20.08.1931
Neðri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í C-deild Alþingistíðinda. (2432)

38. mál, vegalög

Pétur Ottesen:

Það kom í ljós hjá hv. 1. þm. S.-M., að þar skín í úlfinn undir sauðargærunni (Forseti hringir), þegar hann heldur því fram, að ég hafi viljað koma fram þessu frv. eins og það nú er, en fella allar till. deildarmanna, því hann segir, að á annan hátt verði ekki hægt að afgreiða málið.

Ég skal segja, hvað ég meinti með því, að það skini í úlfinn undir sauðargærunni. Með því að afgreiða þetta mál hér í dag er hægt að afgreiða það á morgun til Ed. með afbrigðum frá þingsköpum, og þar gæti það orðið að lögum á laugardaginn. Það væri því hægt að koma þessu máli fram nú í þinglokin og samþ. það af brtt. einstakra þm., er þingið getur fallizt á. Það er heldur engin undantekning frá þeirri reglu, sem gilt hefir um afgreiðslu mála almennt nú á síðustu dögum þingsins, þó þetta mál yrði afgr. með afbrigðum frá þingsköpum. Svo hefir það verið um flest þau mál, sem nú er verið að ljúka við að afgreiða. En í stað þessa vill þessi hv. þm. taka málið af dagskrá og vísa því til stj., þangað sem fátt kemur lifandi aftur.

Ég óska nafnakalls, til þess að geta séð, hverjir verða til þess að drepa sitt eigið fóstur.