24.07.1931
Efri deild: 9. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í C-deild Alþingistíðinda. (2471)

67. mál, vegur milli Hafnarfjarðar og Suðurlandsbrautar

Jón Baldvinsson:

Það er ekki furða, þó að hv. l. landsk. sé státinn af velgengni flokks síns. Hv. þm. hefir staðið sig það vel síðustu árin, að hann getur verið hreykinn af. — Ef rakin er saga þessa hv. þm., sést hvernig hið pólitíska líf hans hefir gengið í bylgjum. 1908 er hann eldheitur framfaramaður og skammar íhaldið blóðugum skömmum, en forlögin eru svo hláleg, að það liggur einmitt fyrir honum að stofna hér íhaldsflokk og berjast fyrir þeim „hugsjónum“, sem slíkur flokkur hefir fram að færa og hv. þm. hefir sjálfur lýst eftirminnilegast í hinni nafnkunnu Lögréttugrein sinni frá 1908. Það er því ekki furða, þó að þessi hv. þm. sé upp með sér. Slíkur lífsferill liggur ekki fyrir hverjum dauðlegum manni.

Hv. 1. landsk. var nú með sögulegar upplýsingar, sem hann rétti að mér, en skeikaði þar, sem oft áður, því að þótt þessi hv. þm. sé ljós í máli og setji skipulega fram það, sem fyrir honum vakir, hrynur það oftast um sjálft sig, af því að grundvöllurinn er venjulegast í ótraustara lagi. Hv. þm. var að fræða mig um það, að hugmyndin að þessari vegarlagningu milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur væri eldri en Alþýðuflokkurinn. Ef hv. 1. landsk. heldur, að Alþýðuflokkurinn hafi ekki verið til orðinn 1917, þá mætti fá mig til að trúa, að tollmörk væru komin á skynfæri hv. þm. En látum það nú vera, þó að þessi hugmynd sé eldri en frá 1917, en það kemur þá bara í bága við það, sem flokksbróðir þm., hv. þm. Hafnf., heldur fram, því að hann eignar sér þessa hugmynd og heldur fast á þeim eignarrétti. Af því hinsvegar að Alþýðublaðið kom fram með þessa till. á laugardaginn var, en frv. var ekki útbýtt fyrr en mánudaginn, lét ég það eftir mér að segja nokkur spaugsyrði við hv. þm. Hafnf. í þá átt, að hann hefði nú fengið þessa hugmynd sína úr Alþýðublaðinu. En hv. þm. Hafnf. vill alls ekki við þetta kannast og vitnar til flokksbræðra sinna máli sínu til sönnunar. Hinsvegar er ekki örgrannt um það, að hv. þm. Hafnf. hafi haft óljóst hugboð um það, að höfundarréttur hans yrði ekki tekinn gildur, því að hann virðist hafa búið flokksbræður sína undir væntanlega vitnaleiðslu í málinu. Má það af líkum ráða, að hann hafi kallað þá fyrir sig og sagt eitthvað á þessa leið: „Lítið þið á klukkuna, piltar. Ég er að skrifa frv., ef einhver skyldi koma og rengja það“.

Þá hélt hv. 1. landsk. því fram, að ég hefði sagt rangt frá afstöðu Íhaldsflokksins til Sogsmálsins. Það vita þó allir, enda hægt að skjalfesta það, að Íhaldið var á móti málinu, þangað til það snerist í því eftir bæjarstjórnarkosningarnar 1930. Þó að virkjunin væri boðin út 1929, var vitanlegt, að meiri hl. bæjarstj. vildi málið feigt. Hv. 1. þm. Reykv. hefir og játað hér, að borgarstjórinn hafi alltaf verið á móti málinu, en það er á hvers manns vitorði, að borgarstjórinn réði einn öllu í bæjarstj., þangað til núv. 1. og 2. þm. Reykv. tóku þar sæti og hófu andstöðu gegn honum innan íhaldsins. Hv. 1. landsk. er vel kunnugt um það, þó að hann láti öðruvísi, að flokkur hans í bæjarstj. tafði fyrir Sogsmálinu eins og hann gat, og þetta hefir orðið til þess, að nú verður að byggja viðbót við Elliðaárstöðina vegna fjandskapar Framsóknarflokksins við málið á þinginu í vetur og drátt á málinu í bæjarstj. Reykjavíkur, sem íhaldinu er að kenna.

Ég get glatt hv. 1. landsk. með því, að Alþýðuflokkurinn á fleiri mál í skúffunni, sem við vonum, að flokkur hans sjái sér fært að taka upp smátt og smátt, eins og hann hefir gert undanfarið. Ég sé líka, að félag hinna ungu íhaldsmanna hefir séð sér vænlegast að taka upp í stefnuskrá sína ekki svo fá stefnuskrárákvæði Alþýðuflokksins frá 1916. Dreg ég þá ályktun af þessu, að flokkur okkar hafi skapað þessum málum svo mikið fylgi með þjóðinni, að íhaldsmenn muni ekki sjá sér fært að standa á móti þeim lengur — álíti það ekki hentugt lengur. Ekkert þeirra mála, sem íhaldsmenn eru þannig smátt og smátt að ganga inn á hjá okkur jafnaðarmönnum, snertir að vísu aðalboðskap okkar, socialismann sjálfan, heldur eru þetta mál, sem hver frjálslyndur flokkur getur fallizt á. Og íhaldsmenn hafa látið kúgast svona í hverju málinu á fætur öðru, af því að þeir hafa ekki þorað að standa lengur móti, vegna fylgis þjóðarinnar við þeirra gömlu fjandskaparmál. Þannig snerust íhaldsmenn ekki með 21 árs kosningarrétti, fyrr en ungu mennirnir í flokknum heimtuðu það af þeim gömlu — þessum með ellimörkin. Og það er vitanlegt, að Kristján Albertson var látinn fara frá Verði vegna þess misræmis, sem var á milli stjórnar Íhaldsflokksins þá og þessa manns, sem vann sér það til óhelgi að skrifa öðruvísi í kjördæmaskipunarmálinu en flokknum gott þótti. Hv. 1. landsk. vildi að vísu í fyrstu mótmæla því, að þessi ritstjóri Íhaldsflokksins hefði fengið ofanígjöf fyrir skrif sín í kjördæmaskipunarmálinu, en játaði í sömu andránni, að miðstjórn flokksins hefði birt yfirlýsingu þess efnis, að þessi grein eftir ritstjóra flokksins, sem birt var sem broddgrein í höfuðmálgagni hans, væri ekki skrifuð eftir umboði flokksstjórnarinnar. Ef þetta er ekki ofanígjöf, veit ég ekki, hvað á að kalla því nafni. En nú verður hv. 1. landsk. að játa, að hann sé kominn á skoðun Kristjáns Albertsonar í þessu máli. Þegar Íhaldsflokkurinn sá, að það var orðið hagsmunamál fyrir hann að taka upp þessa skoðun ritstjórana, þá var hann ekki lengi að snúa við og ganga frá sínum fyrri skoðununum.