárlagafrv. telur.

Loks er gert ráð fyrir, að áfengistollurinn verði látinn ganga til þessara framkvæmda. Þrátt fyrir það, þótt innflutningur minnkaði um helming frá því á síðastl. ári, þá verður tollaukinn um 60 þús. kr. á mánuði, eða um 1320 þús. kr. í 22 mánuði, sem l. er ætlað að gilda.

Þá er gert ráð fyrir happdrættisláni, og verði miðar til sölu allan tímann, sem l. gilda. Svíar hafa brugðið á þetta ráð og tekizt ágætlega að selja þessi ríkisskuldabréf. Stokkhólmsbær hefir þau, og ríkið líka.

Það er þá gert ráð fyrir, að þessir sérstöku skattar lendi eingöngu á þeim mönnum, sem hafa þær tekjur, að kreppan mæði ekki á þeim persónulega, — eingöngu mönnum, sem hafa yfir 7500 kr. tekjur í Reykjavík.

Sumum finnst, að það muni verða næsta erfitt að fá þetta fé. En ég þykist hafa bent á og fært rök að því, að það sé tiltölulega auðvelt, ef hnigið er að því ráði að afla fjárins á þennan hátt.

Þá kem ég að því, hvernig á að verja þessu fé, svo það komi að sem mestu haldi. Ég álít, að í raun réttri sé sveitar- og bæjarfélögum jafnskylt og ríkinu í heild að gera sitt ýtrasta til að bæta úr. Því ber að drýgja þetta fé með framlögum frá sveitar- og bæjarfélögum. Þess vegna er lagt til, að um 4 millj. af þessum 8 gangi um hendur sveitar- og bæjarstjórna, gegn því, að á móti séu lagðar vissar upphæðir frá þeim. Er gert ráð fyrir þeirri skiptingu, að 1/3 verði lagður fram sem atvinnubótastyrkur frá ríkinu. Annar 1/3 stendur héraðinu til boða sem lán, hinn síðasta 1/3 verða héruðin að geta lagt fram á annan hátt. Ætlazt er til, að verklýðsfélögin á hverjum stað geri till. um það, hvaða verk skuli unnin, og sveitar- og bæjarstjórnir geri þar um sínar ályktanir, en ríkisstjórn staðfesti. En þess vegna skulu verkalýðsfélögin eiga uppástunguna, að þau þekkja bezt atvinnuþörfina og á hvern hátt líklegast sé að bæta úr henni.

Ennfremur er gert ráð fyrir, að hugsazt geti, að sveitar- eða bæjarfélög séu á móti því að halda uppi atvinnubótum, eins og maður heyrir ekki óvíða, en kjósi heldur að leggja fólki styrk. Því er hér í 20. gr. ákveðið, að bæjar- eða sveitarstjórnir skuli ráða, hvort þetta fé sé látið ganga til framkvæmda eða til að greiða atvinnuleysisstyrki. Gert er þá ráð fyrir 5 kr. á dag, eins og slysatrygging ríkisins greiðir, að viðbættri 1 kr. á dag fyrir hvern skylduómaga. En ég býst við, að víðast verði sú leið valin, að sjá mönnum fyrir einhverri vinnu. En vilji ekki viðkomandi héraðsstjórn leggja til atvinnu, sé hún skyld að greiða atvinnuleysisstyrk.

Þá er gert ráð fyrir, að 2 millj. af þessum 8 renni til byggingarsjóðs verkamanna í kaupstöðum og kauptúnum landsins; 500 þús. kr. komi sem sérstakur styrkur umfram lögboðinn styrk. Er það hugsað þannig, að byggingarfélögin vinni fyrir þetta fé á þeim tíma, sem vinna gefur minna af sér. En 1500000 kr. gangi til sjóðsins sem lán, gegn því að sjóðurinn geti fengið jafnháa upphæð á móti. Verði þetta frv. samþ., er hægt að útvega í allt nokkuð á 5. millj. til byggingarframkvæmda á þessum tveimur árum. Á öðrum stað er veðdeildinni útvegað á 2. millj. kr. lán til handa mönnum, sem byggja smáhús. Með þessum framkvæmdum mætti slá tvær flugur í einu höggi, bæta stórkostlega úr húsnæðisleysinu og illu húsnæði, sem verkalýðurinn á við að búa, og auka atvinnu geysilega mikið. Þetta er nóg til að byggja 600–700 góðar íbúðir.

Loks er gert ráð fyrir, að þeim 2 millj. króna, sem eftir eru og ekki er varið til sérstakra lána, sé varið til ýmissa ríkisframkvæmda, sérstaklega þeirra, sem ekki þarf að kaupa mikið efni til, en mest fer í vinnulaun. Upphæðin er þá komin alls, með framlagi byggingarsjóðs og héraðanna á móti, kringum 11 millj., sem hægt er að verja til framkvæmda umfram venju, til að bæta úr atvinnuleysinu á þessum 22 mánuðum, sem lögin eiga að gilda.

Einmitt í því sambandi, að lagt er til, að l. gildi til 30. júní 1933, vil ég segja það, að það er sjálfsagt ekki á mínu valdi eða annara að spá, hvað kreppan verður löng eða erfið. En á vetrarþingi 1933 ætti að mega sjá það nokkurn veginn með vissu, hvort farið er að létta svo, að þorandi sé að fella niður þær ráðstafanir, sem hér er gert ráð fyrir. Ef kreppunni verður ekki lokið, þá geri ég ráð fyrir, að einhverjar þessar ráðstafanir verði framlengdar. Sýni það sig aftur á móti, að allt sé að færast í himnalag og ekki þörf á sérstökum ráðstöfunum, verða þær niður felldar. Þó munu sumar e. t. v. þykja svo gagnlegar í hvívetna, að full ástæða sé til að halda þeim á venjulegum tímum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta frv. að sinni. Það er tvímælalaust játað af öllum, sem hafa minnzt á atvinnuástandið í landinu, að það eru voðatímar framundan, ef ekki er eitthvað hafzt að. Till. þær, sem fram hafa komið um þetta efni frá stjórnarflokknum og Sjálfstæðisflokknum, eru vægast sagt svo smávægilegar, að ómögulegt er að hugsa sér, að þeir ætlist til varanlegrar lausnar á málinu.

Nú vildi ég mega segja það að lokum, að það verður prófsteinn á þá menn hér í hv. deild, sem talað hafa um þörf á ráðstöfunum vegna kreppunnar, og talað um vilja sinn til að bæta úr, — prófsteinn á heilindi þeirra í þessu máli, hvernig þeir taka þessu frv.

Ég vil þá gera að till. minni, að kosin verði sérstök nefnd til að athuga þetta frv. og aðrar till., sem fram kynnu að koma í sambandi við það vandræðaástand, sem sumpart er byrjað og sumpart færist yfir því nær sem dregur hausti og vetri.