03.08.1931
Efri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í C-deild Alþingistíðinda. (2484)

150. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Jón Þorláksson:

Þetta er mjög merkilegt mál og því er sjálfsagt að veita því fulla athygli. Hv. flm. gat um það, að útgjöld til vegaviðhalds hafi farið hraðvaxandi á síðari árum, og er þar ekki ofsögum sagt, því að þau hafa hækkað úr 100 þús. kr. upp í 500 þús. kr.

Það eru aðallega tvær ástæður, sem þessari aukningu valda. Annarsvegar er sú, að með smálagfæringum er verið að reyna að gera ólagða vegi bílfæra á sumrum, en slíkar lagfæringar eru svo lítilfjörlegar, að þar er ekki að tala um nýjar vegalagningar, heldur verða þær að teljast til viðhaldsins og hækka því þann lið allmikið. Annað atriðið, sem hér kemur til greina, er það, að þar, sem umferðin er mest, slitna vegirnir svo mikið, að viðhaldskostnaður þeirra fer langt fram úr því, sem áður var. En það sorglega við þetta er, og það getur engum dulizt, sem komið hefir til útlanda, að okkar vegagerð er komin langt aftur úr, og munurinn er miklu meiri nú en var fyrir nokkrum árum, þótt vegir væru lítilfjörlegir þá. Það má með sanni segja, að varla hefir á nokkru öðru sviði önnur eins bylting orðið síðari árin og á sviði vegamálanna. Það sýndi sig erlendis, þegar bílaumferð jókst, að vegirnir þar voru allsendis ófullnægjandi, fóru illa með bílana, og þar sem þéttbýli var, var rykið alveg óþolandi. Nú er almennt búið að leggja vegi fyrir bifreiðarnar annarsstaðar, sem svo að segja eru óslítandi, og þannig hefir tekizt að losna bæði við viðhald og ryk. Með slíkum gagngerðum umbótum, þar sem viðhaldskostnaður hverfur að mestu, er þetta kleift með því að leggja nokkurn skatt á bifreiðarnar til þessa, svipaðan því og hér er farið fram á. Því verð ég að telja það mjög varhugavert að fara inn á þessa braut með það fyrir augum að ætla sér að létta á ríkissjóðnum viðhaldskostnaði með þessum skatti, — því að hvaðan á þá fé að koma til gagngerðra umbóta? Það eru nú 10 ár síðan fyrstu lög um bifreiðaskatt voru sett, en þá var sett það ákvæði í þau, að honum skyldi varið til að gera varanlegt slitlag á vegina, en nú á síðari árum hygg ég, að lög þessi hafi verið brotin og fénu varið til viðhalds vega. Í þessu frv. er svo farið fram á þetta, að fénu verði varið til viðhaldsins, til að létta á ríkissjóðnum, en það hygg ég, að þurfi frekari athugunar við.

Mér virðist sjálfsagt, að þessu frumv. sé fullur gaumur gefinn, en hitt álít ég jafnsjálfsagt, að fénu verði varið til að gera haldgott slitlag á vegina í kaupstöðum og á þeim vegum, sem umferðin er mest á. Ég hygg, að sérstök ástæða sé til, er lögunum frá árinu 1921 verður breytt, þannig að skattarnir verði hækkaðir, að taka mál þetta föstum tökum, því að þetta er það eina fé, sem við höfum til umráða til að koma vegunum í það ástand, sem hæfir nútímanum.