24.07.1931
Efri deild: 9. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í C-deild Alþingistíðinda. (2459)

44. mál, virkjun Efra-Sogsins

Flm. (Jón Þorláksson):

Hv. 1. þm. Reykv. hefir nú tekið fram ýmislegt af því, sem ég þurfti að segja viðvíkjandi því, sem kom fram um þennan orðróm í síðari ræðu hv. 2. þm. Eyf., og ég skal reyna að endurtaka sem fæst.

Hv. 2. þm. Eyf. lét í ljós, að það væri ekki venjulegt í öðrum löndum, að heimiluð væri ríkisábyrgð til vatnavirkjunar slíkrar sem þessarar. Hann sagði, að í öðrum löndum yrðu þeir sjálfir að sjá sér fyrir fénu, sem vildu virkja, og vildi bera brigður á ummæli mín hér í gær um það, hverjar kröfur væru gerðar til þeirra, sem þar virkja vatnsföll, af þeim, sem leggja fyrirtækjunum fé. Ég staðhæfði ekki, að það væri venjulegt að heimta ríkisábyrgð af þeim, sem fást við vatnavirkjun í öðrum löndum. Ég mun hafa orðað það svo, að þeir, sem við vatnavirkjun fengjust, myndu leggja áherzlu á að tryggja sér vingjarnlegt hlutleysi ríkisstj. í sínu landi gagnvart fyrirtækinu. Hér stendur nú svo á, að það er bæjarfélag, sem fer fram á að fá féð og virkjar þetta vatnsfall. Og nú er það öllum vitanlegt, að þar sem sveitarfélag á í hlut, því er það háð afskiptum ríkisvaldsins, og að löggjafarvaldið gerir sér nokkru dælla við sveitarfélög en við einstaka menn. Það er því ekki nema eðlilegt, að lánveitendur vilji í þessu tilfelli sérstaklega leggja áherzlu á að tryggja sér vingjarnlegt hlutleysi ríkisvaldsins gagnvart fyrirtækinu. Og sú leið, sem hér er farin til að tryggja þetta vingjarnlega hlutleysi, er að fá ríkisábyrgð fyrir láni til fyrirtækisins. Hitt efast ég ekki um, að sú leið, sem hæstv. forsrh. benti á, að setja sérleyfislög og láta Reykjavík hafa sérleyfi til að virkja Sogið, myndi tryggja þetta nokkuð, þó þau myndu sjálfsagt ekki tryggja fyrirtækið til fulls móti ríkisvaldinu. En afstaða bæjarfélags til ríkisins er sú, að það verður ekki litið svo á, að bæjarfélagið hafi sálfstæðan rétt. Það mun verða að líta svo á, að ríkið hafi meiri íhlutunarrétt um fyrirtæki bæjar- og sveitarfélaga en um fyrirtæki einstaklinganna. Og útlendingar munu vilja tryggja sig fyrst og fremst og það fyrirtæki, sem þeir leggja fé í, gagnvart því, að það vald verði misnotað.

Ég get ekki annað en verið ánægður með svar hv. 2. þm. Eyf. við þeirri fyrirspurn minni, hvort nokkur bakmál hefðu verið við samningana um ríkislánið, sem tekið var í London í nóvember 1930, sem hindruðu ríkisstj. í því að ganga í ábyrgðir fyrir hönd ríkissjóðs. Ég hefði nú helzt kosið, að hv. þm. hefði getað sagt hreint nei við þessu; en þótt hann gerði það nú ekki, þá útlistaði hann þetta þó svo rækilega, að ég verð að trúa því, að þar hafi engin bakmál verið. Hann rakti tildrögin til þess orðróms, sem verið hefir á sveimi um þetta, til þess, að einn af bankastjórum Landsbankans hafði fengið bréf frá einum mikilsmetnum enskum fjármálamanni, bréf, sem hv. 2. þm. Eyf. hafði nú reyndar ekki séð, en viðkomandi bankastjóri skýrði honum frá efni þess. Það er nú svo sem auðvitað, í hvaða tilgangi það bréf er ritað. Hv. 2. þm. Eyf. sagði, að fjármálamaðurinn varaði við, að ríkið væri látið ganga í ábyrgðir, ef ekki væri vitað, hvar ætti að taka lánið. Ég skil, að hér muni tala maður, sem hefir gert það að atvinnu sinni að veita fé að láni til ríkisstjórna og bæjarstjórna, og þá líklega helzt á Norðurlöndum sérstaklega. Hann er náttúrlega að rækja sína atvinnu með því að setja svona ummæli í kunningjabréf til eins af bankastjórunum við aðalbanka landsins. Hann vill náttúrlega komast að að veita lánið, og þá er bæði þægilegt og æskilegt að vita, hvar á að taka lánið.

Þá vildi hv. þm. halda því fram, að ef ríkið gengi í ábyrgð, þá hlyti hún að rýra lánstraust landsins sem því svaraði. Ég get nú fallizt á, að það mundi rýra lánstraust hvers einstaklings, ef hann gengi í miklar ábyrgðir. En þessi regla er nú samt ekki algild. Hér er með skyldum að skipta, og meira gert að forminu til, þegar ríkið gengur í ábyrgð að láni fyrir Reykjavíkurbæ, láni, sem á að verða til nota ekki aðeins fyrir bæinn, heldur einnig umhverfi hans og ýms önnur mannflestu héruð þessa lands. Hér kemur auk þess tvennt annað til greina. Annað er það, að þessi ábyrgð er gersamlega áhættulaus, þar sem féð á að leggja í álitlegt fyrirtæki, sem byrjar með mjög álitlegum stofni, þar sem er rafmagnsveita Rvíkur, sem leggur til stöðina við Elliðaárnar. Það þarf ekki nema rétta út litlafingur til að fá menn, sem vilja taka málið að sér, ef þeir mega hirða arðinn af því. Þeir sjá allir, að þetta verður mjög arðvænlegt fyrirtæki. Það er ekki hægt, að kalla það lánstraustsspjöll, þó maður gangi í ábyrgð fyrir fyrirtæki, sem er svo vel stætt og svo arðvænlegt sem hér er um að ræða, og þegar þess er gætt, að það er landið, sem nýtur arðsins af því.

Ég hefi oft gengið í ábyrgð, og ég segi það aðeins, að ég hefi bæði efnazt á því og aukið lánstraust mitt á því að ganga í ábyrgð fyrir fyrirtæki, sem ég sjálfur hefi verið meðeigandi í og voru arðvænleg, þannig að mér féll nokkur hluti arðsins. Ég var eignalaus maður, þegar ég fór úr landsins þjónustu og byrjaði upp á mínar eigin spýtur. Ég get ekki annað fundið en að lánstraust aukist fyrir hvern mann, sem gengur í ábyrgð fyrir arðvænleg fyrirtæki, sem þannig er skipað, að arðurinn fellur honum sjálfum að einhverju leyti. Arðurinn af þessu fyrirtæki tilfellur landinu sjálfu, eykur gjaldþol og bætir efnahag þess. Ég er þess vegna algerlega ósammála hv. 2. þm. Eyf. um það, að ábyrgð eins og þessi rýri lánstraust eða efnahag landsins. Ég álít alveg þvert á móti. Hitt er náttúrlega rétt, sem hv. þm. segir, að þau mannvirki, sem hér er farið fram á að verða að stuðningi með ríkisábyrgð, þau taka eingöngu til Rvíkur, eftir því sem það er orðað í frv. Fyrir þessar allt að 7 millj. kr. verður raforku ekki veitt til annara umdæma en Rvíkur. En við það er þó það að athuga, að þó ekki sé veitt alla leið til annara umdæma, þá er þó með þessu mannvirki nægilega mikil raforka komin í þann námunda við mörg mannflestu héruðin, að ekki er nema tiltölulega lítill hluti eftir af þeim heildarkostnaði, sem þarf til að fullnægja raforkuþörfum þeirra. Ég er ekki hræddur við að stíga þetta spor. Ég treysti því, að löggjafarvaldið hafi á hverjum tíma vitsmuni til þess að setja takmarkanir fyrir ábyrgðum, að það gangi í ábyrgð fyrir það eitt, sem er fjárhagslega heilbrigt. Ef þess er aðeins gætt, þá verða aldrei nein lánstraustsspjöll af þessari ábyrgð. Þá verður niðurstaðan aðeins sú, þegar þessi gæði eru komin í notkun hjá landsmönnum og farin að gefa þann arð, sem þau munu gefa, þegar landsmenn eiga þess kost að nota sér þau, að þetta yrði hætt fjárhagsskilyrði í landinu, bæði fyrir landbúnaðinn, sjávarútveginn og iðnaðinn og alla atvinnuvegi landsins, og landið yrði betur stætt en áður.