15.08.1931
Efri deild: 30. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í B-deild Alþingistíðinda. (238)

1. mál, fjárlög 1932

Halldór Steinsson:

Ég á 3 eða 4 brtt., sem ég vil minnast lítilsháttar á. Fyrst er brtt. á þskj. 297, við 13. gr. B. 2. (flóabátaferðir). Legg ég til, að styrkurinn verði hækkaður um 2000 kr. úr 91 þús. kr. upp í 93 þús. kr., með tilliti til Suðurlandsferðanna um Breiðafjörð. Samgmn. Nd. færði styrkinn niður um 3000 kr., með þeirri röksemd, að ferðum Suðurlands til Breiðafjarðar mætti fækka úr 10 niður í 6. Samgöngur eru þar sízt betri en annarsstaðar á landinu, og er þetta þó eini landshlutinn, þar sem farið er fram á, að lækkaður sé styrkur til samgangna á sjó. Annarsstaðar hefir verið farið fram á hækkun þeirra styrkja. En þessi till. fer aðeins fram á, að styrkurinn haldist samur og áður.

Þá er brtt. við 13. gr. C. VIII. á sama þskj., til bryggjugerða og lendingarbóta í Ólafsvík. Býst ég við, að þetta mál sé hv. dm. svo kunnugt, að ekki þurfi að skýra það nánar. Hefir á undanförnum 7 árum verið varið 90–100 þús. kr. bæði úr hreppssjóði og ríkissjóði til þessara hluta, og hefir hreppurinn, sem áður var fátækur mjög og hefir nú um 450 íbúa, safnað þvílíkum skuldum vegna hafnarbóta, að hann er nú að sligast undir þeim. Er því fyrirsjáanlegt, að hreppurinn getur ekki í bili lagt fram meira fé til hafnarbóta. En þar sem þegar er búið að verja til þess svo miklu fé, bæði úr hrepps- og ríkissjóði, væri það mjög óviturlegt að stöðva verkið, þegar lítið vantar á, að það sé fullgert og geti komið að notum. Er enginn vafi á því, að þessi mannvirki munu bera sig, þegar allt er komið í lag og útvegur getur þróazt þar, en ennþá er vitanlega ekki hægt að taka lendingar- eða hafnargjald af skipum, meðan garðurinn er ekki fullgerður. Því hefir verið borið við, að föst regla hefði verið, að Alþ. legði fram 1/3 til slíkra framkvæmda á móti 2/3 annarsstaðar að. Þetta er ekki allskostar rétt. Ríkið lagði upphaflega fram fé til hafnarbóta í Ólafsvík án nokkurs framlags annarsstaðar frá. Ríkissjóður hefir ennfremur á undanförnum árum sumstaðar lagt til helming gegn helming annarsstaðar frá, ennfremur stundum 2/5 gegn 3/5 annarsstaðar frá. M. ö. o. það hefir engin ríkjandi regla átt sér stað í þessu efni, enda er það í sjálfu sér fjarstæða, því að ástæðurnar eru svo afskaplega mismunandi á hinum ýmsu stöðum. Það er svo margt, sem verður að koma til greina. Fyrst og fremst, hvað þörfin er mikil. Í öðru lagi, hverra hagsmuna má vænta af þeim hafnarbótum, sem um er að ræða. Í þriðja lagi, hve góð og auðug fiskimiðin eru fyrir landi á slíkum stöðum, og hvernig hagur hreppsins er. Og margar fleiri ástæður koma til greina, þegar um slíkar fjárveitingar er að ræða. Hugsum okkur lítið þorp með 50–100 manns og auðug fiskimið rétt við landssteina, sem ekki yrðu notuð sökum slæmrar lendingar. Væri þá nokkur hagsýni af fjárveitingavaldinu að koma í veg fyrir, að þarna gætu t. d. 3 þús. manns lifað, með því að leggja ekki fé til hafnarbóta, ef hreppurinn er ófær að standa einn straum af þeim? Þetta er svo einfalt mál, að það þarf ekki frekari skýringa við.

Þá er 13. brtt., við 13. gr., C X, til bryggjugerða og lendingarbóta, að upphæðin hækki úr 42500 upp í 46000 kr. Ætlazt er til, að upphæðin fari til hafnarbóta við Arnarstapa. Eins og kunnugt er, má svo heita, að hafnlaust sé með öllu að norðanverðu við Faxaflóa frá því að Borgarnesi sleppir. Má telja, að bezta höfn á þessu svæði sé að Arnarstapa, enda hefir risið þar upp dálítið þorp, og þar er verzlun fyrir tvo nágrannahreppa. Þarna hefir verið útvegur um langan aldur og oft fiskazt ágætlega. Venjulega er ekki róið nema á vorin og sumrin. En úr sjósókninni hefir það mjög dregið, hve lendingin er slæm, sérstaklega í suðaustan- og austanátt.

Nú hefir vitamálastjóri látið rannsaka þetta og gera uppdrátt af væntanlegum lendingarbótum og kostnaðaráætlun. Samkv. þessum rannsóknum þarf ekki nema tiltölulega mjög litla upphæð til að gera þarna ágæta lendingu og gott uppsátur, eða um 10–11 þús. kr. Í samræmi við þetta fer ég fram á 1/3 kostnaðar gegn 2/3 frá viðkomandi hrepp.

Þá kem ég að síðustu brtt., við 18. gr. II. í. 61, til Jóns Runólfssonar sýsluskrifara, 600 kr. Þessi maður byrjaði fyrst sem sýsluskrifari á Eskifirði árið 1874, vann þar síðan óslitið að heita mátti sem sýsluskrifari með 4 sýslumönnum. Fluttist svo vestur á Snæfellsnes fyrir h. u. b. 20 árum og hefir verið sýsluskrifari síðan, fram að síðustu áramótum. Hefir því verið sýsluskrifari samfleytt í yfir 50 ár. Hann er tæplega 82 ára gamall, orðinn útslitinn og farinn að heilsu. Hinsvegar hafa laun hans við þessi störf ekki verið svo há, að hann hafi getað safnað sér ellistyrks, og stendur því uppi ráðþrota í ellinni og á einskis annars úrkosta en leita á náðir sveitarinnar. Ég treysti nú fastlega, að hv. d. þyki ekki ósanngjarnt að veita þessum háaldraða starfsmanni nokkurn styrk. Hér er ekki verið að binda stóran útgjaldabagga, enda ræður af líkum, að fremur skammt muni að bíða, að honum verði aftur af létt, þar sem svo háaldraður maður á í hlut.

Þá hefi ég lokið máli mínu um minar brtt. En nokkur orð vil ég segja áður en ég sezt um þá brtt., sem n. flytur við 17. gr. fjárl., styrk til Elínar Sigurðardóttur. Viðvíkjandi þeirri till. hefi ég fengið nýjar upplýsingar, sem valda því, að ég vil mælast til, að n. taki þessa brtt. aftur til 3. umr. Sjái n. sér það ekki fært, get ég ekki heldur skoðað afstöðu mína í n. bindandi í þessu máli.

Ég get frætt hv. 2. landsk. um það, þar sem hann kvaðst ekki hafa heyrt hv. frsm. minnast á 25. gr. og ályktaði þess vegna, að n. væri öll sammála, — að n. mun ekki með öllu sammála um þá gr. Vona ég, að hv. þm. geri sig ánægðan með að bíða þangað til að atkvgr. kemur.