24.07.1931
Efri deild: 9. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í C-deild Alþingistíðinda. (2472)

67. mál, vegur milli Hafnarfjarðar og Suðurlandsbrautar

Jakob Möller:

Þó að umr. þær, sem nú hafa farið fram um hríð, séu máli því algerlega óviðkomandi, sem hér er á dagskrá, þá verð ég samt að segja örfá orð til þess að leiðrétta frásögn hv. 2. landsk. um aðstöðu sjálfstæðismanna til Sogsmálsins. Sogið var boðið út til virkjunar árið 1929, en til þess þurfti auðvitað undanfarandi samþykkt bæjarstj. Rvíkur. Má af þessu sjá, að það er alrang hjá hv. 2. landsk., að meiri hl. bæjarstj. hafi verið andvígur virkjun Sogsins fram til kosninganna 1930. Og ég vil líka benda á það, að við þær kosningar voru nokkrir menn í kjöri af hálfu Sjálfstæðisflokksins, sem ekki höfðu átt sæti áður í bæjarstjórn, og meðal þeirra menn, sem einmitt voru kunnir af baráttu sinni fyrir virkjun Sogsins og voru þess vegna settir á listann. Þetta sýnir það líka, að meiri hl. bæjarstj. var með virkjun fyrir kosningar alveg eins og eftir þær.

Annars er óþarfi að vera að ræða um þessi mál, en ég skal aðeins geta þess, að ég skil aðstöðu hv. 2. landsk. ósköp vel. Alþýðuflokkurinn er búinn að hlaupa frá öllum sínum aðalstefnumálum, og reynir svo að halda sér uppi með því að berjast fyrir ýmsum málum, sem ekkert koma socialismanum við, en flokkurinn telur líkleg til þess að afla sér vinsælda. Síðan gætir hann þessara mála eins og varðhundur og ætlar alveg af göflunum að ganga, ef einhverjir aðrir verða til þess að ljá málum þessum fylgi.

Annars hefi ég aldrei heyrt það fyrr en nú hjá hv. 2. landsk., að Hafnarfjarðarvegur hefði verið pólitískt mál. Það var byrjað á honum árið 1917. (JónasJ: Framsókn byrjaði á honum!). Þá var hér ópólitísk stj., mynduð af öllum stærstu flokkunum, og voru því þarna allir flokkar að verki. Síðan hefir málið legið niðri. Man ég alls ekki eftir því, að Alþýðuflokkurinn hafi rætt málið síðan eða barizt fyrir því, heldur er það nú tekið upp að nýju af hv. þ.m. Hafnf. sem hagsmunamál kjördæmisins. Og svo kemur hv. 2. landsk. og upplýsir, að málið sé geymt meðal leyndarskjala Alþýðuflokksins og sé þess vegna rænt frá honum.