11.08.1931
Efri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í C-deild Alþingistíðinda. (2378)

38. mál, vegalög

Guðmundur Ólafsson:

Ég vil aðeins segja örfá orð um þær brtt. við vegalögin, sem ég hefi borið fram. Það eru tveir stúfar í Austur-Húnavatnssýslu.

Annar kaflinn er frá Skagastrandarvegi út að Blönduósbryggju. Sá vegur var í þjóðvegatölu til 1924, þegar breyt. var gerð á vegalögunum. Þá féll hann út úr, eins og fleiri vegir, sem nú eru flestir komnir í þjóðvegatölu aftur, t. d. brautir í Borgarfirði og Eyjafirði og ef til vill víðar. Það þætti mér því hlutdrægt, ef þessi stutti kafli er eini vegurinn, sem fæst ekki tekinn inn í lögin aftur.

Það, sem sérstaklega gerir sýslunni erfitt að halda við þessum „bryggjuvegi“, sem kallaður er, er það, að vegarstæðið er ákaflega slæmt, framan í snarbröttum mel og rennur hann alltaf fram, enda segir vegamálastjóri nú, að réttara hefði verið að leggja veginn niðri í fjöru heldur en uppi í þessum bratta mel.

Ég tel víst, að hv. d. sýni þessu máli fulla sanngirni og fallist á að undanskilja ekki þennan stutta vegarspotta, þegar samsvarandi vegir hafa verið aftur teknir í tölu þjóðvega.

Hinn vegurinn er sýsluvegur, en eins og ég gat um, þegar brúarlögin voru til umr., er sjálfsagt, að hann verði innan stundar tekinn í þjóðvegatölu, þegar brú er komin á Blöndu í norðanverðum Blöndudal. Hann er allmiklu lengri en fyrri vegurinn, sem er um 700 m. á lengd, en hinsvegar liggur hann á miklu betra vegarstæði og því ekki erfitt að leggja hann og að halda honum við. Nokkur hluti vegarins er sæmilega góður yfirferðar. Sá kafli, sem er fyrir austan Blöndu, er nýlega byggður, svo að hann mun ekki hvíla þungt á ríkissjóði í nálægri framtíð, en á nokkrum parti þarf að leggja nýjan veg. Allur vegurinn, sem hér er farið fram á að tekinn sé í tölu þjóðvega, er um 8–9 km.

Strax þegar brúin kemur á Blöndu, eykst auðvitað mikið umferð um þennan veg. Og jafnvel þótt brúin sé ekki komin, er þar mikil umferð af langferðamönnum, þar sem svifferja er þar á ánni. Ef brúin kemst upp í náinni framtíð, munu allir þeir langferðamenn, sem ekki eiga beint erindi á Blönduós, fara þessa leið, því að hún er miklu styttri.

Ég vona, að hv. d. sjái ekki ástæðu til þess að fella þessar brtt., því að þessir vegir eiga við jafnmikla sanngirni að styðjast sem hinir vegirnir, sem hér eru fluttar till. um.