15.08.1931
Efri deild: 30. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

1. mál, fjárlög 1932

Jakob Möller:

Ég hefi ekki mikið að segja að þessu sinni. Hv. frsm. fjvn. hafði góð orð um flestar af till. mínum, og kann ég honum og hv. n. þakkir fyrir það. En ég held, að ég taki aftur til 3. umr. brtt. nr. X á þskj. 283. Ég er ekki viss um, að n. hafi gert sér grein fyrir því, hvernig ástatt er með þennan sjúkling. Það er rétt hjá hv. frsm., að styrkurinn var upprunalega færður á annan hátt en nú er gert ráð fyrir í frv. Þá var styrkurinn miðaður við, að þessi kona dveldi ekki á sjúkrahúsi. En þótt hún félli tæplega undir berklavarnalögin, hafði hún samt dvalið langdvölum á hælinu og notið framfærslu ríkissjóðs. Tilgangurinn með þessari till. var ekki annar en sá, að gera henni mögulegt að dvelja annarsstaðar en á hælinu, án þess þó að ríkissjóður borgaði meira til hennar en hann gerir nú. Ég geri fastlega ráð fyrir, ef þessi styrkur fæst ekki, að konan haldi áfram að vera á sjúkrahúsinu, því að ástand hennar er svoleiðis, að hún verður að dvelja þar sem hún getur fengið góða hjúkrun. Hún verður því eftir sem áður á framfærslu ríkissjóðs, hvort sem hún fær þennan styrk eða ekki. Ég benti á, hvernig hefir staðið sérstaklega á um þennan sjúkling og að henni hefir verið veitur þessi styrkur, af því að hún var áður í þjónustu ríkisins. Ég geri ráð fyrir, að n. taki till. aftur til 3. umr. og athugi hana nánar þangað til.

Út af umr. um till. á þskj. 297 hefi ég lítið að segja. Maður hlustar á þessi dómsorð n., sem hljóða ýmist þannig, að n. sé óbundin um atkvgr. um till., eða að hún sé till. mótfallin, annað fær maður ekki. Við því er í sjálfu sér ekkert að segja. Það gerir náttúrlega það að verkum, að maður hefir ekki miklu að svara, þegar ekki eru færðar neinar ástæður til þess, að n. sé mótfallin till. Það gleður mig, að það eru óbundin atkv. um einstakar af þessum till. mínum, en mér finnst, að n. hefði getað fallizt á að mæla með styrknum til Upplýsingaskrifstofu stúdentaráðsins, þar sem ekki getur verið nokkur vafi á, að það er þarft starf, sem þessi skrifstofa hefir með höndum, eins og ég benti á í fyrri ræðu minni, en sem kemur miklu ljósara fram í þeirri skýrslu, sem hún leggur fram og var útbýtt hér í dag. Um styrkinn til námsmanna var hljóðið heldur kalt. Ég geri ráð fyrir, að það stafi af því, að n. vill halda fast við þessa settu reglu um það, hvernig eigi að styrkja stúdenta til náms erlendis, að það sé ákveðin tala og þar út fyrir megi ekki fara. En mér finnst fara vel á því, að þingið líti á ástæður í þeim tilfellum, er stúdentar sækja um styrk, af því að þeir fá þá ekki hjá menntamálaráðinu, því náttúrlega er það ekki óskeikult frekar en önnur völd, sem um slíka hluti geta ráðið. Mér fyndist fara vel á því, að n. gerði grein fyrir því, hvers vegna hún getur ekki fallizt á að styrkja stúdenta til þess að nema sérfræði í háskólum, til þess að gera mönnum kleift að fá fullkomna menntun innanlands síðar í þeim fræðum. — Eins er það með Valgarð Thoroddsen, sem hefir notið styrks frá þinginu frá því hann byrjaði nám erlendis. Hvers vegna á að taka styrkinn af honum nú, þegar hann er rétt að ljúka við nám? Hann fékk ekki lögmæltan styrk í upphafi, þegar hann fór út, en þingið féllst á að veita honum styrk og tók í raun og veru þar með á sig að veita honum styrk þar til hann hefði lokið námi.

Um styrkinn til tónlistarskólans minnir mig, að hv. frsm. hafi sagt, að nm. væru óbundnir við atkvgr., og það er náttúrlega gott, það sem það nær.

Til áréttingar því, sem ég sagði um þetta í fyrri ræðu minni, vil ég bæta því við, að hér er nú komið útvarp, sem þarf á slíkri aðstoð að halda, og það varðar miklu fyrir þau not, sem landsmenn geta haft af útvarpinu, að hljómlist þaðan sé sem fullkomnust, og hvaða ráð er til þess, nema að stofna til sem beztrar kennslu í hljómlist hér heima og hægt er? Og eins er það, að nú er verið að byggja þjóðleikhús, þá þarf líka á hljómlist að halda. Eins er það með veitingahúsin hér. Þau verða að fá hljómsveitir frá öðrum löndum, í staðinn fyrir að gera þetta að atvinnugrein fyrir landsmenn sjálfa, sem er auðvelt með því að styrkja skólann til þess að búa til efnivið í slíka hljómsveit. Ég vænti þess, að hv. dm. átti sig á þessari till. svo vel áður en atkvgr. fer fram, að þeir geti léð henni fylgi.