21.07.1931
Efri deild: 6. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í C-deild Alþingistíðinda. (2365)

20. mál, framfærslulög

Flm. (Jón Baldvinsson):

Þetta er algerð umbreyting á núv. fátækralögum. Þetta frv. kom hér í vetur og var þar nokkuð rætt við framsögu, svo að það má sjálfsagt draga úr umr. nú um þetta mál. Aðalbreyt., sem frv. fer fram á frá ákvæðum núv. fátækralaga, er sú, að landið sé allt eitt framfærsluhérað og að hver maður eigi framfærslu hjá dvalarsveit sinni. Með þessu er þá komið í veg fyrir sveitarflutninga og allt það stagl og deilur, sem verið hefir á milli sveitarstjórna út af framfærsluskyldunni.

Í þessu frv. eru ýtarleg ákvæði um það, hvernig jafna skuli niður kostnaði og hvernig skuli endurgreiða sveitarfélögum, sem of mikið hafa greitt. Stjórnarráðið hefir á hendi alla niðurjöfnun og innheimtu. Þetta er miklu einfaldara en það fyrirkomulag, sem nú er á þessu, og um það er ekki að villast, að þetta er réttlátara gagnvart þeim, sem þurfa að þiggja styrkinn. Það særir þá minna að fá styrkinn á þennan hátt, sem frv. gerir ráð fyrir, en eftir núv. lögum. Hitt er annað mál, hvort frv. tekur nægilegt tillit til þeirra útgjalda, sem hvert sveitarfélag leggur á sig til að firra menn því að þurfa að þiggja af almannafé, og ég gæti verið fús til að ganga inn á breyt. í því efni, t. d. viðvíkjandi framlagi bæjarfélags við dýrtíðarvinnu, sem gerð er í atvinnubótaskyni, og mætti sjálfsagt taka einnig tillit til þess, sem bæjar- og sveitarfélög hafa gert vegna íbúa sinna. Eftir því sem bæjar- og sveitarfélög leggja meira fram til að tryggja atvinnu íbúa sinna, eftir því ættu þau þá að hafa minni kostnað sem sveitarstyrk, en til þess væri, álít ég, rétt að taka tillit, þegar stjórnin jafnar niður. Þetta er ekki ennþá í frv., en ég álít, að það ætti þar að vera og auðvelt að koma því þar inn, sem talað er um niðurjöfnun framfærslukostnaðar.

Vil ég svo mælast til þess, að frv. verði vísað til allshn., þegar þessari umr. er lokið.