10.08.1931
Efri deild: 25. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í C-deild Alþingistíðinda. (2493)

221. mál, sveitarstjórnarlagabreytingar

Flm. (Jón Baldvinsson ):

Frv þetta var flutt á þinginu í vetur og fer fram á að rýmka rétt kauptúna til þess að verða sérstök sveitarfél. Í sveitarstjórnarl. frá 1927 er ákveðið, að kauptún, sem hefir 300 íbúa eða fleiri, hafi rétt á að verða hreppur fyrir sig. Í þessu frv. er lagt til, að kauptún með 200 íbúa geti krafizt þessa. Þetta er eina breytingin á sveitarstjórnarl., sem frv. fer fram á. Að öðru leyti er frvgr. shlj. 4. gr. þessara laga.

Ég vil svo mælast til þess, að frv. verði látið ganga til 2. umr. og hv. allshn. Ætti n. að geta látið málið fá skjóta afgreiðslu, því hún mun orðin málinu kunnug, þar sem það lá ærið lengi hjá henni á vetrarþinginu.

Ég vil svo nota tækifærið til þess að spyrja hv. nefndir, hvernig ýmsum þeim málum liði, sem vísað hefir verið til þeirra fyrir löngu og ekki hafa sézt síðan. Meðal þeirra er t. d. frv. til framfærslulaga, sem vísað var til hv. allshn. í þingbyrjun, en ekkert nál. hefir ennþá birzt um, og ýms fleiri mál mætti nefna. Vildi ég mælast til þess, að hv. nefndir afgreiði þessi mál hið fyrsta.