17.08.1931
Neðri deild: 31. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í C-deild Alþingistíðinda. (2402)

38. mál, vegalög

Sveinn Ólafsson:

Ég minnist þess ekki, að það hafi mætt slíkri mótspyrnu áður hér í þinginu, að þýðingarmiklum málum væri vísað til n., eins og raun hefir á orðið í dag um þetta mál. Hér er um að ræða róttækar breytingar á vegalögunum, sem snerta svo að segja eingöngu þrjú kjördæmi. Öll önnur héruð landsins hafa þar orðið útundan, og fæ ég þó ekki séð, að meiri ástæða sé til að auka við þjóðvegina í þessum þrem kjördæmum en annarsstaðar, nema síður sé, enda er víst, að tvö af þessum héruðum hafa miklu fullkomnara veganet nú þegar en nokkurt annað hérað á landi hér. — Ég skal engu um það spá, hvort málið kunni að daga uppi í n. eða ekki, en ég vil taka undir það með hv. þm. Borgf., að það er fullkomin ástæða til þess, að málið komi til álita fleiri þm. en þeirra eingöngu, sem sæti eiga í hv. Ed. Skv. þingsköpum er og heimilt að vísa máli til n. engu síður við 2. en 1. umr., svo að þetta ætti að geta fram farið nú, enda þótt það færist fyrir við 1. umr., af því að þeir voru ekki viðstaddir, sem einkum höfðu ástæðu til að minna á þetta.

Hinsvegar lít ég fyrir mitt leyti svo á, að ekki sé stór skaði skeður, þótt svo færi, að málið dagaði uppi á þessu þingi, enda getur hæglega fyrir komið, að það verði fellt við þessa umr., ef það verður knúð undir atkv. eins og nú horfir, og væri málinu ekki meiri greiði með því gerður en þó að til þess kæmi, að það væri látið daga uppi.