15.08.1931
Efri deild: 30. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í B-deild Alþingistíðinda. (249)

1. mál, fjárlög 1932

Frsm. (Einar Árnason) [óyfirl.]:

Ég þarf ekki að segja nema fáein orð, og aðallega út af þeim orðum, sem féllu hjá hv. 2. og hv. 6. landsk.

Báðir þessir hv. þm. halda því fram, að stj. og hennar flokkur ætlaði ekkert og vildi ekkert gera til þess að afstýra atvinnuleysi og skorti, sem hér væri yfirvofandi. Þetta er alls ekki rétt. Ég vil benda þessum báðum hv. þm. á það frv., sem liggur fyrir Nd., sem á að verða til þess að gera ríkissjóði kleift að sínum hluta að leggja fram fé til þess að bæta úr atvinnuleysinu í landinu.

Hv. 6. landsk. talaði um, að hér komi fólk daglega, að mér skilst til fátækrastjórnarinnar, til þess að biðja um björg eða vinnu. En veit ekki hv. þm., að það er bærinn, sem fyrst og fremst á að sjá fyrir sínu fólki? Ég held, að þessum hv. þm. báðum sjáist yfir þetta atriði. Og þegar hv. 6. landsk. er að tala um, að það sé hart, að enginn eyrir sé til eftir þessi góðæri, þá vænti ég þó þess, að stjórnin á Reykjavíkurbæ hafi verið svo góð, að hann eigi einhvern eyri til, sem hann geti varið til þessara hluta. Ég vænti þess, að þessir hv. þm. geti fengið tækifæri til þess að greiða atkv. um það frv., sem nú liggur fyrir Nd. um að rétta sveitarfél. hjálparhönd.

Ég hefi svo ekki meira að segja um þetta atriði eða önnur, sem fram hafa komið. En mér fannst nauðsynlegt að lýsa svolítið upp skilning þessara hv. þm. á þessum málum.