15.08.1931
Efri deild: 30. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í B-deild Alþingistíðinda. (251)

1. mál, fjárlög 1932

Jón Baldvinsson:

Í síðustu ræðu minni láðist mér að geta um eitt atriði, sem athygli mín hefir verið vakin á, en það er í þeim lið, sem ætlaður er til flóabátanna. Þar er styrkur, innifalinn í heildarupphæðinni, veittur kaupfél. í Stykkishólmi til að halda uppi mótorbátaferðum um Breiðafjörð. Nú er það, svo, að kaupfél. hefir engan bát til slíkra ferða og enga aðstöðu til að nota þennan styrk, nema þá sem milliliður, en slíkt er alveg óþarft. Ég hefi fengið bréf að vestan um þetta atriði, og þar er þessa getið, jafnframt því, að sá maður, sem haldi uppi þessum ferðum og eigi því að fá styrkinn, heiti Guðmundur Jónsson frá Narfeyri. Þetta vildi ég láta leiðrétta, því að vitanlega nær það ekki nokkurri átt að veita öðrum styrkinn en þeim, sem á að fá hann. Þetta vil ég vonast til, að hv. þdm. athugi fyrir 3. umr.

Svo er það ekki mikið meira, sem ég þarf að segja, nema hvað viðvíkur þeim ummælum, sem hv. 3. landsk. beindi til mín viðvíkjandi atvinnuleysisstyrknum til kaupstaða og hvað þeir legðu af mörkum til atvinnubóta. Ég vil vekja athygli hans á því, að fulltrúar Alþfl. hafa krafizt þess hvað eftir annað í bæjarstj., að haldið verði áfram með þau verk, sem þegar er hafizt handa um, og ennfremur, að lagt verði út í ýmsar nýjar framkvæmdir.

Annars vil ég benda hv. þm. á það, í tilefni af því, að hann sagði, að þessi mál ættu að ræðast í bæjarstj. Rvíkur, að hér tala ég sem fulltrúi þjóðarinnar um þær ráðstafanir, sem ríkinu ber að gera, og það er hinn eini rétti vettvangur að ræða það hér á hv. Alþ. Hitt er óþarfi, að blanda hér inn í þessar umr., hvaða ráðstafanir Rvíkurbær eigi að gera. Það verður rætt á allt öðrum vettvangi.