17.07.1931
Neðri deild: 3. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (25)

1. mál, fjárlög 1932

0025Ólafur Thors [óyfirl.]:

Hæstv. forsrh. þótti það sitja illa á mér að vera að fara í meiðyrðamál, eins orðljótur og ég hefði verið um hann. Það sem ég sagði, var það, að hæstv. ráðh. hefði gefið út bók fyrir illa fengið fé, og notaði ég í því sambandi viðeigandi orð, sem notað er í einu af boðorðum Mósesar — boðorði, sem hæstv. ráðh. mun hafa lært, þó að ekki verði þess vart í verkunum. Annars er það svo, að ef einhver gerist til að lýsa með réttum orðum framferði ráðh. og flokks hans, er hann kallaður skömmóttur, og verð ég að hlíta því sem aðrir og uni vel mínu hlutskipti, því að flestir munu skilja, hvílíkur reginmunur er á því tvennu, að lýsa atferli núv. stj. og flokksmanna hennar, og hinsvegar að vera fremjandinn í því sambandi.

Hæstv. forsrh. var að fárast yfir því, hve ég væri í vondu skapi þessa dagana. Hæstv. ráðh. má sannarlega vera glaður yfir sínu góða skapi, eða öllu heldur skapleysi, en ég er svo gerður, að ég get ekki verið annað en alvarlega skapi farinn út af ástandinu í landinu, eins og það er nú, og það er ekki nema eðlilegt, að bæði mér og öðrum renni í skap við að hlýða öðrum eins ræðum og hæstv. forsrh. hefir haldið hér í dag. Hæstv. ráðh. hummar það fram af sér að gefa þinginu sjálfsagða skýrslu um fjárhagsástandið í landinu, og má hann þó vel vita, hversu þm. er nauðsynlegt að fá slíka skýrslu, til þess að geta ráðið fram úr vandamálum þjóðarinnar á þessum krepputímum. Og sé hæstv. ráðh. eins hugað um, að ég sé í góðu skapi, eins og hann lætur í veðri vaka, ætti hann að síður að láta fyrir farast að gefa slíka skýrslu, ef hann getur upplýst, að ástandið í landinu sé betra en okkur flesta órar fyrir, því að ég get fullvissað hæstv. forsrh. um það, að hann mundi gera mig léttbrýnni, ef svo vel væri. Sú alvara, sem nú býr í hug mínum venju fremur, á við þau rök að styðjast, að ég hlýt sem þm. og þjóðfélagsborgari að vera kvíðafullur og þungbúinn yfir ástandinu í landinu, nú og á næstunni, og það því fremur, sem ég treysti núv. valdhöfum illa til að stýra út úr öngþveitinu og óttast auk þess, að meiri hl. þingsins skilji ekki, eða vilji ekki skilja þær réttlátu kröfur, sem meiri hl. þjóðarinnar gerir um að fá fram jafnrétti einstaklingsins um áhrif á úrslit þjóðmálanna. Hið mikla öngþveiti, sem fjármál okkar nú eru í, hin litla geta núv. stj. til að ráða fram úr því öngþveiti og óttinn við það, að ekki fáist fram nein rétting á hinu mjög svo rangláta kjördæmaskipulagi — allt þetta veldur því, að ég er nú meiri alvöru búinn en hinn gálausi, en góðlyndi forsrh.