03.08.1931
Efri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í C-deild Alþingistíðinda. (2487)

150. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Flm. (Jón Jónsson):

Ég get þakkað þeim hv. ræðumönnum, sem hér hafa tekið til máls, fyrir það, að þeir hafa stillt ummælum sínum mjög í hóf og veitt frv. þessu frekar góðar undirtektir, en sérstaklega get ég þakkað hv. 1. landsk. fyrir hans ummæli. Hann virtist samþykkur þeirri hugsun, sem liggur til grundvallar þessu frv., en vildi verja fé því, sem fengist við þetta, til gagngerðra umbóta á vegunum og koma þeim í nútímahorf. Það má vel vera, að við ættum að taka upp þá stefnu, en í frv. eru engar takmarkanir settar gegn því, heldur er það lagt á vald vegamálastjórnarinnar. Ég tel það mjög æskilegt, að vegunum yrði breytt í nútímahorf, en þegar við miðum við önnur lönd og hvað þau hafi gert, þá er það alls ekki sambærilegt, því að hér býr mjög fámenn þjóð, í lítt ræktuðu og strjálbýlu landi, svo að við verðum að leggja geysilanga vegi, sem lítil umferð er um, og þess vegna er það ósköp skiljanlegt, að við verðum að láta okkur nægja með ófullkomnari vegi en aðrar þjóðir. Ég er sammála hv. þm. í því, að að þessu beri að stefna, og treysti engum betur í því efni en vegamálastjóra. En að nokkru leyti verðum við að haga okkur eftir okkar fátækt og verja þessu fé til viðhalds, því að það er svo þungur baggi, að nauðsyn ber til, að honum verði af létt að nokkru. Þetta mál er þó mjög athugandi, og geri ég ráð fyrir, að n. láti í ljós álit sitt um það.

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. landsk. sagði, að þetta frv. hefði fyrst komið fram árið 1927, þá er það að segja, að það er ekki rétt. Hv. þm. G.-K. bar þá fram frv. í Nd., sem gekk ekki í þá átt að auka tekjurnar af benzínskattinum, heldur breyta honum þannig að láta aðalskattinn lenda á vörubifreiðunum, en létta aftur á hinum, sem notaðar eru til fólksflutninga. Þar var allt önnur hugsun á bak við, án þess að ég vilji hallmæla því frv. nokkuð.

Mér skildist á hv. þm., að hann álíti, að ég teldi aðalástæðuna fyrir þessu þá, að nágrannaþjóðirnar hefðu tekið þetta upp. En það er í raun og veru aukaástæða. Ég benti aðeins á, að þær hefðu gert þetta. En aðalástæðan fyrir frv. er auðvitað vegaþörfin og sú staðreynd, að ríkið hefir orðið að leggja stórfé í vegabætur. En það er ekki nema eðlilegt, að þeir, sem nota vegina, leggi eitthvað fram til viðhalds þeim.

Annars fannst mér ruglast um ástæðurnar hjá hv. þm., þar sem hann í öðru orðinu taldi, að þetta yrðu drápsklyfjar fyrir bændur landsins, en að hinu leytinu, að það myndi eyðileggja bifreiðastöðvarnar. Ég held, að það geri hvorugt. Bifreiðastöðvarnar myndu hækka bifreiðagjaldið, ef þær þyrftu þess með. En ég hefi þá trú, að því meira fé, sem við höfum til að leggja í vegina, því ódýrari verði bifreiðaaksturinn. Ég held, að það þurfi ekkert að óttast, að bifreiðunum verði hent í ríkissjóð. Ég held, að það myndi verða eins góður atvinnuvegur eftir sem áður, og að margir mundu sækjast eftir því að verða bílstjórar, eins og nú er, þar sem næstum því má segja, að hver strákur vilji verða bílstjóri.

En þó svo færi, að bifreiðagjaldið hækkaði í bili, þá teldi ég það ekki eftir bændum né öðrum. Ég teldi það ekki eftir þeim, sem hefðu bifreiðavegi heim til sín, þótt þeir yrðu að borga eitthvað til þeirra, og greiða þannig fyrir því, að hinir fái vegina sem fyrst. Fyrir mér er það sama um kaupstaðabúa sem aðra, að þeir, sem nota vegina, eigi að borga viðhaldið. Því hefir verið haldið fram, að þetta myndi draga úr samgöngum, en ég sé engar líkur til þess. Ef bílstjórar kæmust að þeirri niðurstöðu, að akstur yrði þeim dýrari, þá myndu þeir leggja meira gjald á notendurna.

Þá er það hv. 1. þm. Reykv., sem talaði mildilega um frv. Hann hélt því fram, að kaupstaðabúar yrðu hart úti. Það væru sumir bifreiðastjórar, sem færu ekki út fyrir takmörk kaupstaðanna, og þeir yrðu þá hart úti. En það mun nú vera mikill fjöldi kaupstaðabúa, sem ekur meira og minna eftir þjóðvegunum. Svo að það munu óbeinlínis lækka gjöld á kaupstaðabúum, ef minna fé þarf að verja til viðhalds vegunum. Hv. þm. minntist á það, að Ísafjörður hefði engan veg utan kaupstaðarins. En frv. stefnir einmitt að því, að leggja vegina, þar sem þeir eru minnstir. Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta áður en frv. gengur til 2. umr. og fjhn.