21.07.1931
Efri deild: 6. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í C-deild Alþingistíðinda. (2366)

20. mál, framfærslulög

Guðrún Lárusdóttir:

Þetta frv. er gamall kunningi. Það var borið fram á síðasta þingi. Um sama leyti bar ég fram frv., sem fór í svipaða átt, en var þó ekki jafnvíðtækt. Það miðaði að því að koma í veg fyrir fátækraflutning á gamalmennum, og að mestu leyti að stemma stigu fyrir fátærkraflutningi ekkna, að þær yrðu fluttar gegn vilja þeirra á sveit sína. Mér var þá gefið í skyn af hv. flm. þessa frv., að mitt frv. kæmi eins og fleygur inn í frv. hans, og gæti orðið töf fyrir málið eða komið í veg fyrir afnám fátækraflutnings, en hann vofir sem tvíeggjað sverð yfir höfðum fátæklinganna meðan heimild um hann er í lögum. Sízt af öllu vildi ég verða þessu máli til farartálma eða koma í veg fyrir það, að fátækraflutningur verði með lögum afnuminn. Ég vil því gefa skýringu á því, hvers vegna ég ber nú ekki fram frv. það, sem ég á síðasta þingi bar fram um þetta mál. Það er eingöngu vegna þess, að ég vil ekki undir neinum kringumstæðum, að það gæti komið til mála, að mitt frv. gæti á nokkurn hátt skaðað frv. það, sem hér er um að ræða og gengur óneitanlega miklu lengra. Þess vegna ætla ég að bíða og sjá, hvernig þessu frv. reiðir af, því að ég er fús til allrar samvinnu til að létta sveitarflutningi af. Ég vil því sjá, hvernig viðtökur þetta mál fær í nefnd þeirri, sem það fær til meðferðar, og ég vil óska og vona, að hún sjái sér fært að vinna með alúð og skilningi að þessu afarviðkvæma vandamáli þjóðarinnar í þarfir lítilmagnanna, sem eiga eftir að lifa undir þeim endurbættu lögum. Og ég treysti því, að þeir tímar komi, að Íslendingar afnemi allt, sem heitir nauðungarflutningur á fátæku fólki.

Aðalgrundvallaratriði þessa framfærslulagafrv. er það, að allt landið verði eitt framfærsluhérað, og tel ég það rétt. En þó að ef til vill verði ekki komizt alla leið nú með þetta mál, þar eð málið er afarvíðtækt og vandasamt, þá vona ég, að hv. flm. sé mér samdóma um það, að betra er að komast eitthvað áleiðis heldur en að komast hvergi. M. ö. o., þó að ekki verði nú hægt að afgreiða frv. á þann hátt, sem við æskjum þess, þá vona ég, að hv. flm. verði fús á að styðja það, að litla frv. mitt, sem vitanlega er miklu umfangsminna, en hlýtur þó að teljast réttarbót og hjálp fyrir gamalmenni og ekkjur, nái fram að ganga. Ég vona, að gömlu vinirnir mínir fái að sjá og heyra, að ég hefi ekki haft skoðanaskipti í málinu, þó ég beri frv. ekki fram aftur að þessu sinni. Ég hugsa mér aðeins að sjá, hvað setur, og hversu fer um frv., sem hér liggur fyrir, því að reiði því vel af, hefir og verið ráðin bót á því, sem ég ætlaði að lagfæra með frv. mínu.