15.08.1931
Efri deild: 30. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í B-deild Alþingistíðinda. (247)

1. mál, fjárlög 1932

Jón Baldvinsson:

Hv. frsm. sagði, að n. væri á móti till. minni um að ákveða borðfé konungs samkv. ísl. lögum, og það væri af því, að vitleysan væri búin að standa svo lengi í fjárl., að n. kynni ekki við að breyta því. (JakM: Það er komin hefð á það). Ég skil ekkert í þessu, því mér finnst n. ekkert hika við að fella úr fjárl. ýmislegt, sem hefir staðið þar lengi, og heldur ekki vera með því að taka í fjárl. ýmsa pósta, sem áður hafa staðið þar árum saman. Ég man eftir einni till., sem stóð lengi í fjárl., styrk til Guðbr. Jónssonar. Hann var lengi í fjárlagafrv. stj. og var samþ. ár eftir ár. Eftir þessari reglu ætti n. að segja, að hún vildi ekki fella niður þennan styrk, af því að hann væri búinn að standa svo lengi.

Ég veit nú ekki, hvort ég kem að öllum þessum till., en ég býst við að víkja eitthvað að þeim flestum, og skal ég taka næst styrkinn til Jónasar Sveinssonar. N. sagðist ekki vita, hvernig efnahagur hans væri. Það má vel vera, að hann sé ekki neitt sérlega illa stæður maður. En það liggur í augum uppi, að sá maður, sem tekur sér tveggja ára frí frá starfi, hlýtur að þurfa mikla peninga, og ríkið hefir venjulega stutt embættismenn sína í viðleitni þeirra að afla sér þekkingar, sem kemur þjóðinni að notum. Annars held ég, að það liggi erindi frá þessum manni í fjvn., og í því eru sjálfsagt allar upplýsingar, sem nauðsynlegar eru. Það lítur út fyrir, að n. hafi skotizt yfir að lesa það, a. m. k. vissi hv. frsm. ekkert um það.

Hv. frsm. sagði, að n. væri á móti Fjarðarheiðarveginum og sagðist ekki vita, hvort hann gerði nokkurt gagn. Það má segja um alla vegi, að maður viti ekki í upphafi, hvaða gagn þeir muni gera, en þeir eru lagðir af því að menn ætla, að þeir muni gera gagn. Þarna liggur vegurinn milli kauptúna og blómlegra sveitahéraða, og vissulega er talið gagn af slíkum vegum. Það var talað um að veita til hans 20 þús. kr., og málið var svo undir búið, að vegamálastjóri hafði látið rannsaka vegarstæðið. Hv. frsm. játaði það, að ruddur vegur mundi ekki koma að eins miklu gagni og upphleyptur vegur, vegna þess, hve stuttan tíma árs væri hægt að nota hann vegna snjóa. Ég sé ekki, að ástæður hv. frsm. mæli neitt á móti þessari till., heldur þvert á móti. Þær sýna aðeins, að n. hefir enga ástæðu fram að bera.

Um byggingu nýs vegar milli Hafnarfjarðar og Rvíkur voru rökin svipuð hjá hv. frsm. Hann sagði, að það væri ekki nein aðkallandi þörf að leggja þennan veg, og það getur vel verið, að það sé út af fyrir sig ekki aðkallandi í ár til þess að bæta samgöngurnar. En það stendur svo á í landinu, eins og öllum hv. þm. er kunnugt, að það er nauðsynlegt að framkvæma einhver stórfelld mannvirki, sem margir menn geta komizt í vinnu við, og þá er ekkert hentugra, sem hægt er að gera en einmitt bygging slíks vegar, þó hann sé kannske ekki nauðsynlegur nú í ár. Samgöngurnar eru greiðar þarna, segir hv. frsm. Já, það má náttúrlega segja það, samanborið við aðra hluta landsins. En það fer eftir því, hvar samanburðurinn er tekinn. Ef maður tekur til samanburðar Laugaveginn og Hverfisgötuna, þá er þetta ekki góður vegur. Þetta er eini vegurinn, sem liggur milli þessara mannmörgu bæja, sem hafa mikla þörf fyrir góðar samgöngur. Það er ekki búið að rannsaka þetta, segir hv. frsm. En það liggur í till. heimild til að gera eitt af tvennu, sem vegamálastjóri leggur til. Hann hefir sent þinginu erindi, sem ég ætla, að hafi verið hjá fjvn., og þar segist hann ekki vera kominn að fastri niðurstöðu, hvort eigi að byggja nýjan veg eða endurhyggja þann gamla. Hv. frsm. gat þess réttilega, að þetta væri atvinnubótamál. Ég lýsti því líka í fyrri ræðu minni, að þetta væri hvorttveggja í senn, gagnlegt verk og atvinnubætur. Og þegar hægt væri að láta það fara saman, þá ætti ekki að láta þetta tækifæri sleppa, og betra væri fyrir stj. að fá heimild til að gera slíka hluti heldur en að gera slíkt utan fjárl. og allra sízt, ef sú till. félli, þá mundi stj. síður fara að ráðast í það. En þegar nú er búið að sýna fram á, að þetta verk er forsvaranlegt og nauðsynlegt og þörf er fyrir vinnu, þá skil ég ekki, hvers vegna stjórnarfl. vill leggja á móti þessu, því mér skilst mótstaðan aðallega koma frá honum.

Hv. frsm. skaut því fram í ræðu sinni, að ekki væri víst, að það væru allt nauðsynlegar ferðir, sem farnar væru milli Rvíkur og Hafnarfj. Það eru lagðir vegir um allt land, þó að maður viti, að ferðir, sem um þá eru farnar, séu ekki allar nauðsynlegar. Eins er með Hafnarfjarðarveginn. Það er sjálfsagt eitthvað af óþarfaferðum um hann, en ég sé ekki, að þær séu ástæður á móti þessu. Það er bara út í hött. Hv. frsm. sagði að lokum, að málið væri ekki nógu undirbúið og af því að það væri atvinnubótamál, væri rétt að finna eitthvað út á meðan verið væri að rannsaka þetta mál. Hann stakk upp á því, að menn væru látnir moka snjó uppi á Langjökli. Það átti náttúrlega að vera gaman þetta hjá hv. frsm. En það var grátt gaman, grátt gaman við það fólk, sem hann ætlar að senda upp á Langjökul til að moka snjó, og grátt gaman við þá stj., sem hann styður, því að mér þykir sennilegt, eftir þeim undirtektum undir þessa og aðrar till., sem eiga að vera til styrktar landsmönnum og því ástandi, sem nú er, að að því kæmi, að stj. þurfi að grípa til örþrifaráða, einhvers, sem líkist því að moka snjó uppi á Langjökli. Þetta er úrræðaleysið, sem einkennir stj., þegar út í vandræðin er komið. Þeir vilja ekki búa sig undir að mæta erfiðleikaástandinu, þeir tala um þessa ógurlegu kreppu og verðfall á afurðum bænda og sjávarútvegsmanna. En þeir vilja ekkert gera til að mæta kreppunni. Þess vegna finnst mér kuldalegar undirtektir fjvn. og stj. undir þessa till.

Það er rétt hjá hv. frsm., að það liggja ekki fyrir áætlanir um uppfyllingu á bátahöfninni á Sandi. En mér er kunnugt um, að þess er mikil þörf, og ég lýsti því dálítið í ræðu minni í dag, hve mikil þörf er á þessari uppfyllingu, svo að menn geti haft aðstöðu til þess að geta gert sér góða vöru úr fiskinum, sem fluttur er á land, en það er ekki hægt undir því ástandi, sem nú er. En hitt þarf ég ekki að minna á, sem allir hv. dm. vita, að þetta er eitt af fiskisælustu plássum landsins, þar sem tiltölulega mestur afli kemur á land.

Hv. frsm. lýsti yfir því, að n. væri öll á móti því að hækka styrkinn til stúdenta. Það er eitthvað annað en með konunginn. Þeim er ætlað, öllum saman, að komast af með þessar 24 þús. á ári, þótt öllum sé kunnugt, er þeir verða annaðhvort að lifa á lánsfé, lifa sultarlífi, eða fljóta á styrk fátækra foreldra og ættingja. Hér er þó ekki hægt að bera því við, að fé sé ekki til, meðan þingið getur séð af 12–13 þús. kr. til eins manns, sem á ekki lagalegan rétt á þeirri upphæð. Það, sem ég nú hefi sagt, er einnig nægilegur rökstuðningur fyrir brtt. minni um námsstyrk til Kr. Guðm. Guðmundssonar, sem ég flyt hér á sama þskj. En þó má geta þess hér, að þessum manni hefir verið gefið undir fótinn með framhaldsstyrk, þar sem honum hefir verið veittur styrkur af menntamálaráðinu. En eigi að sleppa hendinni af fátækum námsmönnum eftir að þeim hefir verið veittur slíkur styrkur einu sinni, er verr af stað farið en heima setið. Styrkveitingin er þá aðeins til, að ginna menn út á námsbrautina og ef til vill til að gereyðileggja fyrir þeim aðra möguleika í lífsbaráttunni. Þessi maður, sem hér um ræðir, er duglegur og reglusamur, að vísu nokkuð fullorðinn eftir því sem gerist um námsmenn, en lauk skólanámi sínu á óvenju stuttum tíma og hefir hin beztu meðmæli frá kennurum sínum í stærðfræðideild. Sú fræðigrein, sem hann leggur fyrir sig, er þörf og stunduð af fáum, enda hefir menntamálaráðið viðurkennt það með veitingu styrksins.

Meiri hl. fjvn. hefir lýst sig andstæðan styrk til bókasafns í Hafnarfirði og borið því við, að bókasafnið þar væri ekki amtsbókasafn. Sagði hv. frsm., að öðru máli væri að gegna um amtsbókasöfnin á Akureyri og Ísafirði. Það er nú að vísu stórt orð Hákot. En þótt þessi bókasöfn beri nú þetta veglega heiti, er það þó á allra vitorði, að þau eru notuð næstum eingöngu af íbúum bæjanna, sem þau eru i, en ekki af héruðunum í kring. Svo er þess að gæta, að bókasafnið á Ísafirði heitir alls ekki amtsbókasafn, heldur ber bókasafnið í Stykkishólmi það heiti. Þetta sýnir m. a., hve djúpt n. hefir lagzt við athugun sína á málinu. Því stendur alveg eins á um þetta bókasafn eins og söfnin Akureyri og Ísafirði. Hafnfirðingar eiga hér sama rétt og íbúar hinna kaupstaðanna, svo að þessi mótbára er einskis virði.

Þá hefir hv. frsm. lýst yfir því, að n. sé öll mótfallin styrknum til dr. Guðbrands Jónssonar. Ég minntist þess í fyrri ræðu minni, að maður þessi hefði verið í fjárl. mörg undanfarin ár. Fræðimenn telja dr. Guðbrand einhvern hinn lærðasta mann í sinni grein. Auk þess á Guðbrandur Jónsson talsverðan rétt á því, að hið opinbera styrki hann til starfa, þegar þess er gætt, að hann hefir verið svikinn um starf, sem honum var ætlað í Landsskjalasafninu. Nú á að svíkja hann aftur með því að kippa af honum þeim styrk, sem hann hefir notið árum saman. Þetta getur kallazt að bæta gráu ofan á svart, þótt ég láti mér ekki detta í hug, að meiri hl. hv. d. fylgi fjvn. að því verki að fella till. mína.

Hæstv. forseti hóf ræðu sína á því að gera gys að meðmælum með opinberum styrkjum. Sjálfur flytur hann þó till. um styrk handa ungum manni til að fullkomna sig í málaralist. Ég er ekki að segja hæstv. forseta það til lasts, að hann flytur þessa till, en þetta sýnir, hve lítt menn líta í eiginn barm í þessum efnum.

Þá flytur hæstv. forseti einnig brtt. um styrk til fiskiræktarfél. Blöndu. Ég get þessa eigi af því að ég sé að hafa á móti þessari fjárveitingu, enda veit ég, að forseti hefir nægilegt atkvæðamagn til að fá hana samþ. hvort sem er, heldur af því, að ég vil vekja athygli á því, að sú starfsemi, sem till. snertir, hefir víða komið að gagni. Ég skal geta þess sem dæmis, að fyrir nokkru fengu bændur við EystriRangá laxaseiði frá Alviðru í Ölfusi. Í sumar hefir orðið vart við lax í Rangá, og er það talið víst, að þar sé um uppfæðing að ræða, því að lax hefir ekki fengizt þar í manna minnum. Til þess að stofninn endurnýi sig sjálfur, þarf auðvitað að flytja seiði í ána á ári hverju, til að byrja með a. m. k. Félagsskap, sem vinnur í þessu skyni, er því hin fyllsta ástæða til að styrkja. En ég vil benda á, að líklegt er, að fjárveiting í þessu efni geti orðið með tímanum talsverður útgjaldaliður, því að bændur munu víða ganga inn á þessa braut, og tel ég það vel farið.

Hv. frsm. tjáði, að fjvn. væri andstæð a- og b-lið XXX. brtt. og 2. lið hennar einnig. Mótbáran gegn a-lið byggist á því, að hér væri sjómannastofa fyrir, og væri því ekki ástæða til fjárveitingarinnar. Það er rétt, að sjómannastofa hefir starfað hér undanfarið, og þótt ég sé ekkert að setja út á þá stofnun, þori ég að fullyrða, að flestir séu mér sammála um, að hún sé ófullnægjandi. Þarf eigi heldur að efa, að aðsóknin yrði stórum meiri, ef Sjómannafél. hefði rekstur slíkrar stofu með höndum en ella. Nú hagar svo til, að sjómenn af öllu landinu þyrpast hingað á veturna hundruðum og þúsundum saman. En á sumrin flykkjast sjómennirnir norður. Starfsemi sjómannastofunnar myndi því verða hagað þannig, ef Sjómannafél. hefði hana með höndum, að stofan væri rekin norðanlands á sumrin.

Um ráðningarstofuna tók ég það fram, að hún ætti að vera atvinnurekendum til leiðbeiningar til að afla sér verkafólks og væri einkum miðað við það kreppuástand, sem nú er í atvinnulífinu. En þessi tilraun til að bæta úr ástandinu virðist sæta álíka hlýlegum viðtökum hjá n. og aðrar tillögur, er í svipaða átt ganga, fá yfirleitt hjá þinginu í sumar.

Þá leggur n. einnig á móti ræktunarvegi á Sauðárkróki. Ber hún því við, að engin gögn liggi fyrir um veg þennan, og skal ég játa, að nokkuð er hæft í því, þótt fljótlegt muni verða að útvega þau. Hv. frsm. sagði ennfremur, að Sauðkræklingar töpuðu á því að leggja fram 2/3 til vegarins, þar sem þetta yrði ella sýsluvegur. En tilætlun þorpsbúa er að fá veg þennan til að hagnýta sér ræktað og ræktanlegt land og mótak, sem liggur í nokkurri fjarlægð. Erfitt er að leggja veginn og kostnaðarsamt, og auk Þess þarf að vanda betur til hans en almennt er gert um sýsluvegi. Fjárveiting þessi er fyllilega hliðstæð fjárveitingu til ræktunarvegar í Vestmannaeyjum, sem nú er í fjárl. gegn 2/3 frá héraðinu. Sú mótbára hv. frsm., að með fjárveitingu sem þessari væru brotnar allar venjulegar reglur, hefir því ekki við rök að styðjast.

Mér kom það fremur undarlega fyrir að heyra, að n. legði á móti styrknum til Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Mér datt satt að segja ekki annað í hug en að n. myndi leggja einróma með þeirri till. Eins og hv. meðflm. minn að þessari till. tók fram, er þetta kona, sem allra kvenna mest hér á landi hefir lagt á sig til að vinna að réttindabótum kvenna, og komið meiru áleiðis í þeim efnum en nokkur annar. Það er því óhætt að fullyrða, að allar konur landsins, og þá um leið meira en helmingur kjósenda, ann henni þessa styrks. Hve mikið gott sem segja má um ungfrú Halldóru Bjarnadóttur, og ég vil á engan hátt draga úr þeim lofsamlegu ummælum, sem hér hafa fallið um hana, er þó ekki sambærilegt starf hennar við æfistarf frú Bríetar. Ég hélt, að þessi fjárveiting ætti því meira fylgi að hrósa hér í þessari hv. d. sem hér er þriðjungur deildarmanna Húnvetningar eins og frú Bríet, og mætti því ætla, að þeir kynnu að meta það við hana, hvern sóma hún hefir gert héraði þeirra.

Þá hefir einnig verið lagt á móti hækkun á eftirlaunum Valgerðar Steinsen. Ég skírskota í því efni til fyrri ræðu minnar og legg það mál undir drengskap hv. þdm.

Hv. frsm. hafði á móti peningastyrk til atvinnulausra manna. Var aðalmótbáran sú, að styrkurinn kæmi ekki réttlátlega niður. Slíkt má víst segja um allt í þessum heimi og jafnvel ráðstafanir hv. fjvn. sjálfrar, þótt hún hafi reynt að fara eftir beztu vitund. Annars mun stj. geta fengið þær leiðbeiningar um úthlutun slíks styrks, sem ættu að geta hindrað, að mikil brögð yrðu að því, að hann lenti hjá óverðugum, þótt ég fortaki ekki, að slíkt geti komið fyrir. Auk þess hlýtur að vera betra, að einn óverðugur njóti góðs af en margir þurfandi liði.

Svo kemur gamla mótbáran við öllum slíkum till. okkar jafnaðarmanna, að við höfum ekki séð fyrir tekjum á móti. En hverjir eru það, sem hafa tekið að sér að sjá fyrir tekjunum? Það hafa „stóru“ flokkarnir, stjórnarflokkurinn og Íhaldsflokkurinn tekið að sér. Það er því ekkert annað en fáránleg firra að vera að spyrja, hvers vegna við sjáum ekki fyrir tekjum. Hinir flokkarnir vilja ekki fara að okkar ráðum um öflun teknanna. Við getum aðeins bent á leiðirnar, og það höfum við gert.

Ég hefi þegar sýnt fram á, að nauðsynlegt er, að stj. hafi þá heimild, sem felst í till. minni, þótt ég hefði miklu fremur kosið, að vandamál hinna nauðstöddu manna hefðu verið leyst með atvinnubótum. En það ástand er í aðsigi og jafnvel þegar ríkjandi, að ráðstafanir sem þessar eru nauðsynlegar til að forða fólki frá hungurdauða.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að umr. þeim, sem hér hafa orðið um bók þá, sem venjulega er nefnd „Verkin tala“. Mér fannst hv. 4. landsk. taka mjög skynsamlega í till. hv. 1. landsk., er hann lét svo um mælt, að hann væri andstæður till., þar sem hann treysti ekki stj. til að nota heimildina á heiðarlegan hátt. En er hann lýsti yfir þeirri skoðun sinni, að tölurnar í bókinni væru „yfirleitt“ réttar, ætla ég, að honum hafi skjöplast töluvert. Ég hefi að vísu aðeins hlaðað lítið eitt í þessu mikla riti, en þó nægilega til að sjá, að laust er við, að allar tölur í ritinu séu réttar. Á bls. 184 eru fimm línur um Ísafjarðarkaupstað og er sú klausa svo merkileg, að mér þykir rétt, að hún birtist í heild í Alþt., ásamt leiðréttingu frá forráðamönnum kaupstaðarins, sem þeir hafa gefið út styrklaust. Klausan er svohlj.:

„Árið 1928 stofnaði bæjarfélagið kúabú og tók land til ræktunar á Tungudal og Seljalandi. Ríkið lagði fram sérstaka fjárveitingu til framræslu á landinu, 10 þús. kr. Bærinn á nú fullræktað land um 14 ha. og allmikið land í ræktun. Kúabúið er með nýtízku útbúnaði og ber sig vel. Ísfirðingar (aðallega bæjarfélagið) hafa unnið á síðustu 3 árum 7265 dagsverk og hlotið fyrir það 6300 kr. styrk“.

Athugasemdirnir eru á þessa leið: „Hér við er þetta að athuga:

Kúabúið var stofnað 1927. Ríkið lagði ekki til þess einn eyri.

Bærinn á fullræktaða aðeins 8 ha. og annað eins í ræktun.

Kúabúið gat ekki heitið með nýtízkuútbúnaði þegar þetta var skrifað, því að mjaltavélar vantaði, þó þær séu nú nýlega komnar.

Það er ofmælt, að búið hafi borið sig vel, þó að það lafi í að hafa verið rekið hallalaust frá byrjun og hafi farið þar fram úr öllum v onum og að sýnt sé, að er ræktunin eykst, er það líklegt til að gefa góðan arð, auk hins, sem æfinlega hefir verið aðalatriðið: hinn ómetanlegi óbeini hagnaður.

Dagsverkatala búsins um áramót, sem styrkur er fenginn út á, er 5723 og jarðabótastyrkurinn er kr. 3932,52“.

Niðurstaðan verður þá þessi: Í þessum fimm línum eru fimm tölur og allar vitlausar og sumar mjög fjarri sanni. Auk þess er ýmislegt ofmælt í sjálfu lesmálinu. Hvað skyldi þá vera um tölurnar „yfirleitt“?

Það er ekki að furða, þótt þyrfti að gefa út leiðréttingar við þetta rit, en ég hygg, að þessar 5000 kr. dugi ekki, heldur yrðu leiðréttingarnar að vera talsvert lengri heldur en ritið sjálft. Það hefir kostað a. m. k. 20–30 þús. kr., og veitti ekki af að veita 50 þús. kr. til leiðréttinganna. Ég gerði þetta einungis út af því, að hv. 4. landsk. var í svo góðri trú um tölurnar í þessari bók og hélt, að þær væru réttar. (PM: Ég hefi látið sannfærast).

Hv. 3. landsk. reyndi að þvo sig af ummælum, sem hann hafði í d. fyrir nokkru, og hélt því fram, að ég hefði misskilið hann. En ég skildi hann alveg rétt. Hann heimtar af stj., að hún gefi út slíkar skýrslur á hverju kjörtímabili og áréttaði það í ræðu sinni í dag. Hann sagði, að vel gæti verið rétt, að forstöðumenn hinna einstöku stofnana semdu skýrslurnar. En hverju breytir það? Vitanlega engu, því að það er stj., sem hefir framkvæmdirnar, og hún leggur fyrir forstöðumennina, frá hverju þeir eigi að segja.

Hv. 3. landsk. er að heimta nýja útgáfu af „Verkin tala“, þegar búið er að sýna fram á, að féð til útgáfunnar er tekið í heimildarleysi, og að bókin er svo hlutdræg, að ef ekki er einstakt um Ísafjörð, þá má af því marka, að margar tölurnar eru ekki réttar.

Það er því ekki undarlegt, þótt stjórnarflokkurinn verði ákafur í að samþ. till. hv. 1. landsk. um að gefa út nýtt rit, þar sem tækifæri er til að „leiðrétta“ fyrra ritið, eins og stj. telur rétt, sem auðvitað verður árétting á vitleysunum, sem fyrir eru.