20.08.1931
Neðri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í C-deild Alþingistíðinda. (2425)

38. mál, vegalög

Bergur Jónsson:

Ég vildi benda hv. þm. G.-K. á það, að engin ástæða er til þess að vera að ásaka dm. um ósamræmi viðvíkjandi afgreiðslu tóbakseinkasölunnar og svo aftur þessa máls. Tóbakseinkasölumálið kom alls ekki til atkv. hér í d., því að forsetaúrskurður féll um það, að málið skyldi tekið fyrir. Þetta er einhver misskilningur hjá hv. þm. G.-K.; ég veit ekki til þess, að neinn hv. þdm. hafi greitt atkv. um það, hvort þetta mál skyldi tekið á dagskrá eða ekki. Hinsvegar lét þessi hv. þm. og flokksbræður hans álit sitt á málinu á ýmsan hátt í ljós og skýrði frá því, hvaða afstöðu ýmsir hv. þm. hefðu tekið til þessa máls í gær. Að öllu leyti er hér ólíku saman að jafna. Tóbakseinkasölumálið var búið að liggja fyrir mörgum undanförnum þingum, og kemur nú hingað frá Ed. og úr n. þaðan, og engin brtt. kom fram við það hér í d. Aftur á móti kom hinn mesti fjöldi brtt. við vegalögin, og virðist þegar af þeim sökum full ástæða til þess að athuga málið til hlítar.

Ég legg ekkert sérstakt kapp á það, að þetta mál verði ekki rætt hér í dag. Það, sem mér finnst vera aðalatriðið, er það, að þingið afgr. ekki málið eins flausturslega og við er að búast, þegar fjöldi þdm. kemur hér með brtt. við lögin um hina og þessa vegi í kjördæmum þeirra, og dm. hafa alls enga aðstöðu til þess að greiða atkv. um jafnórannsakað mál. Sjálfsagða lausnin á málinu á þessu þingi er sú, að vísa því til stj., eða láta það þá bíða nánari rannsóknar.