20.07.1931
Efri deild: 5. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í C-deild Alþingistíðinda. (2359)

17. mál, lokunartími sölubúða

Flm. (Jón Baldvinsson):

Ég sé, að það hefir ekki nein áhrif á hv. dm., þótt menn séu stuttorðir. Þeir taka það ekki vel upp. Ég tel því rétt að skýra frv. nánar, þó að það hafi verið hér á ferðinni á þinginu í vetur. Með lögum frá 1917 var sett heimild fyrir bæjarstjórnir til að ákveða lokunartíma sölubúða, til þess að tryggja verzlunarmönnum styttri vinnutíma en áður hafði verið. Það var algengt að hafa búðir opnar frá því kl. 6 að morgni og til 12 að kvöldi. Þetta var þrældómur fyrir verzlunarfólk, en hér vantaði nauðsynlega löggjöf til þess að taka í taumana, því að verzlunarfólk hefir hingað til verið dauft og framtakslítið með að koma sínum málum í sæmilegt horf, og hefir því oft sætt ranglátri meðferð af hálfu kaupmanna. Síðar var borið fram frv. til l. á þingi 1924 og 1925, að láta þessi ákvæði einnig ná til vinnustofa, sérstaklega rakarastofa. Þetta frv., „rakarafrv.“, var samþ. á þingi 1928. En nú er enn þörf á viðbót við lögin frá 1917, til þess að tryggja sendisveinum styttri vinnutíma en nú er. Þeim er ætlað að vinna frá því að búðir eru opnaðar, þangað til búið er að senda vörur heim að kvöldi, og algengt er, að vinnutíma sendisveina er ekki lokið fyrr en kl. 1–2 að nóttu.

Hinn eiginlegi sendingatími vara byrjar ekki fyrr en eftir að búðum er lokað. Þetta er óhæfilega langur vinnutími. Og þessir piltar eru algerlega á valdi húsbænda sinna, svo að lítið þýðir fyrir þá að gera samtök sín á milli, því hætt er við, að erfitt yrði að framfylgja þessum kröfum. Það er því lagt hér fyrir, að bæjarstjórnum sé heimilt að setja samþykktir um takmörkun á vinnutíma sendisveina, og einnig að gera samþykktir um það, að útsending vara skuli hætta, þegar 1 stund vantar til þess að búðum verði lokað. Það er rætt um þetta í 1. gr. frv. nokkuð ýtarlega. En það mun verða erfitt að setja sérstök lög um þetta frá þinginu, öðruvísi en að bæjarstjórnir geti hver á sínum stað gert samþ. um þetta, eftir því sem bezt þykir henta á hverjum stað. — Ég vildi svo mælast til, að frv. yrði veitt fylgi til þess að ná gegnum þingið og sent til allshn. nú að umr. lokinni.