11.08.1931
Efri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í C-deild Alþingistíðinda. (2379)

38. mál, vegalög

Páll Hermannsson:

Á síðasta þingi flutti ríkisstj. frv. til l. um breyt. á vegalögunum. Það er þskj. 15 frá því þingi. Þess er getið þar í aths., að frv. sé samið af vegamálastjóra, að tilhlutun stj.

Nú á ég hér brtt. við frv. til l. um breyt. á vegalögum á þskj. 240 og það er stytzt af að segja, að þessi brtt. er ekkert annað en stjfrv. frá síðasta þingi. Í grg. fyrir því frv. var lýst nokkuð greinilega ástæðunni fyrir því, að frv. var þá flutt. og veit ég, að hv. þdm. eru því flestir kunnugir.

Þessi vegur frá Jökulsárbrú hjá Fossvöllum og Gilsárbrú er nálægt 33 km. á lengd, og gerir vegamálastjóri ráð fyrir því í grg., að það muni kosta allt að 100 þús. kr. að leggja þennan veg. Höfuðástæðan til þess, að þarna er farið fram á að taka inn í vegalögin nýjan veg er sú að það þykir sýnt, að vegakerfið á Austurlandi komist ekki í samband við vegakerfi landsins í heild öðruvísi en gegnum þessa leið. Þannig stendur á, að þegar Gilsárbrúnni sleppir, þá tekur við þjóðvegur — að vísu fjallvegur —, sem er þess eðlis, að tiltölulega er mjög ódýrt að gera hann bílfæran.

Þessi vegur, sem hér rærðir um, liggur eftir Jökuldalnum og kemur því mjög að haldi íbúum þeirrar sveitar, auk þess sem hann verður langferðamannavegur, sem tengir Austurland og hafnirnar þar við þjóðvegakerfið í heild.

Ég tel mig hafa fulla ástæðu til að búast við því, að hv. d. taki vel þessari brtt.; og með því góða samkomulagi, sem hefir verið í d. nú að undanförnu í sambandi við samgöngubætur á landi, og sem ég býst við, að verði einnig nú, þá efa ég ekki, að d. fallist á þessa brtt.