24.07.1931
Efri deild: 9. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í C-deild Alþingistíðinda. (2474)

67. mál, vegur milli Hafnarfjarðar og Suðurlandsbrautar

Jakob Möller:

Það vita allir, að Alþýðuflokksmenn hafa hlaupið frá stefnu sinni, enda er því sífellt núið þeim um nasir af fyrrv. flokksbræðrum sínum, kommúnistum, en þeir halda sér ennþá við stefnu sína, eins og kunnugt er, en hinir hafa yfirgefið hana. Í stað þess að byggja á ofbeldiskenningum Marx-stefnunnar eru þeir nú lýðræðismenn: sem tína saman ýms mál annara flokka, sem þeir halda, að geti aflað þeim vinsælda meðal almennings. Maður er alveg hættur að sjá upphrópanir eins og: „Yfirráðin til alþýðunnar!“ o. s. frv. í Alþýðublaðinu.

Hvað viðvíkur þeim ásökunum hv. 2. landsk., að ég hafi skipt um skoðun, þá vil ég aðeins svara honum því, að ég var sjálfstæðismaður, þegar ég fyrst fór að skipta mér af stjórnmálum, og ég er það enn.