03.08.1931
Efri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í C-deild Alþingistíðinda. (2480)

144. mál, bæjarstjórn á Eskifirði

Flm. (Ingvar Pálmason):

Þetta frv. er flutt samkv. beiðni sérstakrar n. innan hreppsn. í Eskifjarðarhreppi. Ástæðurnar fyrir frv. eru hinar sömu sem fyrir öðrum svipuðum frv., sem legið hafa fyrir þinginu fyrr og síðar, að hreppsn. í hinum stærri kauptúnum eiga við ýmsa erfiðleika að stríða um framkvæmdir hinna fjölþættu og umfangsmiklu verkefna kauptúnanna, eins og fyrirkomulaginu nú er háttað samkv. sveitarstjórnarl. Þykist ég ekki þurfa að fara frekar út í þetta að svo stöddu, því að þessar ástæður hafa verið raktar fram þing eftir þing, bæði af mér og öðrum. Ég vil þó leyfa mér að benda á það, að sérstaklega stendur á um þessa beiðni, þar sem fyrir liggja meðmæli hlutaðeigandi sýslun. um það, að beiðnin nái fram að ganga. Minnist ég þess ekki, að svo hafi áður verið, þegar slík frv. hafa verið borin fram í fyrsta sinn. Er þetta bending til Alþingis um það, hversu hér er um réttmæta kröfu að ræða, frá þeim aðilja, sem dómbærastur er í þessu efni. — Ég get látið þessu fáu orð nægja, því að málið liggur ljóst fyrir, eins og ég áður sagði, og auk þess hefir annað mál samskonar verið afgr. af þessari hv. d. nú fyrir skömmu til n., sem væntanlega fær einnig þetta mál til meðferðar. Ég vænti þess, að hv. d. taki þessu frv. vel, og vildi mælast til, að frv. yrði vísað til allshn., að umr. lokinni.