23.07.1931
Efri deild: 8. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í C-deild Alþingistíðinda. (2443)

42. mál, verðfesting pappírsgjaldeyris

Flm. (Jón Þorláksson):

Frv. þetta flutti ég ásamt hv. fyrrv. 1. þm. G.-K. á síðasta þingi, og var þá fyrst til umr. hér í þessari hv. þd. Ég gerði þá grein fyrir þeim meginatriðum, sem eru þess valdandi, að ég eftir atvikum öllum aðhyllist þessa úrlausn gengismálsins eins og nú er komið. Mér þykir ekki þörf á að endurtaka það, sem ég þá sagði, en skal aðeins taka það fram, að allar þær ástæður, sem ég bar þá fram fyrir þessu máli, eru ennþá óbreyttar, og þeir viðburðir, sem í þessu efni hafa gerzt, hafa haldið áfram að staðfesta það, að nauðsyn er að binda enda á þetta mál um gildi íslenzks gjaldeyris, og svo líka það, að það er sérstök ástæða til þess að varast sérstaklega þá úrlausn málsins, sem mundi veikja traustið á gjaldeyri landsins í framtíðinni nokkuð fram yfir það, sem ýtrasta nauðsyn krefur.

Við höfum séð það nú upp á síðkastið, að jafnvel eitt af stórveldum álfunnar hefir komizt í bráða hættu með gjaldeyri sinn, jafnvel þó að hann væri tryggður með gullinnlausn og löggjöf á allan þann hátt, sem fullnægir nútímakröfum, og ekki séð fyrir endann á því ennþá, hvort þessi hætta endi með hruni þessa gjaldeyris eða ekki. Ég á hér auðvitað við gjaldeyri þýzka ríkisins.

En þetta, sem þar hefir gerzt, á að vera öðrum aðvörun, að láta aldrei ímyndaða stundarhagsmuni leiða sig út á þá braut, sem getur spillt til langframa trausti á, að sú þjóð hafi getu og vilja til þess að halda föstum sínum myntlögum og gjaldeyriseiningu.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til fjhn.umr. lokinni.