20.08.1931
Neðri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í C-deild Alþingistíðinda. (2428)

38. mál, vegalög

Sveinbjörn Högnason:

Hv. þm. G.-K er orðinn kunnur að því að hafa allmikið álit á sjálfum sér. (ÓTh: Já, miklu meira en á þessum hv. þm., sem nú er að tala). Og hann sýnir það enn, er hann þykist geta lesið allan hug manna án þess að hafa annað fyrir sér en orð þeirra um önnur efni en um er deilt. Hann vildi færa rök fyrir því hve mikið ósamræmi væri hjá mér í atkvgr. Ég hygg, að til margra hv. þm. mætti með réttu beina slíkum orðum, en það situr áreiðanlega ekki á hv. þm. G.-K. að gera það. Ég ætlaði í raun og veru að hlífa honum við því að benda á það ósamræmi, sem komið hefir fram hjá honum við atkvgr. hér í d., ef hann væri ekki endilega að fiska eftir því hvað eftir annað. (Forseti: Ég vil biðja hv. þm. að blanda ekki allt of óskyldum málum inn í umr). Það má geta þess, að hv. þm. G.-K. hefir í sömu atkvgr. fyrst sagt já og síðan nei við sama málinu, t. d. við LR. Hann skrifaði undir nál. um fjáraukalögin og lagði þar með til, að þau væru samþ., en við atkv.-gr. greiddi hann atkv. á móti frv. (MG: Það er óþarfi að vera að lesa upp Tímann hérna). Margt mundi nú hv. þm. geta tekið sér óþarfara fyrir.