11.08.1931
Efri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í C-deild Alþingistíðinda. (2496)

225. mál, skipun barnakennara og laun

Flm. (Jón Baldvinsson):

Þetta frv. var flutt á þinginu í vetur í Nd. Sá, sem þá beitti sér fyrir því, var fræðslumálastjórinn, núv. þm. V.-Ísf. Það var eðlilegt, að málið kæmi frá honum, því að hann er því kunnugastur, við hvaða kjör barnakennarar hér á landi eiga að búa.

Lög um þetta efni eru frá 1919, og eins og ýmisleg löggjöf, sem þá var sett, koma þau ekki heim við það, sem nú er. M. a. hefir raskazt svo sá launagrundvöllur, sem byggt var á 1919, að þeim mönnum, sem þá gátu eftir lögunum haft sæmilegar tekjur, er næstum ókleift að komast af nú, vegna röskunar á verðlagi.

Það, sem farið er fram á með þessu frv., er lítilsháttar hækkun á launum þeirra. Barnakennarar í Reykjavík hafa um 200 kr. alls á mánuði, og það eru ekki há laun, þegar tekið er tillit til þess, að þetta starf er mjög þýðingarmikið og í þessa stétt þurfa að veljast góðir menn. Hættan, sem liggur fyrir, þegar launakjörin eru svona lág, er, að beztu mennirnir hverfi úr stéttinni og leiti sér atvinnu annarsstaðar, en þeir lélegri sitji eftir með lágu launin. En þá er ekki tilganginum með barnafræðslunni náð. Allar þjóðir keppa að því sama marki, að gera hana sem fullkomnasta, enda eru kennarar betur launaðir í nágrannalöndunum en hér, og þó er dýrtíð þar minni en hjá okkur. Það var t. d. bent á það í grg. fyrir þessu frv., sem flutt var hér á þinginu í vetur, að full laun barnakennara í Stokkhólmi og í Osló væru 7–8 þús. kr., en hérna eru þau um 4 þús. kr., eða 4600 kr. allra hæst. Þetta er geysimunur, og hlýtur að enda með, að íslenzkir barnaskólar fái lélegri kennarakrafta en barnaskólar annarsstaðar. Borgun fyrir þessi störf er heldur ekkert í samræmi við borgun fyrir önnur störf, t. d. trúnaðarstörf í skrifstofu. En það virðist þó ekki vera minna trúnaðarstarf, sem kennurum er falið á hendur, að sjá um börnin í skólunum og veita þeim holla og góða fræðslu.

Ég er nú ekki mjög fróður í löggjöfinni um skipun barnakennara og laun þeirra frá 1919, en við þann samanburð, sem ég hefi séð og fengið út úr þeim l. og þessu frv., sé ég, að það er ákaflega stillt í hóf kröfum þeirra um laun. Mér þykir því tilhlýðilegt af þinginu og sennilegt, að það muni taka þær til greina, enda voru á vetrarþinginu allar líkur til, að það hefði verið gert, ef það hefði ekki verið rofið, eins og kunnugt er.

Ég vil mæla með því, að þetta frv. gangi fram til athugunar í n. Það gæti sennilega átt heima í tveimur n., en það er líklegt, að það eigi fremur heima í fjhn.; það gæti líka átt heima í menntmn., en ég geri það að till. minni, að því verði vísað til fjhn. Ég vil mæla með því, að því verði, að umr. lokinni, vísað til 2. umr. og til fjhn.