11.08.1931
Efri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í C-deild Alþingistíðinda. (2376)

38. mál, vegalög

Frsm. (Jónas Jónsson):

N. hefir komizt að þeirri niðurstöðu, að allmargar af brtt. þeim, sem fyrir lágu, séu þess eðlis, að rétt sé að mæla með þeim. Aftur voru nokkrar, sem hún sá sér ekki fært að mæla með, en einstakir nm. hafa óbundnar hendur um atkvgr.

Í frv. eins og það er upphaflega borið fram af hv. þm. Snæf. var farið fram á, að áframhald Stykkishólmsvegarins, eða Snæfellsnesbraut frá vegamótum, austan Straumfjarðarár um Staðarsveit, Breiðuvík og Hellissand til Ólafsvíkur, og ennfremur Eyrarsveitarvegur frá Kerlingarskarði um Eyrarsveit til Ólafsvíkur, verði teknir í tölu þjóðvega. N. hefir komið sér saman um að mæla með fyrri till., en við þá síðari ætlar hún að gera brtt. þess efnis, að Eyrarsveitarvegur verði tekinn í þjóðvegatölu að Búlandshöfða, og svo bæta við nýjum lið, það er Skógarstrandarvegur frá Skildi í Helgafellssveit á Vesturlandsveg í Miðdölum.

Þá eru það brtt. hv. 4. landsk. um vegi í Borgarfirði. N. hefir orðið sammála um að mæla með þeim. Það er vegur frá Hvítárbrú vestan Hafnarf alls að Akranesi, og vegur frá Kljáfossbrú að Húsafelli. N. hefir lagt til, að við þennan síðasttalda veg yrði bætt dálitlum spotta, svo að hann næði að Kaldadalsbrautinni, og leggur því til, að niðurlagi till. verði breytt þannig, að þar standi: Hálsasveit um Húsafell að Kaldadal.

Þá flytjum við hv. 2. þm. Árn. brtt. um að tengja saman vegina til Þingvalla og Geysis og Gullfoss, með því að taka í þjóðvegatölu 13 km. vegarspotta um Laugardalinn. Þetta er í raun og veru þegar orðinn þjóðvegur, enda hefir orðið samkomulag í n. um að mæla með þessari brtt.

Þá eru nokkrar brtt. frá hv. þm. A.-Húnv. Um þær hafa einstakir nm. óbundnar hendur við atkvgr.

Þá hefir komið fram till. frá hv. 2. þm. N.-M. um að taka Jökuldalsveg í þjóðvegatölu. N. var hætt störfum þegar þessi till. kom fram, en ég geri ráð fyrir, að mönnum finnist þetta sanngirniskrafa. — Ég held ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um þetta nál., ef til vill gefa hv. flm. þessara brtt. viðbótarskýringar, ef þeim þurfa þykir.