15.07.1931
Sameinað þing: 1. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í B-deild Alþingistíðinda. (2510)

Rannsókn kjörbréfa

Bergur Jónsson:

Það er rétt, að fram hefir komið kæra út af kosningunni í Barðastrandarsýslu, en eins og hv. 3. landsk. þm. tók réttilega fram, er hér ekki um þannig vaxin atriði að ræða, að þau valdi nokkru um úrslit kosningarinnar. Atkv.munurinn var 415, og eftir því, hvernig atkv. þess manns, sem sagt er, að ranglega hafi kosið, fellur, verður munurinn 413 eða 414. Ég get ekki gert mig ánægðan með það, að kærunni verði vísað til kjörbréfanefndar, því að ef rétt er það, sem í henni stendur, er hér um glæpsamlegt athæfi að ræða frá minni hálfu, og heyrir þetta þá að réttu undir ákæruvaldið, úr því að eigi er tekin til greina krafa kæranda um ógildingu kosningarinnar. Mér er fyrst og fremst gefið það að sök, að ég hafi gefið út vottorð in blanco, sem fylgismenn mínir síðan hafi tekið og útfyllt. Er auðvitað ekkert við þessu að segja í sjálfu sér, ef vottorðin reynast rétt, þegar til kemur. En ég hefi alls ekki fengið neinum slík vottorð í hönd. Hinsvegar var fyrirsjáanlegt, vegna þess, að kosið var eftir kjörskránni frá í fyrra, að það mundi þurfa að gefa æðimörgum slík vottorð; margir höfðu flutzt búferlum frá því síðasta kjörskrá var samin, o. s. frv., og lét ég því copiera nokkur eyðublöð í þessu skyni til flýtis, en við skrifari minn gáfum einir slík vottorð út. — Hvað snertir þennan eina mann, sem talið er í kærunni, að ekki hafi haft atkvæðisrétt, man ég ekki betur en að hann hafi staðið á aukakjörskrá í Flatey, svo að ég hefi ekki þar gert neitt á móti betri vitund, enda vissi ég ekkert um pólitískar skoðanir þessa manns, og var auk þess svo viss um kosningu mína, að ég þurfti ekki að beita slíkum aðferðum, þó að mig hefði langað til, sem auðvitað var eigi. — Þá er nafngreindur annar kjósandi í kærunni, sem fengið hafi tvö slík vottorð. Þetta mun rétt vera, og hygg ég, að það komi meira og minna fyrir á hverri sýsluskrifstofu, því sýslumenn geta eigi neitað um slíkt vottorð, þótt þeir muni eða þá minni, að þeir hafi síður gefið vottorð fyrir sama kjósanda. Annars er það um þennan kjósanda að segja, að hann er tengdur kæranda, og býst ég við, að hann hafi verið hans maður, en ekki minn. Vottorðin gaf ég út eingöngu vegna embættisskyldu, en ekki til þess að bæta fyrir sjálfum mér. Ég hefði helzt kosið að vera laus við þau, en þess átti ég ekki kost, fremur en aðrir sýslumenn eiga.

Ég skal að lokum lýsa ánægju minni yfir því, að kjördeildin hefir lagt til, að kosning mín verði tekin gild, en ég sé ekki neina ástæðu til þess að vísa kærunni til kjörbréfanefndar, samkv. því, sem ég þegar hefi tekið fram, en mun hinsvegar reiðubúinn til að svara til sakar á réttum vettvangi. Að þingið fari að láta kæruna til sín taka, finnst mér ástæðulaust með öllu, úr því að krafa kæranda um ógildingu kosningarinnar er eigi til greina tekin.