03.08.1931
Efri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í C-deild Alþingistíðinda. (2486)

150. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Jakob Möller:

Ég sé nú ekki ástæðu til að fara eins geyst út í mál þetta og hv. 2. landsk., að vilja ekki leyfa því að ganga til nefndar, því að þótt margt megi að því finna eins og það er nú, þá hygg ég, að það standi til bóta og megi laga það í nefnd. Ég hefi verið andstæður þessum skatti af ýmsum ástæðum. Mér virðist það enganveginn nægja að vísa til annara landa og segja, að þar séu slíkir skattar sem þessi, því að þar er ólíku saman að jafna. Þar eru önnur flutningstæki, járnbrautirnar, sem takmarka hvað flutningsgjöld geta orðið hæst, en hér er ekki um neitt slíkt að ræða. Þar er skatturinn því tekinn af þeim ágóða, sem bifreiðaeigendur fá en hér er verið að leggja skatt á umferð og flutningsþörf landsmanna. Hinsvegar er á það að líta, að nauðsynlegt er að koma vegagerðum sem mest í framkvæmd og gera vegina fullkomnari en þeir eru nú, því að eftir því sem vegirnir eru betri, eftir því er bifreiðaslit og vegaslit minna, og yrði þetta því stundarskattur, sem myndi borga sig er frá liði.

En í þessu frv. er annað atriði, sem mér virðist alveg óviðunandi. Í því er ákveðið, að skatturinn skuli eingöngu ganga til viðhalds vega, sem ríkisjóður og sýslusjóðir bera kostnað af. Nú er það vitanlegt, að t. d. hér í Reykjavík er mikill fjöldi bifreiða, sem koma aldrei út fyrir land bæjarins, og hvaða vit er í því, að láta slíkar bifreiðar greiða háan skatt til sýsluvega? Þannig er um fleiri kaupstaði. Kringum Ísafjarðarbæ er svo að segja enginn bílfær vegarspotti, og virðist þá hæpið að greiða skatt af kaupstaðabifreiðum til þeirra vega, en láta bæinn enga hlutdeild fá í því. Svo er og um ýmsa fleiri bæi. Ef eitthvert slíkt ákvæði væri sett inn í þetta frv. af hv. n., þá gæti ég veitt því samþykki mitt. — Fleiru hygg ég ekki, að ég hafi ástæðu til að víkja að.