15.08.1931
Efri deild: 30. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

1. mál, fjárlög 1932

Bjarni Snæbjörnsson [óyfirl.]:

Eins og hv. frsm. gat um, var meiri hl. n. á þeirri skoðun, að tekjur og gjöld væru ekki það hátt áætluð í frv. því, sem kom frá Nd., að ekki mætti við það bæta, en samt sem áður voru ekki allir hv. nm. á þeirri skoðun, voru bjartsýnari, einkanlega hvað tekjuáætlanir áhrærði. Ég segi fyrir mig, að ég mun greiða atkv. með þeim hæsta útgjaldalið í þessum brtt., sem er frá hv. 2. landsk., um framlag til nýs vegar eða umbóta á gamla veginum milli Hafnarfj. og Rvíkur. Það gætti dálítillar andúðar frá hv. frsm. til þessa vegar. Ég þóttist hafa gert rækilega grein fyrir því, hver nauðsyn væri á honum og ætla ekki að endurtaka það nú. Jafnframt ætla ég að geta þess, að ég hafði ákveðið að bera fram till. um fjárveitingu, sem fer í svipaða átt, en hafði ákveðið að bera hana ekki fram fyrr en við 3. umr., og þá um leið að bera fram brtt., sem hækkar tekjuhliðina, þar sem ég álít það forsvaranlegt. Jafnframt vildi ég biðja forseta að taka út liði III og XIV, sem ég ætla ennfremur að bera fram við 3. umr. Þá kem ég að þeirri brtt., sem ég og hv. 1. þm. Reykv. erum saman um, til Stórstúkunnar. Ég vænti fastlega, að hún verði samþ. í d., þar sem meiri hl. fjvn. er henni samþ.

Svo kem ég að brtt. XXI, þar sem ég fer fram á, að bókasafni Hafnarfj. verði veittur styrkur. N. er þar óbundin við atkvgr. En ég vænti þess fastlega, að hv. dm. sjái, hvílík nauðsyn er fyrir okkur að fá þetta, bæði til að efla andlega menningu og bæta siðferðislegt og andlegt líf. Og þar sem þess er gætt, að það er ekki mikið, sem farið er fram á að veita til Hafnarfj., en hann er drjúg tekjulind fyrir ríkissjóð, þá vænti ég fastlega, að hv. dm. geti samþ. þessa till.