24.07.1931
Efri deild: 9. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í C-deild Alþingistíðinda. (2461)

44. mál, virkjun Efra-Sogsins

Halldór Steinsson:

Það er aðeins örstutt aths., sem ég ætla að koma með. Hv. 2. þm. Eyf. segir, að menn verði að gera sér ljóst, að ef þessi ábyrgð væri tekin, þá myndu aðrir koma á eftir og heimta nýja ábyrgð. Ég þykist vita, að þeir, sem eru hlynntir þessu máli, geri sér fyllilega ljóst, að ekki sé búið þó ábyrgð þessi sé veitt fyrir Rvík. Það ganga allir út frá því sem sjálfsögðu, að um leið og suðvesturhluta landsins er gefinn kostur á að verða aðnjótandi raforku frá Rvík, þá liggi í hlutarins eðli, að þau héruð búast við að eiga von á styrk til slíkra framkvæmda síðar meir. Þess vegna finnst mér einkennilegt, þegar það kemur fram sem aðalástæða bæði frá hv. 2. þm. Eyf. og hv. 5. landsk. gegn þessari ábyrgð, að það muni koma aðrar beiðnir á eftir um svipaðar ábyrgðir. Mér finnst þeir með því sýna, að þeir hafi mjög litla trú á þessu máli. Það má eins segja, að þegar fyrst var farið að leggja síma hér á landi, þá hafi flestir gert ráð fyrir, að menn létu sér ekki nægja eina símalagningu. t. d. frá Seyðisfirði til Rvíkur, og þegar fyrst var ráðizt í að leggja þjóðvegi, þá hafa menn gert ráð fyrir, að ekki yrði látið við sitja að leggja einn þjóðveg, heldur mundu fleiri koma á eftir. Eins er um þetta mál. Og þar sem það verður að teljast heilbrigt og nauðsynlegt fyrir sveitir að fá ljós og hita, þá verður að ganga út frá því sem vísu, að ekki verði hægt að komast hjá fyrir ríkissjóð að leggja fram stuðning til þessa máls. Þess vegna finnst mér, að það ætti betur við, að þeir hv. þm., sem eru að mæla á móti þessu frv., lýstu hreint og beint yfir því, að þeir hefðu ótrú á því, að sveitir fengju ljós og hita, heldur en að koma með slíkar mótbárur, að ríkið hafi ekki efni á að koma þessu í framkvæmd.