20.08.1931
Neðri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í C-deild Alþingistíðinda. (2416)

38. mál, vegalög

Sveinn Ólafsson:

Ég tek mér ekki nærri þær aðdróttanir, sem hv. þm. Borgf. beindi til samgmn. um afgreiðslu þessa máls. Mér finnast þær samt harðla ómaklegar, þar sem n. hefir alls ekki gengið á móti málinu. En málið er þannig flutt og undirbúið, að með öllu er óumflýjanlegt að bæta um búning þess. Það segir sig sjálft, að þegar gerbreyta á vegalögunum, eins og gert er með þessu frv., þá verður að taka tillit til landsheildarinnar. Engri átt getur náð að taka 3–4 sýslur út úr og miða allar umbætur við þær, eins og frv. gerir, og því ósanngjarnlegra er það, sem frv. þetta, eins og það kom frá Ed., ætlar því nær alla vegaaukninguna þeim sýslum, sem langmestar vegabætur hafa áður hlotið.

Alveg er það órannsakað mál, hve miklu nema þeir vegakaflar, sem frv. ætlar Árnes-, Borgarfjarðar- og Snæfellsnessýslu; þó hefir vegamálastjóri áætlað veginn frá Ólafsvík fyrir Snæfellsnes 400 þús. kr. virði. Má með hliðsjón af þeirri áætlun gera ráð fyrir 2–3 millj. kr. til þeirrar vegagerðar, sem frv. ætlar þessum þrem sýslum landsins aukalega og án þess að aðrir landshlutar komi til greina eða þarfir þeirra til vega.

Nú eru samstundis komnar fram allvíðtækar brtt. við frv., sem að líkindum eiga engu minni rétt á sér en frv. sjálft. Um þær brtt. hefir ekkert álit fengizt, en að sjálfsögðu þurfa þær að fá fyllri athugun áður en frv. verður afgr., en afgreiðsla þess í óbreyttum búningi væri hrein óhæfa. Málið hefir að þessu sinni verið tekið úr höndum nefndarinnar og sett á dagskrá áður en n. hafði fengið tveggja nátta frest til athugunar á því og framkomnum brtt. Þrátt fyrir mikið annríki hefir meiri hl. n. þó lokið við álit sitt og afhent það til prentunar, og sætir það mikilli furðu, ef nú á að knýja málið fram í trássi við n. og án þess að álit hennar sé tekið til umr. Einn nm. hefir að vísu skorizt úr leik, en þó hefir nál. frá hans hendi ekki komið ennþá. Ég verð því að halda fast við þá ósk, sem nú þegar er fram komin, að málið verði tekið af dagskrá. Málið getur fengið þinglega meðferð, þegar nál. liggur fyrir, og það ætti hæglega að geta orðið á morgun.