01.08.1931
Efri deild: 18. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í C-deild Alþingistíðinda. (2477)

143. mál, bæjarstjóri í Neskaupstað

Flm. (Ingvar Pálmason):

Ég get að mestu látið sitja við þá ýtarlegu grg., sem fylgir frv., en vil þó árétta hana nokkuð.

Fyrir flutningi þessa frv. eru tvær ástæður, og báðar skyldar. Í fyrsta lagi hefir reynslan sýnt, að störf þess manns, sem nú er bæjarfógeti og bæjarstjóri í Nesi, eru svo mikil, að hann getur ekki annað þeim sem skyldi. Hann telur sem eðlilegt er, að störf hana sem embættismanns ríkisins verði að ganga fyrir stjórn bæjarmálanna. Bæjarstjórn varð þegar á fyrsta ári að setja bæjargjaldkera, til að létta af honum þeim bæjarmálunum, sem eru tímafrekust. En samkv. lögum á maður þessi að vera formaður bæjarstjórnar og flestra nefnda og hafa jafnframt með höndum aðalframkvæmdir bæjarins og eftirlit í kaupstaðnum. Slíkt er heldur ekki hægt að ætlast til, að ólaunaður bæjarfulltrúi taki að sér. Þess má og geta, að innheimtur til ríkissjóðs taka mikinn tíma í Neskaupstað. Skipakomur eru miklar, svo miklar, að óhætt er að fullyrða, að þangað hafi komið 200–300 skip á ári síðustu tvö árin. Þessum skipakomum fylgir mikill starfi, sem hvílir á bæjarfógeta sem embættismanni ríkisins. Meðan bærinn hafði lögregluþjón, létti hann nokkuð undir með bæjarfógeta, þar sem hann annaðist innheimtu tolla og gjalda. En á fyrsta ári sá bæjarstjórnin sér ekki annað fært en leggja lögregluþjónsembættið niður vegna kostnaðar við bæjarmálin, þótt illt þætti. Síðustu tvö ár hefir bæjarfógetinn haft 80–90 réttarhöld árlega. Auk þess eru ýms smærri störf, uppboð, skýrslugerð o. s. frv. Það liggur því ljóslega fyrir, að bæjarfógetastarfið er orðið það umfangsmikið, að ekki veitir af óskiptum manni við það.

Nú eru þessum manni greiddar af ríkinu 1500 kr. á ári + dýrtíðaruppbót og skrifstofukostnaði, en frá bænum 3000 kr. að viðbættum skrifstofukostnaði. Auk þess hefir bærinn orðið að greiða gjaldk. 3000 kr. Allir sjá, að launagreiðslur til þessa manns eru í engu samræmi við það starf, sem honum er ætlað. Hann telur sjálfur, að störf hans fyrir ríkið séu meira en nóg fyrir sig, og ef litið er á hliðstæð embætti, sést, hve launakjör hans eru fráleit. Eins og tekið er fram í forsendum frv., eru 9 lögsagnarumdæmi, sem greiða lægri gjöld til ríkissjóðs en Neskaupstaður. En eins og gefur að skilja, verður ávallt mikill hluti af starfi slíks embættismanns fólginn í innheimtu.

Suður-Múlasýsla er ein af tekjudrýgstu sýslum landsins, og eru þó tekjur þaðan eigi nema rúmlega tvöfaldar við það, sem er úr Neskaupstað. Embættiskostnaður sýslumannsins þar nemur 12–13 þús. kr. á ári. Að vísu skal ég viðurkenna, að starfið er allt að helmingi meira, en samt ætti embættiskostnaður bæjarfógetans Neskaupstað að vera 7000 kr. Skipakomur í allri Suður-Múlasýslu eru færri en í Neskaupstað og af fiskiskipum kemur ekki nema ¼ á aðrar hafnir. Ríkið hefir og fleiri tekjustofna í Neskaupstað en hér er getið. Þannig eru 20 þús. kr. tekjur af síma, og þó er Neskaupstaður eini kaupstaðurinn, sem píndur er til að taka þátt í starfrækslu símans. Bærinn tekur auðvitað eigi með ljúfu geði þátt í símakostnaðinum, en hótað hefir verið að loka símanum, nema bærinn greiddi sinn hluta. Pósttekjur í Neskaupstað eru einnig stórmiklar.

Það eru því ekki strangar kröfur gerðar þótt farið sé fram á, að ríkið launi fógeta hér sem annarsstaðar. Ákvæðin um þetta í lögum um bæjarréttindi í Neskaupstað voru neyðarúrræði, sem búizt var við, að þingið lagaði síðar meir. Ég þykist því vita, að hv. deild taki þessu máli vel og hv. nefnd, sem fær það til athugunar, veiti því ýtarlega meðferð.

Ég skal svo ekki fjölyrða meir um þetta að sinni. Ég er fús til þess að gefa hv. n. allar þær upplýsingar um málið, sem hún kynni að óska.

Vil ég svo að endingu óska þess, að frv. gangi til 2. umr. og hv. allshn. að lokinni þessari umr.